Alliance þróunarfélag kaupir Alliance húsið

Hér má sjá Alliance húsið og nánasta umhverfi þess.

–  gert ráð fyrir að byggja 4.200 fermetra húsnæði á Alliance reitnum  –

Borgarráð hefur samþykkt að ganga til samninga við Alliance þróunarfélag um sölu á Alliance húsinu við Grandagarði 2 og byggingarrétti tengdum því fyrir 900 milljónir króna. Tilboð Alliance þróunarfélags var metið það áhugaverðasta út frá bæði verði og hugmyndum um starfsemi og þróun á reitnum.

Alliance húsið á sér langa sögu. Það var byggt á árunum 1924 til 1925 fyrir starfsemi útgerðarfyrirtækisins Alliance sem Thor Jensen og fleiri ráku. Reykjavíkurborg festi kaup á húsinu árið 2012, en ytra byrði hússins er friðað og gerði Reykjavíkurborg húsið upp að utan. Að undanförnu hafa Sögusafnið og veitingahúsið Matur og drykkur verið með starfsemi í húsinu, auk þess sem þar er Norðurljósasýning og aðstaða fyrir listamenn. Þær kvaðir hvíla á húsinu að það verði nýtt fyrir menningartengda starfsemi. Reykjavíkurborg hefur látið vinna nýtt deiliskipulag fyrir húsið og umhverfi þess með það að markmiði að auka nýtingu á lóðinni í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010 til 2030 og þróun borgarinnar sem stefnt er að í aðalskipulaginu. Gert er ráð fyrir að byggt verði allt að 4.200 fermetra húsnæði á svonefndum Alliancereit ofan Örfiriseyjar. Fimm verslunar- og þjónusturými eiga að vera á jarðhæð en íbúðir og jafnvel hótelherbergi á annarri og þriðju hæð. Þetta er samkvæmt deiliskipulaginu sem unnið var og samþykkt fyrr á þessi ári.

You may also like...