„Vorverk“ í Nýlistasafninu

Vorverk 1 1

Eitt vorverkanna eru tiltekt og hreingerning. Hér er Kristín Helga með kústinn á stéttinni fyrir framan Nýló að sópa burt kunnugum skugga vetrarins. Sandinum sem borinn er á stéttar til þess að draga úr hálku.

Vorkoman hefur löngum verð Íslendingum hugleikin. Þráin eftir betri tíð hefur oft einkennd hugleiðingar listamanna hvort sem um er að ræða ritlistina eða myndlist.

Vorkoman getur birst einstaklingum með ýmsum hætti. Fyrir einum er hún hlýrri tíð og aukin útivist. Sumir taka reiðhjólið fram en aðrir leggja dýpri merkingu í þessi oft til-komumiklu árstíðaskipti frosta og fanna og birtu og yls. Ein þeirra er Kristín Helga Káradóttir myndlistarmaður sem opnar sýninguna Vorverk í sýningarsal Nýlistasafnsins (Nýló) við Drafnar-fell föstudaginn 14. maí næst komandi. Kristín hefur að undanförnu unnið að undirbúningi sýningarinnar. Hún hefur farið um Efra Breiðholti. Grandskoðað umhverfið með augum gestsins eins og hún kemst að orði og rætt við íbúa og aðra sem tengjast þessari byggð og samfélagi. Heimspekilegra hugleiðinga hefur oft gætt í verkum Kristínar Helgu í gegnum tíðina en hún er bæði menntaður hjúkrunarfræðingur og myndlistarmaður. Hún hefur í verkum sínum varpað fram spurningum um tilgang tilverunnar. Spurt á hvað leið við séum. Hvað knýi okkur áfram. Hvort undirvitundin sé þar að verki og hvernig framvindan getið orðið með óvæntum hætti. Þessi upptalning er ekki tæmandi vegna þess að með hverri sýningu er eins og nýjar spurningar eða hugleiðingar komi fram. Á sýningunni sem opnuð verður á föstudaginn kemur fram hvers hún hefur orðið áskynja í leiðangri sínum um það sem fyrir henni voru ókunnar slóðir. Breiðholtsblaðið leit við í Nýló á dögunum og hitti Kristínu Helgu að máli.

Vísar til náttúrunnar og vorsins í okkur sjálfum

„Þegar til þess kom að ég myndi sýna hér í Nýló á vordögum var fyrsta hugsun mín að gerast innflytjandi eða nýbúi í byggðinni um stund. Ég flutti reyndar heimilið ekki hingað upp eftir en hef dvalið hér mikið við áhorf á umhverfið, öflun heimilda og annan undirbúning. Ég þekkti mjög lítið til þessa byggðarhluta áður en ég hóf undirbúning minn eða rannsókn og hafði einna helst heyrt neikvæða umræðu og dóma um byggðina sem bæði gátu byggst á þekkingarleysi eða hreinum fordómum sem gengið hafa manna á meðal. Ég ákvað einnig að nýta mér árstíðina – vorkomuna og tengja sýninguna við vorverkin bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Vorkoman kallar eftir gróðri og fólk fer að huga að gróðurreitum eða leita út í náttúruna en hún tekur einnig til tilfinninga í lífi margra. Nafnið á sýningunni dregur þetta þema hennar fram í dagsljósið. Nú höfum við búið við harðan vetur og þá verður vorþráin sterkari. Tilhlökkunin meiri. Vorverk vísa því bæði til náttúrunnar og vorsins í okkur sjálfum. Hvernig mannshugurinn upplifir þessa árstíðabundnu breytingu. Þetta urðu mér hugleiðingar og ég ákvað að vinna með þær í sýningunni.“

Grámygluleg vetrarstemmning breytist í vor

Þegar Kristín Helga kom fyrst upp í Efra Breiðholt á dögunum til að undirbúa verk sitt lá veturinn yfir öllu. Allt var hvítt og grái liturinn í kringum höfuðstöðvar Nýló í gamla Breiðholtsbakaríinu áberandi. Til hliðar er verið að reisa íbúðablokk og grá steinsteypan bætti um þessa grámyglulegu vetrarstemningu. Kristín Helga segist hafa verið eins fjarlæg nátt-úrunni á þessu augnabliki og unnt var. „Og þá fór ég að hugsa um hvernig væri hægt að tengjast náttúrunni við þessi skilyrði og þá kemur vorkoman til. Með vorinu vaknar þráin eftir náttúrunni.“ Kristín Helga segir að starf einyrkjans blandist einnig inn í þessar vangaveltur. „Listamaðurinn er einyrki hvort sem hann er staddur í vinnustofu sinni eða í sýningarsalnum – jafnvel í garðinum heima hjá sér. Hann er einn að tjá sig og sýnar hugsanir hvernig sem hann kýs að beita myndmálinu til að koma þeim á framfæri. Ég rækta til dæmis kartöflur heima í garði. Hluti af vorkomunni eru að láta þær spíra og undirbúa þar fyrir sáningu svo uppskera fáist að hausti.“

Fjölþjóðaleiki í Breiðholti

Kristín Helga segist hafa uppgötvað ýmislegt í athugunum sínum í Breiðholti. „Ég ákvað að gerast landkönnuður. Eitt af því fyrsta sem ég rak mig á er hversu byggðin er margbreytileg og hvað margt er orðið gróið. Hvað húsagerðarlistin er fjölskrúðug og íbúarnir eru ekki aldeilis einsleitir. Hér býr fólk af mörgum þjóðernum sem hefur valið Breiðholtið sem búsvæði. Þetta fólk hefur flutt með sér margbreytilega menningu en margt af því hefur einnig tileinkað sér menningarlegan arf þess samfélags sem það er komið til þess að búa í. Fjölmenningin er mjög áhugaverð og þá gerir maður sér grein fyrir því hversu maður sjálfur er einangraður. Ég gerði mér ekki grein fyrir fjölþjóðaleikanum hér áður en ég fór að vinna að þessu verki. Ég hafði samband við nokkrar konur af erlendum uppruna til þess að taka þátt í gjörning – samtali þeirra við mig. Þar verð ég komin með alþjóðlegan anda inn í íslenska vorið. Ég ætla líka að nýta mér viðtal við ömmu mína sem Þórður Tómasson safnstjóri í Skógum tók við hana fyrir löngu og hún ræddi meðal annars um íslenskan vefnað. Amma mín lést 1966 nokkru áður en ég fæddist og með því að vitna til hennar er ég að tengja tilvist kvenna saman. En aðal þema mitt er vorið og vorkoman sem ég tengi síðan við þennan hluta Breiðholtsins ásamt ýmsu öðru sem sem getur á einn eða annan hátt tengst vorkomunni.“

Tvær flugur í einu höggi

Þess má geta að auk sýningar Kristínar Helgu Káradóttur í Nýló verður stór gjörningur í safninu daginn eftir opnun hennar þann 15 maí. Gjörningurinn er alls ótengdur sýningunni en er í tengslum við Listahátíð þar sem listamaðurinn Steinunn Gunnlaugsdóttir býður Breiðholtsbúum upp á stærðarinn-ar súkkulaðiköku. Breiðhyltingar og aðrir geta því slegið tvær flugur í Nýló í einu höggi þann dag. Skoðað sýningu Kristínar Helgu og fengið sér súkkulaðiköku Steinunnar.

You may also like...