Skemmtilegur útiveitingastaður við Vesturhöfnina

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Margrét, Elsa og Sif fyrir utan Fish and Chips vagninn.

Á bakkanum austan við Sjóminjasafnið við vesturhöfnina í Reykjavík er búið að gera óvenju skemmtilega hugmynd að veruleika. Þar hefur verið opnaður sannur Fish and Chips veitingastaður.

Það sem einkennir staðinn frá öðrum veitingastöðum í Reykjavík er að hann er undir berum himni. Þær Margrét Þorvaldsdóttir, Elsa Þórisdóttir og Sif Haraldsdóttir hafa gert þessa hugmynd að veruleika en þær eru vel kunnugar þessar hefðbundnu matarmenningu Breta frá því þær bjuggu í Hull ásamt eiginmönnum sínum sem störfuðu þar við sölu á íslenskum sjávarafurðum. Þeir eru Höskuldur Ásgeirsson, Pétur Björnsson og Benedikt Sveinsson. Þessi þrenn hjón réðust á liðnu vori í að flytja sérhannað Fish and Chips eldhús á hjólum frá Bretlandi og fengu pláss fyrir það í Vesturhöfninni. Fish and Chips réttirnir eru afgreiddur út um glugga eða lúgu á byggingunni sem frekar mætti ef til vill kalla hjólhýsi eða eldhús á hjólum. Fyrir utan hafa þær vinkonurnar komið fyrir nokkrum borðum þar sem viðskiptavinir geta tyllt sér en einnig er mikið um að fólk taki matinn með sér. Maturinn er unninn eftir breskum venjum þótt hráefnið komi annars staðar frá. Fiskurinn er veiddur um borð í togaranum Arnari frá Skagaströnd og frystur um leið og hann kemur um borð – reyndar ekki fyrsti fiskurinn af Íslandsmiðum sem fær þessa matreiðslu því mikið af þeim fiski sem við höfum selt til Bretlands í gegnum tíðina hefur endað sem Fish and Chips. Kartöflurnar sem þær bjóða með fiskinum koma frá Hollandi og steikningarefnin koma að sjálfsögðu frá Bretlandi til að fá rétta bragðið. Þær eru af heppilegri stærð en þær íslensku til þess að búa kartöflurnar til. Með réttinum bjóða þær sósu og einnig baunamauk sem er sér enskt og Englendingar borða með fiskinum – aldeilis bragðgóða.

Eru þið ekki með klippikort

„Við áttum heima í Bretlandi á níunda og tíunda áratugnum þar sem eiginmennirnir störfuðu allir við fisksölu,“ segir Margrét í spjalli við Vesturbæjarblaðið. „Þetta hefur trúlega legið einhvers staðar baka til í hugskotum okkar því í maí í vor ákváðum við í sameiningu að gera þessa hugmynd að veruleika. Við útveguðum vagninn frá Bretlandi til þess að ná sem bestri og raunverulegastri stemningu og hafa eins „breskt“ og hægt er hér á landi. Við fórum af stað með þetta sem hobby en frá því að við opnuðum hefur verið fullt að gera – stanslaus straumur af fólki og við sem ætluðum í fyrstu að standa í þessu sjálfar höfum nú þurft að ráð starfsfólk. Viðtökurnar hafa orðið mun kröftugri en við gerðum nokkru sinni ráð fyrir. Fólk kemur aftur og aftur og jafnvel er farið að spyrja hvort við séum ekki með klippikort – og fá tíundu hverja máltíð ókeypis eins og gerist með kaffibollana á sumum kaffihúsum. Nú þegar erum við orðnar meira á bakvaktinni.“

Gamlir sjómenn fá vatn í munninn

Margrét segir að margir ferðamenn komi en Íslendingar hafi líka tekið við sér. „Það starfar margt fólk á Grandanum og sumir skreppa hingað í hádeginu. Ég hef orðið vör við að margt af því fólki sem vinnur hjá CCP leggur leið sína hingað enda ekki langt að fara auk annarra sem starfa í nágrenninu – ekki síst gamlir sjómenn sem kynntust Fish and Chips í siglingum með íslenskum skipum til Hull og Grimsby. Íslensk matarmenning var ekki fjölbreytt á fyrri tíð og þessi eldamennska Bretanna var nýstárleg og þótti góð í augum og munni Íslendinganna.“

Ánægð íslensk- amerísk fjölskylda

Fish and Chips þeirra vinkvennanna vekur athygli fleiri en CCP fólksins og gamalla sjómanna. Á meðan tíðindamaður staldrar við á bekk hjá þeim kemur fjölskylda. Íslenskur matreiðslumaður sem býr og stýrir nokkrum veitingastöðum í Kaliforníu, þarlend eiginkona hans og tvær dætur. Hann hælir matnum og þegar þau stóðu upp kvaddi konan með orðinu „delicious“ en alls óvön kræsingum af þeirri gerð sem þeim bauðst þarna við vagninn.

Opið fram á haust – spurning um veturinn

Já – það er nóg að gera og fólkið streymir að þótt hádegið sé rétt af staðið. „Við erum með opið alla daga frá klukkan 11 á morgnana til níu á kvöldin. Við ætlum að hafa opið fram á haustið eins lengi og við getum en þetta er í sjálfu sér ekki aðstaða til þess að reka staðinn yfir háveturinn. En í ljósi þess að viðtökurnar hafa verið miklu betri en við þorðum að gera okkur vonir – raunar með ólíkindum verðum við að huga að framhaldinu. Ég held að Fish and Chips sé alveg komið til að vera,“ segir Margrét.

You may also like...