Um 70 íbúðir fyrir ungt fólk í Skerjafirði

Uppdráttur af nýbyggð í Skerjafirði.

Hugmyndir eru um að reisa rúmlega 70 íbúðir í Skerjafirði sem sérstaklega verði ætlaðar ungu fólki. Reiknað er með að þeir sem séu að kaupa sína fyrstu fasteign gangi fyrir í íbúðirnar. Stefnt er að því að íbúðirnar geti vaxið með eigendunum og verða þær því stækkanlegar. Félagið Frambúð ehf. stendur fyrir verkefninu en það tók þátt í verkefni Reykjavíkurborgar um hagkvæmt hús og var eitt þeirra verkefna sem kynnt voru á fundi í Ráðhúsi borgarinnar í nóvember.

Verkefni Frambúðar var eitt af níu verkefnum af 16 sem sendu hugmyndir og tillögur til borgarinnar og fékk Frambúð í framhaldi af því vilyrði fyrir byggingarreit í Skerjafirði. Þar er gert ráð fyrir 72 íbúðum en alls er gert ráð fyrir 1.200 íbúðum í Skerjafirði samkvæmt rammaskipulagi. Frambúð á nú í viðræðum við Reykjavíkurborg um framhald verkefnisins. Vinna við deiliskipulag á svæðinu stendur nú yfir og mun endanlegt fyrirkomulag og útlit á íbúðunum ráðast af viðræðum við borgina  og niðurstöðu deiliskipulags. 

Til að mæta húsnæðisvanda

Hugmynd forsvarsmanna Frambúðar er að búa til umhverfi þar sem ungt fólk geti eignast íbúðir sínar með tíð og tíma. Ætlunin er að byggja eins lítið og hagkvæmt og mögulegt er. Íbúðirnar verða í kringum 40 fermetrar til að byrja með en stækkanlegar í allt að 80 fermetra sem næst með því að hafa tvær svalir á íbúðunum sem hægt er að loka ef þörf er á. Hugmyndin með þessu fyrirkomulagi er að mæta þeim aukna húsnæðisvanda sem er fyrir hendi. Ungt fólk á stöðugt erfiðara með að komast inn á fasteignamarkaðinn og fjölmenn kynslóð er nú að komast á eða komin á þann aldur það þurfa að eignast húsnæði. Ætlunin er að veita seljendalán fyrir allt að tíu prósent af kaupverði sem ekki yrði tryggt með veði í eigninni. Eignamyndunin verður síðan til þegar möguleikar íbúa á að stækka íbúðirnar verði nýttir. Þegar fólk flytur inn í íbúð og er með brúarlán og fasteignalán er eignarhlutir þess enginn en þegar íbúðin er stækkuð eins og gert er ráð fyrir losna ákveðin verðmæti úr læðingi sem gefa færi á að endurfjármagna lán og mynda eignarhlut. Gert er ráð fyrir því að þegar öll pappírsvinna er tilbúin og samningar við Reykjavíkurborg handsalaðir verði framkvæmdir hafnar og vonir standa til að unnt verði að fara af stað í sumar.

You may also like...