Börnin þurfa að læra að vinna saman

Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, íþrótta- og frístundatengill.

Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir tók á liðnu hausti við starfi frístundatengis hjá Suðurmiðstöð áður Þjónustumiðstöð Breiðholts. Guðbjörg Ingunn ólst upp í Vestmannaeyjum og tók meðal annars þátt í íþróttastarfi. Æfði handbolta en kveðst hafa þurft að hætta eftir að hafa orðið fyrir beinbroti. Hún hélt ung norður í land og settist á skólabekk á Laugum í Reykjadal. „Ég var nokkuð virk sem barn og móðir mín kallaði mig stundum óhemju. Á Laugum fékk ég tækifæri til að fá útrás ef svo má segja. Ég fór að stunda útivist og hreyfingu, þríþraut og fór að synda. Ég kynntist krökkum víða af landsbyggðinni. Meðal annars frá Hrísey, Vestfjörðum og víðar. Sumir þessara krakka höfðu ekki náð að fóta sig nægilega vel en á Laugum var haldi vel utan um alla. Ég man sérstaklega eftir einum kennara Arnóri Benediktssyni. Hann var ættaður úr sveitinni en hafði dvalist og starfað í Reykjavík um tíma. Hann var leiklistarmenntaður og hafði hæfileika til að ná vel til krakkanna. Ég lauk kennaranáminu og bjó einnig í Danmörku um tíma. Langaði að prufa að vera erlendis.“    

En hvað kom til að Guðbjörg Ingunn fór að starfa hjá Suðurmiðstöð. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á uppeldismálum. Á meðan ég starfaði sem grunnskólakennari kom ég meðal annars að því að vekja börn til virkni. Maður upplifði ákveðinn vanmátt og að sum börn væru ekki að meðtaka námið. Síðustu tvær vikur hef ég farið í alla skóla í Breiðholti og hitt alla árganga og kynnt íþrótta- og frístundastarf í Breiðholti. Það var virkilega ánægjulegt að sjá alla þessa frábæru krakka sem öll eru með mismunandi áhugamál og stefnur. Eftir kynninguna bað ég alla nemendur um að huga vel að því hvað það er sem þeim þykir skemmtilegast og hvernig þeim langar að nýta sinn frítíma. Í því fellst mikilvæg vitneskja til þess að byggja starfið á.

Læra að vinna saman

Guðbjörg Ingunn segir að allir hafi ólíkar þarfir og væntingar og því er mikilvægt að þau ígrundi sínar vel og hafi áheyrn. „Það er mikilvægt að tryggja þeim tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu og ef þau finna sér ekki íþrótt eða aðrar frístundir sem hentar þeim, að við þá aðstoðum við að finna þeim leið. Í gegnum íþróttir og frístundastarf læra börn að vinna saman, styrkja félagsleg tengsl og er þetta gríðarlega mikilvægt fyrir öll börn og ungmenni í Breiðholti. Í hverfinu okkar eru börn og ungmenni með fjölbreyttan bakgrunn því er mikilvægt að við hjálpumst að að miðla upplýsingum á milli um það sem er í boði í Breiðholti og aðstoðum þau, ef þarf, við að ná tengingu á rétta staði. Kynningarstarf okkar um íþróttir og frístundir í Breiðholti er ávallt í fullum gangi og biðlum við til ykkar, íbúa um að aðstoða okkur í þeirri vinnu. Þar verður ávinningur okkar, sem samfélag mestur.

You may also like...