Yfir 100 fyrirtæki komin í Sjávarklasann

Bakkaskemman á Grandagarði hýsti áður netagerð en nú eru þar yfir hundrað fyrirtæki sem mörg tengjast sjávarútvegi og fleiri vilja bætast í hópinn.

Um 100 fyrirtæki eru nú staðsett í Sjávarklasanum á Grandagarði. Allt að 140 manns starfa þar að ýmsum þróunarverkefnum flestum tengdum sjávarútvegi. Sjávarklasinn nýtir alla efri hæð gömlu Bakkaskemmunnar og er þegar kominn með hluta af neðri hæðinni fyrir starfsemi sína. Þar er Matarhöllin sem er hluti af þessu umfangsmikla starfi.

Þór Sigfússon er upphafsmaður Sjávarklasans og framkvæmdastjóri. Hann segir upphafið að honum liggja í framhaldsnámi sínu við Háskóla Íslands. Hann hafi ákveðið að hrinda þeirri hugmyndafræði sem fólst í doktorsverkefni hans í framkvæmd. Þessi starfsemi byggir á hugmyndafræðinni um samtengingu sem er að ryðja sér nokkuð til rúms í atvinnustarfsemi. Þór segir að sá skilningur vaxi hratt að samskipti og samstarf fólks jafnvel af ólíkum toga og með mismunandi áhugamál, reynslu og starfsemi geti skilað góðum árangri. “Ég hef stundum sagt að kaffikannan geti skilað meiru en góðum kaffisopa.” Það hefur gengið eftir á Grandagarðinum. Nú er fjöldi aðila á biðlista að komast í þetta samfélag og ljóst að auka þarf við húsnæði Sjávarkalsans. Þór er í ítarlegu viðtali í Vesturbæjarblaðinu að þessu sinni þar sem fjallað er um þessa nýjung í atvinnulífinu. 

You may also like...