Frímerkið var samskiptamiðill fyrri tíma

Sigtryggur 1 1

Sigtryggur og Magnús Þór Jónsson, Megas, fara yfir gamlar teikningar sem Megas gerði vegna útgáfu fyrstadagsumslaga. Á myndinni mundar hann pennann til að árita eina af þessum teikningum sínum.

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson vann til alþjóðlegra gullverðlauna fyrir frímerkjasafn sitt í Seoul í Suður Kóreu síðastliðinn ágústmánuð, en frímerkjasafnarar frá sjötíu löndum tóku þátt í sýningunni.

Sigtryggur vann verðlaunin fyrir frímerkjasafn sitt, Icelandic Postal Stationery, en það eru íslensk bréfspjöld sem gefin voru út af póstþjónustunni á árunum 1879 til 1920 og eru þau með mismunandi áprentuðu burðargjaldi. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur tekur þátt í heimssýningunni í Suður-Kóreu en þátttökukröfur eru afar strangar og gullverðlaunin því mikill heiður. Auk verðlaunapenings og verðlaunagrips frá kóresku póstþjónustunni fékk Sigtryggur frímerkjaörk þar sem frímerkin eru með mynd af honum sjálfum sem gjaldgeng eru í Suður Kóreu. Sigtryggur hefur áður tekið þátt í frímerkjasýningum erlendis en þetta þykir frábær árangur í heimi alþjóðlegrar frímerkjasöfnunar þar sem íslensk söfn fara aðeins á alþjóðlegar sýningar eftir að ná inn á sýningar í heimalandi eða innan Evrópu og vakið athygli þar. Sigtryggur hefur safnað frímerkjum allt frá bernsku og gert söfnunina að áhugamáli sínu. Breiðholtsblaðið leit við hjá honum á dögunum en hann er einn af frumbýlingum Seljahverfis. Hefur búið í Seljahverfinu frá því um miðjan áttunda áratuginn. Hann var fyrst inntur eftir því hvort hann myndi eftir fyrsta frímerkinu sem hann eignaðist. „Ég man ekki nákvæmlega hvert var fyrsta merkið því þau voru nokkur saman. Ég eignaðist fyrstu frímerkjabókina þegar ég var sex ára. Þetta var bók þar sem merkin voru fest með límmiða og fljótlega fór að safnast í hana. Frímerkin komu úr öllum áttum og eins og gefur að skilja kom mest af þeim í kringum jólin vegna þess að fólk sendi mikið af jólakveðjum til ættingja og vina. Flest frímerkin sem ég eignaðist á þessum fyrstu árum voru íslensk en ég fékk líka nokkuð af frímerkjum frá Danmörku en þar átti fjölskyldan ættingja sem alltaf voru samskipti við. Ég man ekki hvort þessi fyrsta bók fylltist en fljótlega komu svokallaðar innstungubækur sem voru miklu þægilegri þar sem ekki þurfti að nota límmiðana heldur var frímerkjunum komið fyrir í plastvösum.“

Strákar meira í frímerkjunum

Sigtryggur segir að það hafi tíðkast á þessum árum að krakkar og þá einkum strákar söfnuðu frímerkjum og hasarblöðum. Stelpurnar hafi safna servéttum og glansmyndum. Þetta gat verið svolítið kynbundið í þá daga en þó ekkert algilt í þeim efnum.“ Sigtryggur minnist þess að á þessum tíma hafi faðir hans átt trékassa með mörgum hólfum. „Trúlega hefur þetta verið lyfjakassi frá fyrri tíð en notaðist ágætlega til að geyma frímerki. Hann hafði keypt talsvert af frímerkjum og geymdi í þessum kassa meðal annars nokkuð af fyrstadagsumslögum sem voru gefin út og stimpluð í tilefni af útkomu nýrra frímerkja. Ég man þegar ég fékk fyrst umslag sem sent hafði verið í ábyrgð og einnig þegar ég fékk fyrsta heila settið sem var stimplað á útgáfudegi.“

Mjór er mikils vísir

Sigtryggur segir mjór er mikils vísir því eftir þetta hafi hann farið að vinna skipulega í frímerkjasöfnuninni. „Þegar ég var 19 ára opnaði ég Frímerkjastofuna á Vesturgötu 14 þar sem áður var Egill rakari. Þarna var ég í einum átta fermetrum og hafði opið eftir hefðbundinn vinnudag. Þarna tók ég á móti frímerkjasöfnurum og átti ýmisleg samskipti og viðskipti við þá. Við notuðum þetta tækifæri einnig til þess að spjalla saman um þetta áhugamál okkar. Þetta var um og upp úr 1960 og á þeim tíma var vinsælt að safna frímerkjum frá nýjum lýðveldum sem verið var að stofna í Afríku á grunni gamalla nýlendna. Ég keypti talsvert af þessum frímerkjum og þau gengu á milli safnara. Ég fékk einnig erlend frímerki í gegnum aðila sem áttu í samstarfi við Bandaríkin. Eins voru frímerki frá Sameinuðu þjóðunum og Evrópufrímerki CEPT vinsæl. Ég fór einnig sjálfur að gefa út fyrstadagsumslög sem voru merkt FV.“

Kynntist Megasi í Englandi

„Ég fór til Englands sumarið 1961 en þá voru ungmenni farin að fara nokkuð þangað einkum til þess að þjálfa sig í ensku. Þar kynntist ég ýmsu fólki. Þar á meðal konunni minni, Þorbjörgu Guðmundsdóttur og einnig þá ungum manni sem heitir Magnús Þór Jónsson og varð síðar þekktur undir listamannsnafninu Megas. Hann var þá 16 ára. Síðar áttum við eftir að starfa saman hjá Pósthúsinu í Reykjavík og þótt við deildum ekki sama áhugamáli nema að hluta, þá æxlaðist það þannig að við áttum eftir að starfa saman að frímerkjamálum. Þannig var að Megas er góður teiknari og hann teiknaði fyrir mig myndir á fyrstadagsumslög á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Við hittumst nýlega og fórum yfir þessar gömlu teikningar og hann áritaði þær. Það teiknuðu ýmsir fleiri fyrir mig en teikningar  Megasar voru nokkuð sérstakar og vel gerðar. Ég kynntist líka ýmsum þekktum frímerkjasöfnurum bæði í Félagi frímerkjasafnara og í Klúbbi Skandinavíusafnara.“

Sigtryggur 2 1

Sigtryggur ásamt Tay Peng Hian sem er forseti Alþjóðasamtaka frímerkjasafnara FIP. Myndinni er tekin í Suður Kóreu.

Biðröð eftir Evrópumerkjunum

Sigtryggur segir að árið 1961 hafi svonefnd Evrópufrímerki verið gefin út. „Þetta var í annað sinn, en þau höfðu fyrst komið út árið áður á Íslandi. Ég var þá staddur í Cambridge en faðir minn tók að sér að sjá um þetta fyrir mig. Þá gerðist það að þegar búið var að gefa upp upplagið þá fóru pantanir að streyma inn til póstsins bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Fljótt spurðist út að merkin myndu seljast upp og biðröð fór að myndast fyrir utan pósthúsið á útgáfudaginn svona eins og væri verið að selja miða á tónleika poppstjörnu, hver og einn gat aðeins keypt ákveðið magn. Það seldist á einum degi og strax varð til mikil eftirspurn eftir þessum merkjum. Faðir minn hafði gengið frá pöntun sem smásöluaðili þannig að hann lenti ekki í biðröðinni og ef ég man rétt þá tífölduðust merkin í verði á tveimur mánuðum. Um haustið eða í október kom Jakob Kvaran sem var þekktur frímerkjakaupmaður til landsins en hann bjó þá í Danmörku og auglýsti eftir þessum merkjum í Morgunblaðinu. Hann keypti talsvert af þeim en þegar hann kom út aftur fóru verðin að falla og hann seldi eitthvað af þeim með tapi. Þetta sýnir hvað hlutirnir gátu verið fljótir að breytast í þessum heimi viðskiptanna eins og öðru. Ég kynntist Jakobi nokkuð og úr varð að hann bauð mér að starfa hjá sér ytra og ég var í nokkra mánuði hjá honum þar sem hann bjó og starfaði á Amager.“

Stýrði Nordiasýningunni 1984

Sigtryggur hefur tekið þátt í sýningarstarfi. Hann var meðal annars framkvæmdastjóri Nordiasýningarinnar sem fram fór í Laugardalshöllinni 1984. Þetta var fyrsta Nordiasýningin sem var haldin á Íslandi og reynt var að gera hana sem glæsilegasta í alla staði enda fylltu frímerkjamenn Laugardalshöllina. Sigtryggur segir að gefin hafi verið út frímerkjablokk á yfirverði í tilefni af sýningunni. „Hluti af söluverðmætinu rann til Landsambands íslenskra frímerkjasafnara (LÍF) og það hjálpaði til þess að félaginu tókst að koma sér upp eigin húsnæði í Síðumúla 17 þar sem félagsstarf frímerkja- og myntsafnara á sér samastað. Þetta tengist því að hluta eru þetta sömu aðilarnir sem starfa að söfnun frímerkja og myntar þótt það sé alls ekki algilt. Á laugardögum er opið hús í Síðumúlanum milli klukkan 13-15 þar sem félagsmenn koma saman og almenningur getur komið og fengið upplýsingar og leiðbeiningar um frímerki sín. Ég gaf út Safnarablaðið á sínum tíma, en LÍF gefur út Frímerkjablaðið í samstarfi við Íslandspóst, en einnig gefur Félag frímerkjasafnara út félagsblaðið Safnið.“

Áhersla á allt sem tilheyrir lýðveldinu

Þrátt fyrir að hafa komið víða við í frímerkjasöfnun hefur Sigtryggur alltaf lagt áherslu á að safna öllu sem tilheyrir lýðveldinu og á það í ýmsum útgáfum. „Einnig safna ég til dæmis átthagasöfnum, örkum og einnig það sem er kallað afbrigði í frímerkjum til dæmis prenttakkagöllum og öðru sem fer úrskeiðis í prentun.“

Frímerkjafræðsla í Seljakirkju

Sigtryggur segir að margt hafi breyst á undanförnum árum. Íslandspóstur stimplar bréfasendingar án þess að nota frímerki. „Ég skal ekki segja til um hver framvindan verður. Það dugar varla að gefa frímerki aðeins út fyrir safnara ef notagildið verður ekkert annað. En þetta er þróun sem maður veit ekki hvar endar. Tæknibreytingarnar eru örar. Frímerkið var í raun samskiptamiðill þess tíma. Það sýndi að burðargjaldið var greitt og flutti þannig upplýsingar og fréttir á milli fólks vítt um heiminn. Því má segja að frímerkið sé einskonar forveri nútíma samskiptamáta. Kannski er þetta sérviska að hafa haldið þessu svona áfram en ég er sáttur við þetta áhugamál mitt og ánægður með að hafa tekið þátt í þessu. Að lokum vil ég benda á að Klúbbur Skandinavíusafnara stendur fyrir frímerkjafræðslu annan hvern mánudag í Seljakirkju klukkan 16:30 til 18. Barnabörnin mín sækja þangað fræðslu. Næsti fundur verður 15. desember.“

You may also like...