Eigum að sameina stóru málaflokkana
Ákveðin lífsstílsbreyting á sér stað á Vesturlöndum. Hún birtist einkum með þeim hætti að fólk kýs í auknu mæli að búa þéttar. Búa nær borgarkjörnum eða innan þeirra og notfæra sér vistvæna samgöngumáta á borð við almenningssamgöngur og reiðhjól.
Notkun einkabíls virðist fremur á undanhaldi í borgarsamfélögum miðað við þróun undanfarinna áratuga. Þessi þróun er að ná hingað til lands og birtist að nokkru leyti í nýju borgarskipulagi Reykjavíkur þar sem áhersla er lögð á þéttari byggð og vaxandi notkun almenningssamganga og reiðhjóla. Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar segir að við séum að taka þátt í nákvæmlega sömu þróun og nú eigi stað í mörgum borgum austan hafs sem vestan. Athyglisvert sé að þessi breyting komi engu að síður að vestan en frá Evrópu þar sem þéttar borgir hafa verið hluti af hinu manngerða umhverfi um langan tíma.
„Ég held að þetta byggist einkum á breyttum hugmyndum um lífsstíl sem gengur um heiminn. Nokkrar borgir í Bandaríkjunum hafa verið mjög leiðandi í að innleiða vistvæna ferðamáta og eru orðnar að fyrirmynd margra annarra þarlendra borga. Fyrir tveimur árum áttum við nokkur úr umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur þess kost fara í boðsferð til Portland og Seattle í Bandaríkjunum. Þessar borgir eru með mjög metnaðarfullar og fjármagnaðar áætlanir til næstu 10 til 20 ára sem allar ganga út á að þétta borgirnar og gera þær vistvænni bæði hvað þjónustu og samgöngur varðar. Verið er að fjölga hjólastígum verulega og efla almenningssamgöngur.“
Borgir í tísku
Hjálmar segir að þessum hugsunarhætti fylgi að borgir verði í tísku og fólk vilji hafa tækifæri til að njóta þess sem þær hafa upp á að bjóða án þess að fara allra sinna ferða í bíl. „Til að mæta þessum þörfum skiptir máli að búið verði í haginn fyrir aðra samgöngumáta – einkum hjólreiðar. Þá er ég fyrst og fremst að tala um hjólastiga og hjóla- og göngubrýr eins og brúna yfir Elliðaárósana sem hefur heppnast sérstaklega vel. Við höfum að undanförnu átt mikilvægt og farsælt samstarf við Vegagerðina að þessu leyti einkum um að gera hjólastíga meðfram ákveðnum stofnbrautum. Nokkurn tíma tók að fá Vegagerðina til að líta til þess að hún á ekki bara að sinna einni tegund umferðar en nú eru forráðmenn þar á bæ teknir að sýna mikla framsýni í þessum málum sem hefur komið sér mjög vel fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem lengst af voru afskipt þegar kom að opinberum stuðningi við vegagerð.“
Tvær kannanir – færri í bílum
Hjálmar bendir á tvær kannanir sem nýlega voru gerðar um ferðavenjur – önnur af Capasent en hin af Land-ráði sem sýna að nú dregur úr notkun einkabílsins. „Þótt þessar ferðavenjukannanir séu unnar frá aðeins mismunandi forsendum sýna þær sömu þróun. Könnun Land-ráðs miðast fremur við að mæla sjónarmið og Capasent könnunin mælir fremur staðreyndir en þær sýna engu að síður báðar að árangur hefur náðst í því að gefa borgarbúum valkosti hvað ferðamáta varðar. Þar á ég fyrst og fremst við vistvæna valkosti í ferðamálum hvort sem það eru almenningssamgöngur, að fara fótgangandi eða hjólandi og hlutfall hjólandi fólks hefur aukist verulega á skömmum tíma. Samfara þessu dregst hlutfall þeirra sem fara allra sinna ferða í einkabílnum saman. Þróunin er öll í þá átt.“
Þétting byggðar af sama toga
Hjálmar segir þessa þróun einnig endurspeglast í áformum um þéttingu byggðar í Reykjavík samkvæmt nýju aðalskipulagi. Uppsöfnuð þörf fyrir húsnæði hafi verið komin fram og þá orðið að spyrja hvort þétta ætti byggðina innan núverandi borgarsvæða eða leggja áherslu á byggingu nýrra úthverfa í enn meiri fjarlægð frá miðhluta borgarinnar en þegar hefur verið gert. „Ef ég á að koma nánar inn á þetta getum við byrjað að tala um hina svokölluðu Vogabyggð inn við Elliðaárósa þar sem fyrirhugað er að byggja blandað íbúðasvæði. Nú er búið að greina að í fyllingu tímans gætu byggst um 1100 íbúðir þar og ef miðað er við 2,4 íbúa á íbúð þá gæti risið þarna allt að 2500 manna byggðarlag. Þetta er fyrsta stóra verkefnið sem farið verður í en einnig er stórum uppbyggingarverkefnum og góðum þéttingarverkefnum að ljúka. Þá er ég að tala um Hampiðjureitinn við Stakkholt þar sem 130 íbúðir eru að verða tilbúnar og síðan er Búseti að vinna af fullum krafti að byggingu um 210 íbúða við Einholt og við Þverholt þar skammt frá. Einnig er hafin bygging 100 stúdentaíbúða við Brautarholt. Þarna verða byggðar hátt í 450 nýjar íbúðir neðst í Holtunum fyrir ofan Laugaveginn. Eina raunverulega leiðin til þess að húsnæðisverð lækki er að byggja það mikið að framboðið ýti verðinu niður. Allt þetta er unnið á frjálsum markaði og hverjum er heimilt að selja hús og íbúðir á því verði sem getur boðist.“
Stór fasteignafélög í nágrannalöndunum
Hjálmar segir mikið hafa verið rætt um fasteignafélagið Gamma sem eigi um 300 íbúðir. Það sé þó ekkert mikið ef litið sé til þess að Félagsbústaðir Reykjavíkur eiga um 2.200 íbúðir. „Í nágrannalöndum okkar – löndum á borð við Danmörku, Svíþjóð og Þýskaland starfa stór fasteignafélög, oft með marga eigendur að baki sér og eru mjög stórtæk. Þau kaupa og eiga heilu húsaraðirnar en þá er kerfið oft með þeim hætti að þessi félög fá ákveðna fyrirgreiðslu frá hinu opinbera ef að þau skuldbinda sig til þess að vera með ákveðið hlutfall íbúða á félagslegum forsendum þannig að þær íbúðir séu leigðar undir ákveðnu verðþaki. Þannig eru félögin skuldbundin gegn fyrirgreiðslu að bjóða þennan kost í 20 til 30 ár frá byggingu. Þetta er aðferð sem notuð er til þess að alltaf verði eitthvert hlutfall af íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir fólk með meðal- og minni tekjur bæði til þess að leigja og hugsanlega að kaupa. Fyrir þessu eru hefðir víða erlendis en þetta er ef til vill svolítið framandi fyrir okkur hér á landi.“
„Metró“ svæði fremur en algjör sameining
Reykjavíkurborg er í raun aðeins hluti stærri sambyggðar heildar sem stundum er kallað höfuðborgarsvæðið og er eitt atvinnu- og búsvæði þar sem bæjarmörk eru hinum almenna vegfaranda óljós. Þar eru fimm sveitarfélög auk borgarinnar; Kópavogsbær. Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Seltjarnarnesbær og Mosfellsbær. Löngum hafa bæjaryfirvöld þessara sveitarfélaga skipulagt og byggt án þess að mikið samráð væri þeirra á milli. Hjálmar segir ótrúlegt að hafa komist að því að engar upplýsingar hafi legið fyrir í einu sveitarfélagi um hvað var verið að byggja mikið í næsta sveitarfélagi. Framkvæmdir hafi fremur einkennst af blindri samkeppni en samstarfi og síðan hafi margir framkvæmdaaðilar farið beint á hausinn. Spurningin er því hvort auka þurfi samstarf þessara sveitarfélag eða hvort ef til vill sé komin tími til að sameina allt höfuðborgarsvæðið í eitt sveitarfélag. „Sannarlega er vilji til meira samstarfs. Menn verða að gæta þess að mál þróist aldrei aftur með þeim hætti sem varð. Að mínu viti eru til margskonar leiðir að samstarfi og sameiningu,“ segir Hjálmar. „Í Toronto í Kanada var farið í algjöra sameiningu þar sem fjöldamörg sveitarfélög voru sameinuð borginni. Í dag eru mjög skiptar skoðanir um hvort þessi sameining hafi tekist vel til. Þarna varð árekstur tveggja menningarheima sem eiga að geta verið til hlið við hlið. Annars vegar borgarbúanna og hinsvegar íbúa dreifbýlla úthverfa og útborga. Í Portland á vesturströnd Bandaríkjanna var farin önnur leið og að einhverju leyti sambærileg leið í Danmörku. Þar voru gerð einskonar „Metró“ svæði sem eiga sér sameiginlega yfirstjórn í ákveðnum málaflokkum á borð skipulags- og umhverfismál, almenningssamgöngumál og sorphirðumál. Þessir málaflokkar eru komnir inn í byggðasamlögin hér. Við erum þannig búin að taka ákveðin skref yfir í þetta „Metró“ fyrirkomulag.
Skipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins
Nú er einnig búið að efna til stöðu skipulagsstjóra höfuðborgarsvæðisins og ef hún verður fest í sessi til frambúðar sem ég vona að verði gert þá er það enn eitt skrefið til samstarfs. Hlutverk hans felst í að fylgja eftir ákvæðum nýs svæðaskipulags. Því verður áfangaskipt og fyrst verður unnin áætlun fyrir fyrstu fjögur árin. Sveitarfélögin hafa nú samþykkt drög að skipulagi sem verður kynnt von bráðar og verður nokkrar vikur í kynningarferli. Vonir standa til að þetta verði samþykkt á komandi vori og þar með leysir nýtt svæðaskipulag það gamla af hólmi. Með því munum við stíga enn eitt skrefið í átt til samstarfs og samvinnu. Eftir að hafa skoðað og kynnt mér þessi mál erlendis þá er ég á þeirri skoðun að við eigum að fara þessa leið sameiningar, að auka samstarfið og sameina stóru málaflokkana – að fara Portlandleiðina en ekki Torontoleiðina um algjöra sameiningu.“