Allt fast við Dunhaga

Húsið hefur staðið autt að mestu undanfarið þar sem breytingar hafa staðið til. Nú er ljóst að breyta þarf deiliskipulagi vegna þeirra.

– Ákvörðum um stækkun felld úr gildi. Þarf að breyta deiliskipulagi vegna svo stórrar framkvæmdar. –

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og hækkun húss að Dunhaga 18 til 20. Þar var fyrirhugað að byggja inndregna hæð ofan á núverandi hús, viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og fjölga íbúðum úr 8 í 20 auk þess sem opna átti þar stórmarkað. Úrskurðarnefndin telur að framkvæmdirnar feli í sér það umtalsverð frávik frá byggðamynstri svæðisins að breytingin hefði þurft að eiga sér stoð í deiliskipulagi.

Hópur íbúa við Hjarðarhaga 27 og Tómasarhaga 32 kærðu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita byggingarleyfið. Þeir töldu að grenndarkynning sem farið hefði fram væri ólögmæt þar sem hún hefði eingöngu náð til íbúa sunnan Hjarðarhaga. Ekki hefði verið tekið tillit til þess að úr íbúðum norðan götunnar væri útsýni til Reykjaness sem myndi skerðast með „tilheyrandi rýrnun lífsgæða íbúa og verðgildis íbúðanna.“

Bætt á skort á bílastæðum

Þá bentu íbúarnir á að umferð myndi aukast til muna með fjölgun íbúða og komu stórmarkaðs sem bætti á þann skort á bílastæðum sem þegar væri til staðar. Stækkun kjallara yrði erfið framkvæmd þar sem húsin væru byggð á klöpp og mögulega þyrfti að sprengja fyrir stækkuninni. Tjón af því gæti orðið óbætanlegt þar sem íbúðarhús stæðu í 15 metrar fjarlægð og bílskúrar á Tómasarhaga 32 í átta metra fjarlægð. Þeir sem sendu inn athugasemdir voru: Ásta Logadóttir, Hildur Þórisdóttir, Eyþór Mar Halldórsson, Ásdís Schram, Sólveig K. Jónsdóttir, Áslaug Árnadóttir og Einar Ólafsson.

Dunhagi 18 til 20 er nærfljónustukjarni

Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að Dunhagi 18 til 20 sé skilgreindur sem nærþjónustukjarni þar sem heimilt að reka minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfa. Með þeim breytingum sem fyrirhugaða hafa verið mun nýtingarhlutfallið á reitnum aukast um allt að 77% sem eru umtalsvert frávik frá þéttleika byggðar og byggðamynstri umrædds svæðis. Úrskurðarnefndin komst því að þeirri niðurstöðu að breytingin hefði þurft að eiga sér stoð í deiliskipulagi sem hún átti ekki og því hafi ekki verið nóg að farið hafi fram grenndarkynning. Var ákvörðun byggingafulltrúans því felld úr gildi. Á fundi skipulagsfulltrúa 18. febrúar 2015 eða fyrir meira en þremur árum var tekin fyrir umsókn um leyfi til að fjölga íbúðum á 2. og 3. hæð úr fjórum í tíu á hvorri hæð, breyta innréttingum verslunarrýmis á 1. hæð, breyta kjallara með geymslum og þvottahúsum og færa sorpgeymslur og barnavagna- og hjólageymslur út í tvær einingar í bílskúr. Málinu var vísað til umsagnar Umhverfis og skipulagsviðs á þeim tíma. Og nú hefur Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellt útgefið byggingarleyfi úr gildi.

You may also like...