Hagstæð útkoma samstæðu
Fyrri umræða um Fjárhagsáætlun fór fram í lok nóvember. Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samstæðu bæjarsjóðs Seltjarnarnesbæjar verði 39 m.kr. þrátt fyrir að niðurstaða A-hluta sé óhagstæð um 72 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðu er áætlað um 600 m.kr. Áfram verður þétt aðhald í útgjöldum bæjarins og allra leiða leitað til frekari hagræðingar. Með lækkandi verðbólgu á næstu misserum má gera ráð fyrir að grunnreksturinn styrkist enn frekar. Fjármálastjórn hefur verið efld til muna og áætlanagerð og eftirfylgni stórbætt. Einnig verður rekstur Hitaveitu Seltjarnarness efldur og hún gerð sjálfstæðari.
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri lagði fram greinargerð þar sem helstu markmið og niðurstöður eru raktar nánar. Hann sagði frumvarpið innihalda fjárfestingaráætlun sem og þriggja ára áætlun. Ástæða sé til að taka fram að frumvarpið geti tekið breytingum á milli umræðna. Þór benti á að frumvarp þetta væri unnið á verðbólgutímum og að mörgu leyti við krefjandi aðstæður.
Óvissa vegna kjarasamninga
“Verðbólga mælist í dag um 8% og vaxtarstig er sömuleiðis hátt sem hefur áhrif á vaxtaberandi lán bæjarins og fjármagnsliðir bæjarsjóðs því ansi þungir í skauti. Öll aðföng svo sem vara og þjónusta af öllu tagi hafa hækkað um 20 til 40% á árinu og þær hækkanir hafa dunið á bæjarsjóði eins og öðrum.” Þór minnti á að kjarasamningar væru framundan og töluverð óvissa sem ríkti enn um. “Við væntum þess að efnahagslegur hagur fari batnandi eftir mitt næsta ár. Það ástand er þó brothætt eins dæmið um stríð í Evrópu hefur sýnt okkur með þeim efnahagslegu afleiðingum sem allir glíma við í dag.”
Leikskólinn stærsta verkefnið
Þór sagði að stærsta verkefni komandi árs verði bygging nýs leikskóla en fullnaðarhönnun þess mannvirkis verði afhent 1. desember næstkomandi sem hefur verið unnin með starfsfólki leikskólans. Annað verkefni sem þegar er í gangi eru viðgerðir á skólahúsnæði sem mun verða kostnaðarsamt. Þeim verkum miðar þó vel.
Óbreyttar álagningarprósentur
“Við munum ekki breyta álagningarprósentum. Útsvar verður áfram 14,31%. Aukinn kostnaður hefur fallið á sveitarfélög eftir gildistöku nýrra laga um sorpflokkun sem valdið hefur því að kostnaður við sorphirðu hefur aukist. Óvissa ríkir um endurgreiðslur frá Úrvinnslusjóði vegna pappa og plasts sem greitt er til baka til sveitarfélaga. Áætlun okkar er eins og alltaf mótuð af vörn og stuðningi við grunnþjónustu bæjarins sem eru skólar, íþrótta- og tómstundastarf, félagsþjónusta auk öldrunarþjónustu,” sagði Þór.
Minnihlutinn bendir á gjaldskrárhækkanir
„Meirihlutinn hikar ekki við að hækka hressilega öll gjöld á íbúa sem er skattheimta sem leggst þyngst á barnafjölskyldur, aldraða og tekjulægri íbúa sveitarfélagsins. Allar gjaldskrár munu hækka um að minnsta kosti 9,9% sem er 87% hærri prósenta en meðaltals verðbólguspá seðlabankans, hagstofunnar og bankanna fyrir árið 2024,“ segir í bókun minnihluta bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun bæjarins.
„Fjárfestingaráætlun bæjarins sýnir að ekki á að setja krónu í endurbætur á félagsheimilinu, vallarhúsi Gróttu eða endurnýjun á gervigrasinu. Áætlað er að setja 30 milljónir í skólalóð Mýrarhúsaskóla en ekki liggur fyrir hve mikið hægt er að gera fyrir þá upphæð en til samanburðar hafa endurbætur á skólalóðum í Vesturbænum kostað á bilinu 100 til 200 milljónir. Samfylking og óháðir munu beita sér milli umræðna fyrir því að við treystum grunnrekstur bæjarins með sanngjörnum hætti til að skapa svigrúm fyrir bætta þjónustu, aukið viðhald og endurbætur á grunninnviðum bæjarins,“ segir í bókun minnihlutans.