Að þekkja tækifæri og grípa þau

— Kolbrún Baldursdóttir fjallar um árin í borgarstjórn —

Kolbrún með barnabörnunum.

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur hefur nú átt sæti í borgar­stjórn í fimm og hálft ár. Hún hafði starfað sem sálfræðingur í mög ár og tekist á við ýmsan vanda ekki síst tengdum börnum og fjölskyldumálum. Hún segir að þrátt fyrir þá reynslu hafi margt nýtt komið til sögurnar þegar hún hafi verið komin á fulla ferð í borgarmálunum. „Síðasta kjörtímabil var mjög erfitt, samskiptalega séð og svo var maður bara að læra. Satt að segja komu stundir sem ég hélt ég myndi ekki lifa út vikuna, upplifði oft örmögnun svo mikla að ég dróst upp stigann heima hjá mér þegar ég kom heim eftir erfiðan dag og beint strik í rúmið.“

En Kolbrún hefur staðið allt af sér. Risið upp að morgni og tekið til starfa á fullu. „Mér finnst kaldhæðnislegt að segja að covid faraldurinn hafi eiginlega bjargaði mér. Það var einmitt í þeirri viku sem allt lokaðist meira og minna að ég var að þrotum komin og komin með covid. Þá hægðist á og fjarfundir tóku við. Þeir skapa vissulega álag er það er annars konar álag. Núna er maður þjálfaðri og ég er almennt mjög hröð í öllu sem ég geri. Ég get afkastað miklu á stuttum tíma, er svona manneskja sem get „multitaskað“ en auðvitað upp að vissu marki.“ Allt er þetta samt ávísun á hrun svo best að grobba sig minna.“ 

Svefn, hreyfing og mataræði skipta miklu

Kolbrún segir að til að forðast að krassa gæti hún að þremur hlutum. Í fyrsta lagi nefnir hún svefninn og nauðsyn þess að fá nægan svefn. „Ég er oft komin í rúmið kl. níu á kvöldin. Svo er það hreyfingin, hlaupaskórnir og einstaka ræktartímar. Og svo er það mataræðið. Mjög lítill sykur, lítið brauð en mikið af ávöxtum og svo bara venjulegum mat. Inn á milli finnst mér gott að grípa í prjóna, það róar og ég hlusta mikið á story tell. Við hjónin erum með sælureit út í sveit þar sem ræktun er orðin um 35 ára með tilheyrandi húsakosti. Við förum þangað oft og erum þar meira og minni í sumarfríum. Svo eru það mín dásamlegu fimm barnabörn sem kannski sjá ekki alltaf mikið af ömmu sinni, alla vega ekki nógu mikið. Þau eru á aldrinum eins árs til 14 ára og eru hvert öðru dásamlegri. Ekki má gleyma fóstbræðrunum Kubbi og Jökli, sá fyrri sex ára og sá síðari ársgamall. Þeir kunna að halda eigendum sínum við efnið. Ég er sannarlega lánsöm manneskja sannarlega.“

Fóstbræðurnir Kubbur og Jökull. Þeir kunna að halda eigendum sínum við efnið.

Við höfum kynnst

Kolbrún segir að í dag sé lífið í borgarstjórn viðunandi. Við höfum kynnst og ekki bara sem einhverjir agressivir pólitíkusar heldur manneskjur og náum vel saman í viðkvæmum stórum málum. Þar  má nefna vöggustofumálið og fleiri mál sem eru auðvitað ekki nein pólitísk mál. Heldur ekki þegar kemur að heill og heilsu hópa eða að standa saman að ályktunum sem snúa að mannúð og mennsku í stríðshrjáðum löndum.“

Krúttleg hugmynd dagaði uppi 

Kolbrún viðurkennir að sín hugðarefni hafi hins vegar ekki fengið mikið brautargengi. Þar megi nefna baráttan við biðlistana en á þeim eru um 2300 börn en voru 400 árið 2018. „Þetta er þrátt fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn og Keðjuna. Hlutverk hennar er að veita stuðningsþjónustu fyrir börn og unglinga. Þar starfa um 190 einstaklingar. Ég segi að það sé eitthvað í þessu kerfi sem er ekki að virka.“ Kolbrún minnist á það sem hún kallar „frekar krúttlega tilraun“ sem hún og tveir nýliðar úr meirihlutanum reyndum að gera en það var að fá settan á laggirnar spretthóp. Hópurinn hefði það markmið að aðstoða við að rýna listann og finna fleiri hendur til að koma að styttingu hans með markvissum hætti. „Þessi hugmynd þriggja borgarfulltrúa úr þremur flokkum þar af tveimur flokkum meirihlutans náði þó ekki í gegn og hefur dagað uppi.“

Grípa tækifæri þegar þau gefast

„Svo er það byggingavandinn,“ heldur Kolbrún fram. „Þrátt fyrir að mikið sé byggt er borgin ekki að byggja nóg. Ég vil losa um hvernig lóðum er úthlutað en aðeins er hægt að fá lóð í gegnum útboð og þá eru það heilu reitirnir jafnvel. Ég vil sjá meiri sveigjanleika og að slakað sé aðeins á þéttingaráformum. Persónulega finnst mér þessi nýju þéttingarhverfi ekki aðlaðandi. Þau eru öll eins og þrengsli eru mikil, en þetta er bara mín skoðun. Samgöngumálin eru svo heill kapítuli út af fyrir sig. Eins voru það mikil vonbrigði að fá ekki gert nýtt umhverfismat vegna þriðja áfanga Arnarnesvegar sem nú er hafinn og er aðgerðin byggð á 20 ára gömlu mati. Ég gerði hvað ég gat á öllum sviðum borgarinnar sem ég hafði rödd í samvinnu við Vini  Vatnsendahvarfs en allt kom fyrr en ekki. Þarna skipti Græna planið meirihlutans engu máli. Framundan eru tæp þrjú ár áfram í borginni. Stundum fæ ég löngun að komast á þing og halda áfram þar með frábæru teymi Flokks fólksins á þingi. Ég er reyndar varaþingmaður og hef tvisvar á þessu ári tekið sæti á þingi. En ég tek í raun eitt skref í einu. Sé hvert lífið leiðir mig“

Kolbrún Baldursdóttir og Jón Guðmundsson eiginmaður hennar á góðri stundu.

You may also like...