Félagsandinn er mikilvægur

Arnar Thor 1 1

Arnar Þór Valsson þjálfari fótboltadeildar ÍR.

Þegar þetta er skrifað er meistaraflokkur ÍR í fótbolta á toppi annarrar deildar og hefur ekki tapað leik það sem af er sumri. Frá því að Arnar Þór Valsson tók við þjálfun liðsins fyrir þremur árum hefur hann verið að byggja það upp.

Skömmu eftir að hann tók við þjálfuninni urðu miklar breytingar á leikmannahópnum. Alls hættu 19 fyrrum leikmenn og aðrir komu í staðinn. Arnar Þór er nú á þriðja árinu að þjálfa og hefur einkum byggt liðið upp á heimamönnum sem hafa alist upp með ÍR í Breiðholtinu. Arnar Þór neitar því að fótboltinn sé hornreka innan ÍR þótt félagið sé einnig þekkt fyrir handbolta og síðast en ekki síst sem eitt helsta frjálsíþróttafélag landsins. „Við leggjum mikla áherslu á allar íþróttagreinar og engin á að vera hornreka. Vandi okkar er fyrst og fremst sá hversu starfsaðstaða okkar er skipt. Frjálsu íþróttirnar eru í Laugardalnum, handboltinn í Austurbergi og karfan í íþróttahúsi Seljaskóla. Við erum þó ekkert að setja þetta fyrir okkur. Við vorum í úrvalsdeildinni í fótboltanum árið 1997 þegar ÍR varð eitt hundrað ára. Vorum þar eitt tímabil en féllum svo niður í fyrstu deild á einu stigi árið eftir að mig minnir.“

Byrjaði að keppa með sjötta flokki

Arnar Þór fór snemma að fást við boltann. „Ég er alinn upp í Bökkunum og sparkvöllurinn var við hliðina á Breiðholtskjöri. Þar ólst maður upp. Var öllum stundum úti á velli og ef maður varð svo óheppinn að sparka fram hjá þurfti að ná í boltann niður í Mjódd sem engin vildi þurfa að gera. Því var því ágætis pressa á okkur að hitta í markið til þess að þurfa ekki að sækja boltann í Mjóddina.“ Arnar Þór fór snemma að keppa með ÍR og hefur ætíð haldið sig við sitt gamla félag. „Ég byrjaði að keppa þegar ség var sex til sjö ára með sjötta flokki og færði mig svo áfram upp á við. Ég byrjaði að keppa með meistaraflokki á eldra ári í þriðja flokknum og spilaði fyrsta leikinn þar 15 ára gamall.“

Hvarflaði aldrei að mér að skipta um félag

Fjölskylda Arnars Þórs flutti sig um set þegar hann var 10 ára gamall – fór úr bökkunum og fluttist í Fellahverfið og Arnar fór í Fellaskóla. „Þegar ég kom þangað fór ég á skólabekk með strákum sem voru í Leikni – félaginu í Fellunum. Margir þeirra urðu ágætis kunningjar mínir en það hvarflaði aldrei að mér að skipta um félag. Að fara að æfa og spila með Leikni kom ekki til greina í mínum huga. Böndin við ÍR voru sterk. Faðir minn Valur Sigurðsson var kominn í stjórn fótboltadeildarinnar hjá ÍR því alltaf var mikið leitað til feðranna eða heim til fjölskyldnanna eftir aðstoð við boltann. Þetta hefur alltaf byggst á mikilli samstöðu fjölskyldnanna sem halda vel utan um strákana.“

Kunningjar á daginn en mótspilarar á kvöldin

Talið berst að Breiðholtinu – hvernig það hafi breyst í tímans rás. „Bakkarnir voru fullbyggðir þegar ég var að alast upp. Mér fannst rosalega gott að búa þar. Í bökkunum var allt við höndina. Breiðholtsskóli, fótboltavöllurinn og Breiðholtskjör. Og svo var lítil geymsla þarna þar sem við geymdum fótboltana og stundum kölluð grenið ef ég man rétt. Maður var eina mínútu að labba í skólann því við bjuggum við þann bakkann sem næstur var skólanum og miðbakkakjarnanum. Þetta gat ekki verið betra.“ Arnar Þór segir nokkur viðbrigði hafa verið fyrir sig að flytja í Fellin. „Fyrsta sumarið efra hjólaði ég niður í Bakka og hitta félagana strax á morgnana og svo var ég þar með þeim allan daginn. Um haustið byrjaði ég í Fellaskóla og fór þá að kynnast krökkum í efra hverfinu. Ég eignaðist líka kunningja þar – stráka sem voru í Leikni en það skyggði ekkert á þótt ég væri fastur fyrir sem ÍR-ingur. Stundum gat verið svolítið sérstakt að hitta þá sem kunningja á daginn en spila svo á móti þeim í fótboltanum þegar liðin áttust við. Ég á því rætur bæði í því neðra og því efra ef má nota þá líkingu. Ef til vill er það vegna þessara tengsla úr uppeldinu sem ég varð aldrei litaður af hverfismennsku. Að vera úr Fellunum og þola ekki Bakkastráka eða öflugt. Að vera ÍR-ingur og þola ekki Leiknismenn er eitthvað sem ég hef aldrei aldrei þurft að fást við en ég hef fundið og veit að þetta plagar suma eitthvað þótt það eldist nú oftast af fólki.“

Skemmtilegustu leikirnir á móti Leikni

Arnar Þór kveðst stundum hafa heyrt rætt um hvort rétt væri að sameina ÍR og Leikni. „Ég hef ekki sett mig inn í þá umræðu til fulls en veit að rekstrarumhverfið getur verið með þeim hætti að það kalli á sameiningu – á eitt félag í öllu hverfinu. Ég er ekki viss um að það væri rétt. Ef sameining ÍR og Leiknis yrði að veruleika myndi Leiknisnafnið trúlega hverfa. Alla vega með tímanum þótt félagið yrði látið heita ÍR-Leiknir. ÍR er svo gróið heiti og starfar líka á mörgum sviðum á meðan Leiknismenn einbeita sér einkum að fótboltanum. Hvað sem um rekstrarumhverfið má segja þá held ég að það væri ekki gott fyrir íþróttirnar einkum fótboltann að stefna á eitt félag. Ég get alveg fullyrt að fyrir mína parta eru skemmtilegustu fótboltaleikirnir sem ÍR spilar alltaf á móti Leikni. Ég upplifi þetta svona enn þann dag í dag þótt enginn af mínum gömlu félögum sé enn að spila með Leikni. Ég held að vera með tvö félög í hverfinu efli bara íþrótta- og keppnisandann. Og ef við snúum okkur að ÍR þá hef ég fulla trú á að við náum að komast aftur upp í fyrstu deildina og ef og þegar við mætum Leikni í úrvalsdeildinni verður Breiðholtið komið á toppinn í fótboltanum. Ég set málin alltaf upp þannig að ef andstæðingurinn er góður verður maður sjálfur að vera betri. Það er engin önnur lausn fyrir hendi.”

Félagsandinn er mikilvægur

Eins og ég sagði þá var ÍR nýfallið niður í aðra deild þegar ég tók við liðinu. Ég sá strax að gera yrði breytingar. Í allt hættu 19 leikmenn og ég lagði áherslu á að fá stráka úr yngri flokkunum og byggja liðið upp með þeim. Ég er þó ekki eingöngu með leikmenn sem eru aldir upp í ÍR. Það er gott að blanda þessu saman og þeir drengir sem komið hafa að utan eru frábærir, hafa fengið að þroskast með okkur og eru farnir að skila sínu inn í liðið.“ Arnar Þór segir að þrátt fyrir frjálsíþróttahefðina eigi fótboltinn sér einnig sterka hefð innan ÍR. Fótboltinn búi líka að mjög sterkri umgjörð innan þess. „Ég tel ákaflega mikilvægt að hafa góðan stuðningsmannahóp og góða umgjörð. Stundum koma þau tímabil að lognmolla leggst yfir og þá er gott að geta leitað í baklandið – fá stuðningsmannaliðið til þess að koma og rifa okkur upp.“ Arnar Þór segir hlut foreldra mikilvægastan. „Hann er mun meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Foreldrar leikmannanna mæta kvöldin fyrir leiki, elda fyrir hópinn og svo borða allir saman eftir síðustu æfinguna. Félagsandinn er frábær og að foreldrarnir séu tilbúnir að gera þetta fyrir okkur er ómetanlegt. Ég legg mikla áherslu á að við getum haft þetta svona áfram.“ Arnar Þór viðurkennir að þetta sé hluti af nauðsynlegum sálfræðiþætti í kringum fótboltann. „Sálfræðin í kringum fótboltann og þá einkum keppnina er mikilvæg. Þegar ég kom til þess að þjálfa hjá ÍR þá fannst mér þessi þáttur félagsstarfsemi ekki nægilega metinn. Eins og hann hefði dottið nokkuð niður. Ég ákvað því að reyna að gera mitt besta til þess að efla hann að nýju. Að byggja upp góðan félagsanda er ekki síður nauðsynlegt en að geta sparkað boltanum langt. Hugsunin er 80% af góðum fótboltaleik og ef hún er ekki í lagi þá verður árangurinn eftir því. Þess vegna legg ég mjög mikið upp úr hinum mannlegu samskiptum.“

Þetta er sama svæðið

Nú er Breiðhyltingurinn – Bakka- og Fellabúinn og ÍR-ingurinn Arnar Þór Valsson fluttur úr Breiðholtinu. Hvað koma til. Hann segist þó ekki hafa farið langt og sé enn sami Breiðhyltingurinn og hann hafi verið. „Við þurftum stærra húsnæði eins og gengur með fjölskyldur og fórum að horfa í kringum okkur. Og áður en við höfðum dottið niður á hentugt húsnæði í Breiðholtinu kom húsnæði Kópavogsmegin við hreppamörkin upp í hendurnar á okkur. Það var engin meðvituð ákvörðun – alls ekki að flytja í Kópavog. Í raun er þetta eitt og sama svæðið. Það liggur þétt saman og ég er jafn fljótur að hjóla í vinnuna og ég var úr Breiðholtinu.

 

IR fotbolti 1 Forsida 1

You may also like...