Margir líta á félagsstarfið sem framhald af daglegum störfum

Frá undirritun samnings um að Félag eldri borgara annaðist um félagsstarfið. Frá vinstri; Jóhanna Ragnarsdóttir, starfsmaður FEB, Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri FEB, Ellert B. Schram, Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri í Breiðholti, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður FEB, Anna Kristín Bjarnadóttir, umsjónarmaður í félagsstarfi, Elísabet Karlsdóttir, verkefnastjóri félagsmiðstöðva í Breiðholti og Guðrún Árnadóttir í stjórn FEB.

Við Árskóga í Mjóddinni í Breiðholti er heill heimur. Ekki heimur út af fyrir sig því hann hefur margvísleg tengsl við annað mannlíf bæði í nágrenni og annars staðar. Þar eru 101 íbúð fyrir eldri borgara – íbúðir fyrir fólk sem er orðið 60 ára og eldra. Íbúðirnar eru í nágrenni við félagsþjónustuna og innangengt er þaðan í félagsstarfið. Í Árskógum búa um 150 manns og þar er bæði rekið öflugt opið félagsstarf og einnig félagsstarf með stuðningi.

Markmið félagsstarfsins er fyrst og fremst að draga úr félagslegri einangrun með því að bjóða upp á opið félags- og tómstundastarf. Félagsstarfið er vettvangur samfunda, mannlegra samskipta og skapandi athafna þar sem leitast er við að virkja frumkvæði og hæfileika hvers og eins. Frístunda- og félagsstarfið í Árskógum er opið frá kl. 8.00 til 16.00 alla virka daga. Þar fer fram fjölbreytt starfsemi sem er ætluð fólki á öllum aldri og alls ekki einskorðuð fyrir fólk sem er komið yfir ákveðin aldursmörk. Öflug dagskrá með skemmtilegum og fjölbreyttum verkefnum er í boði þar sem leiðbeinendur, sjálfboðaliðar og verktakar leiða. Þá eru margar nefndir í gangi sem skipuleggja og vinna að ýmsum verkefnum. 

Félag eldri borgara annast félagsstarfið

Fyrir rúmum tveimur árum eða í júní 2016 var gerður samningur á milli Reykjavíkurborgar og Félags eldri borgara um að félagið annist félagsstarfið. Með samningnum var tryggt að félagið hafi aðstöðu fyrir félagsstarfið sem og aðra umsýslu þess. Við undirritun samningsins kvaðst Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Félags eldri borgara telja að samstarfið vera bæði jákvætt og skemmtilegt. Hún minnti á að verið væri að byggja fleiri blokkir fyrir eldri borgara í hverfinu, sem teknar verða í notkun á næsta ári sem hefur gengið eftir. Aldrei er of oft minnt á þá möguleika sem felast í félagsstarfinu hvort sem er með þátttöku í þeirri starfsemi sem er í boði eða bara að koma og sýna sig, sjá aðra og spjalla saman. Þess má geta að gott rými er til staðar með dansgólfi sem nýtist fyrir kaffi, spjall, bíósýningar, fyrirlestra og annað. Frjáls aðgangur er að opnum rýmum til spilamennsku og húsnæðið er einnig lánað til ýmis konar námskeiða, hópa- og klúbbastarfs eftir opnunartíma og á honum ef mögulegt er. Þá hafa gestir aðgang að tölvu og spjaldtölvum og nýjustu dagblöðin liggja jafnan frammi til lestrar. Einnig eru hárgreiðslu- og fótaaðgerðastofur í Árskógum. Umsjónarmaður félagsstarfsins í Árskógum er Anna Kristín Bjarnadóttir.

María Gunnarsdóttir, Sigurður Hannesson, Regína Birkis, Þórey S. Guðmundsdóttir og Guðberg Haraldsson eru öll virk í félagsstarfinu í Árskógum. María, Sigurður og Þórey eru tónlistarfólk og spila í félagsstarfi aldraðra á fleiri stöðum.

Félagsstarfið vettvangur til að efna til kynna

Beiðholtsblaðið leit við í eftirmiðdagskaffi í Árskógum á dögunum en þann sama dag var efnt til útihátíðar sem einskonar byrjun á hauststarfinu. Við kaffiborðið með tíðindamanni sátu þau Þórey S. Guðmundsdóttir, Sigurður Hannesson, María Gunnarsdóttir, Guðberg Haraldsson og Regína Birkis auk Önnu Kristínu forstöðukonu. Guðberg og Regína eru á meðal frumbyggja í Árskógum en þau eru líka hjón sem leiddu saman hesta sína komin á efri ár eftir að hafa misst maka sína. Þau segjast gjarnan vera hátt uppi en þau búa upp á 12 hæð og hafa gott útsýni. Þau segja talsvert um að eldra fólk pari sig og slík pör verði oft til í húsinu. Fólk þurfi ekki endilega að verða hjón enda hafi engin þeim vitanlega gift sig eins og þau. Fólk geti búið saman eða sitt í hvorri íbúð og notið vinskapar og samveru. Fólk hafi mikla umgengni. Það kynnist kannski bara í lyftunni og félagsstarfið sé góður vettvangur til þess að efna til kynna og mynda vináttu. Áhugamál geti verið margvísleg. Fara saman út að borða, fara í leikhús og fleira sem fólk myndi síður gera ef það væri einsamalt. Regína og Guðberg hafa þekkst í gegnum árin. Voru vinnufélagar og telja það hafa ýtt undir nánari vinskap þegar þau voru bæði orðin ein.

Tónlistin er ákveðinn hluti

Tónlist er ákveðinn hluti félagsstarfseminnar og talsvert um að fólk spili á hljóðfæri og stundi söng. Þau Þórey, Sigurður og María fylla þann hóp og spila öll á hljóðfæri. Þær leika á gítara og Sigurður spilar á harmonikku. Þau voru nýkomin inn af flötinni á bak við sal félagsstarfseminnar þar sem haldin hafði verið smá hausthátíð til þess að fagna nýjum kafla í félagsstarfinu en með haustsólinni færist fjör í félagsstarfið. Anna Kristín hafði boðið til þessarar samveru þar sem söngur og gleði voru í fyrirrúmi. María er Vestmanneyingur og var spurð hvort það væri eilífur Brekkusöngur hjá þeim enda Þjóðhátíðin í Eyjum skammt að baki. “Já, það er alltaf Brekkusöngur hjá okkur,” svaraði hún að bragði. “Það er svo ánægjulegt að koma hingað, spila og syngja og vera með þessu skemmtilega fólki hér í félagsstarfinu. Við erum oft fleiri saman og spilum á þremur stöðum á meðal eldri borgara að staðaldri, hér í Boðaþingi og Gullsmára.” Sigurður tekur undir þessi orð. “Þetta er allt fyrir ánægjuna og við hefðum ekki viljað missa af þessu frábæra tækifæri,” segir hann og Anna Kristín bætir við að það væri ekkert félagsstarf ef ekki væri um svona hresst og skemmtilegt fólk að ræða sem drifi þetta áfram. Sigurður segir að margt söngfólk notfæri sér félagsstarfið. “Sumir karlarnir syngja með Kátum körlum sem æfa í Árskógum og eftir öðrum man ég úr Fóstbræðrum og svo er talsvert um að fólk syngi með Gerðubergskórnum sem á upptök sín í félagsstarfinu í Gerðubergi.”  

Þessar konur höfðu um margt að spjalla yfir kaffinu. Myndin var tekin á sýningu í Árskógum á liðnu vori.

Dans fyrir fólk með stuðningsbúnað

Eitt af því em er í boði í félagsstarfinu er stóladans en það er dans fyrir fólk sem á erfitt með hreyfingar eða gang. Fólk sem notar stuðningsbúnað á borð við göngugrindur eða er jafnvel bundið hjólastól. Notast er við tónlist af geisladiski og dansinn hannaður eftir hreyfigetu og þörfum þeirra em taka þátt í dansinum á hverjum tíma. Boðið er upp á leikfimi tvisvar í viku og Boccia er stöðugt vinsælt. Það sem oftast vekur athygli út fyrir veggi hússins er trúlega sú öfluga handavinna og listsköpun sem fer þar fram. Margir vinna í tré og hafa útskurðarmunir og jafnan vakið athygli á forsýningum þar sem almenningi er boðið að skoða afrakstur vetrarstarfsins hvort sem um úrskurð, smíði, málun, fatahönnun eða annað. Fjölbreytnin er fyrir öllu og athyglisvert hvaða hæfileikar leynast hjá fólki þegar það fær tíma og tækifæri til þess að sinna þeim og þjálfa undir stjórn leiðbeinenda.

Átján holu púttvöllur

Golf er eins konar þjóðaríþrótt í Árskógunum en góður 18 holu púttvöllur er að húsabaki og á meðan tíðindamaður spjallaði við hópinn voru nokkrir út á lóð með golfsettin sín að pútta. Þegar klukkan nálgaðist fjögur drifu hraustir menn sig út á flötina til þess að taka til. “Það verður að taka allt inn fyrir kvöldin,” segir Þórey. “Það er alltaf hætta á að eitthvað sé eyðilagt eða því stolið.”

Nefndir um hin ýmsu málefni

Sérstök nefnd annast um púttið en það eru margar fleiri nefndir í félagsstarfinu í Árskógum. Þar er líka að finna bridgenefnd, salarnefnd og móttökunefnd. Hlutverk hennar er að kynna nýjum íbúum innviði hússins og allt félagsstarfið og láta fólk vita af hvað hægt sé að gera sér til dægrastyttingar og skemmtunar. Svo er notendanefnd sem vinnur í samstarfi við félagsþjónustuna og umhverfisnefnd sem sér um lóðina og gætir þess að halda henni þrifalegri og fagurri.

Karlarnir eru að koma meira að starfinu

En hvað með konur og karla. Eru konurnar duglegri við félagsstarfið. Þau segja að karlarnir séu að koma meira og meira að starfinu. Það sé líka ýmislegt í boði sem fangi huga þeirra. Konur hafi þó löngum verið iðnari og fljótari að koma. Þetta kunni að snúast að einhverju leyti um að karlar af þeirri kynslóð sem nú séu að komast á hin heldri ár hafi verið bundnari vinnu sinni og ef til vill vinnufélögum en konur sem sumar hverjar hafi verið heimavinnandi að minnsta kosti að einhverju leyti og ef til verið virkari í félögum en karlarnir. En þetta sé mikið að jafnast og karlar stundi félagsstarfið af ákefð rétt eins og konur. Er starfsaldri lýkur taka margir að líta á félagsstarfið sem framhald af daglegum störfum. Þannig myndast heill heimur í félagsstarfinu.

Mikið er um útsaum og aðrar hannyrðir í félagsstarfinu í Árskógum.

Líkan sem Hjalti Hjaltason smiður gerði af húsi sem upphaflega var byggt í Þýskalandi en endaði á Raufarhöfn, þar sem það varð eldi að bráð. Til voru ljósmyndir og teikningar sem Hjalti gat stuðst við þegar hann smíðaði líkanið.

You may also like...