Níu hlutu styrki úr Heita pottinum í Breiðholti

Heitur pottur 1 1

Styrkþegar Heita pottsins ásamt Óskari Dýrmundi Ólafssyni hverfisstjóra.

Nýlega voru styrkir úr verkefnasjóðnum Heita pottinum afhentir við hátíðlega athöfn við Breiðholtslaug.

Heiti Potturinn er styrktarsjóður fyrir ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára og er markmið hans að styrkja frumkvæðisverkefni ungs fólks í Breiðholti. Alls bárust 16 umsóknir í styrktarsjóðinn en níu hlutu styrk að þessu sinni. Þórgnýr Thoroddsen, formaður ÍTR afhenti styrkina en þetta er þriðja árið sem úthlutun úr Heita pottinum fer fram. Á meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk eru jóðlsöngur á leikskólum hverfisins, listasýning sem sýnir fjölbreyttan arkitektúr Breiðholtsins og hljóðverk skapað með upptökum frá vel völdum stöðum í hverfinu. Hrefna Björg Gylfadóttir og Margrét Arnardóttir ætla að heimsækja alla leikskóla í Breiðholti og jóðla fyrir börn við undirleik harmonikku. Þórgnýr Thoroddsen kvaðst ánægður með fjölbreytni verkefnanna sem voru valin og sagði meðal annars að frumkvæðisverkefni af þessu tagi væru í eðli sínu ómetanleg og það er Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur sannur heiður að geta stutt við ungmennin í framkvæmd þeirra.

Fjölbreytt og listskapandi verkefni

Verkefni styrkt af Heita pottinum árið 2015 eru: Deildu – þrír skiptimarkaðir á fötum, afleggjurum og bókum í sumar. Styrkþegar: Sólveig Lára Gautadóttir og Emma Theodórsdóttir. Horfðu til himins – Viðburður í Ölduselslaug á Breiðholtshátíðinni, með flothettum, korkskúlptúrum, tónlist og listasýningu. Styrkþegi: Selma Reynisdóttir. Byggingar í Breiðholtinu – listasýning sem sýnir fjölbreyttan arkítektúr Breiðholtsins. Styrkþegi: Björk Emilsdóttir. Hústónlist í Breiðholti – átta tónlistarviðburðir með tónlistarmönnum og plötusnúðum víðs vegar um Breiðholtið. Styrkþegar: Jón Reginbald Ívarsson, Áskell Harðarson og Ómar Egill Ragnarsson. Hljóðverk Breiðholtsins – Hljóðverk skapað með upptökum frá vel völdum stöðum í Breiðholti. Verkið verður gefið út á netinu og flutt á tónleikum í lok sumars. Styrkþegar: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason og Rögnvaldur Konráð Helgason. Breiðholt – suðrænt og seiðandi – videóverk sem sýnir Breiðholtið á framandi hátt og verður sýnt í heimahúsi. Styrkþegar: Berglind Erna Tryggvadóttir og Sigrún Gyða Sveinsdóttir. Brettagarður í Jafnaseli – áframhaldandi viðhald, klæða veggi á grillsvæði, styrkja festingar á raili, mála og fleira. Styrkþegar: Sverrir Örn Sverrisson og Bjarni Þór Theodórsson. Jóðlað fyrir börn – kynningar á jóðli til leikskólabarna í Breiðholti ásamt harmoníkuleikara. Styrkþegar: Hrefna Björg Gylfadóttir og Margrét Arnardóttir og dansnámskeið fyrir börn og unglinga í Miðbergi þar sem frítt verðu inn. Styrkþegar: Uldarico Rafael De luna og Richmond Raagas Landayan.

You may also like...