Ýmis umhverfisvæn smáverkefni valin í Breiðholti

Íbúar Bakkahverfisins vilja fá körfuboltavöll við Dverga- og Blöndubakka.

Íbúakosningu um „hverfið mitt“ er lokið og tóku um 12,5% þátt í kosningunni sem er nokkru meira en á síðasta ári. Kosningaþátttaka var þá 10,9% og þar áður 9,4%. Atkvæðisrétt höfðu allir íbúar í Reykjavík 15 ára og eldri og voru rúmlega 104 þús. íbúar á kjörskrá. Kjörskrá stækkaði um rúmlega 2000 einstaklinga milli áranna 2017 og 2018.

Í Breiðholt voru valin verkefni: Bæta umhverfi grenndarstöðva. Byggja fjölnota hreysti- og klifursvæði. Vinna áfram við göngustíg við Skógarsel. Malbika hluta göngustígs frá Engjaseli að Seljaskógum. Setja upp mislæga körfuboltakörfu við Breiðholtsskóla. Mála yfir veggjakrot í Breiðholti og breyta því í abstrakt myndir. Gera hjóla- og kerrustíg frá Álfabakka að Brúnastekk. Bæta göngustígana á útivistarsvæðinu á Selhrygg. Endurgera sparkvöll við Engjasel. Setja upp fótboltapönnur á völdum stöðum í Breiðholti. Færa leikkastalann til baka á skólalóð Ölduselsskóla. Gróðursetja ávaxtatré og berjarunna. Setja upp hjólabraut á völdum stað í Breiðholti. Betrumbæta göngu- og hjólaleið yfir Grænastekk. Setja upp vatnspóst í Elliðaárdal. Gera körfuboltavöll við Dverga- og Blöndubakka. 

You may also like...