Tengslin eru mikilvæg

— segja þær Emma Swift og Embla Ýr Guðmundsdóttir ljósmæður og stofnendur Fæðingarheimilis Reykjavíkur —

Emma Swift og Embla Ýr Guðmundsdóttir ljósmæður og stofnendur Fæðingarheimilis Reykjavíkur.

Í lok nóvember höfðu um 70 börn fæðst á Fæðingarheimili Reykjavíkur frá því heimilið var stofnað seint á síðasta ári. Von var á fleiri fæðingum innan tíðar og gæti fæddum börnum því hafa fjölgað þegar blaðið verður komið út sem það gerði því tvær stúlkur fæddust á fæðingarheimilinu með klukkustundar millibili á meðan blaðið var í vinnslu og eru fjölskyldur þeirra beggja búsettar í Vesturbænum. Fæðingarheimilið er staðsett við Hlíðarfót í nýja hverfinu á Hlíðarenda en það var stofnað af tveimur ungum ljósmæðrum og Vesturbæingunum Emmu Swift og Emblu Ýr Guðmundsdóttur en auk þeirra starfa þrjár aðrar ljósmæður við heimilið. Vesturbæjarblaðið leit við í morgunkaffi til Emmu og Emblu á dögunum.

Á heimasíðu fæðingarheimilisins segir meðal annars að boðið sé upp á samfellda og einstaklings­miðaða þjónustu. Teymi reyndra ljósmæðra starfa þar sem hafa sett sér það markmið að veita góða fræðslu og faglega þjónustu á forsendum hvers og eins. Í boði séu fjölbreytt námskeið, barneignar­þjónusta, brjóstagjafaráðgjöf og fleira sem er sniðið að þörfum þeirra sem í hlut eiga og til þess fallið að bæta heilsu og líðan. 

Hið gamla og góða og það nýja

Hvernig kom þeim til hugar að opna fæðingarheimili? Góð spurning segja þær báðar í einu. Emma segir þær hafa unnið lengi sem ljósmæður, auk þessa að stunda rannsóknir og sinna kennslustörfum við Háskóla Íslands. Þær hafi lengi gengið með þann draum að koma því til framkvæmda sem þær telji best í meðgöngu og fæðingar­aðstöðu. Þær segja að þegar þær fóru að velta þessu fyrir sér hafi hugurinn leitað til gamla fæðingarheimilisins, að þessu gamla og góða eins og þær komast að orði. „Við höfðum heyrt góðar frásagnir af starfi þess. Bæði frá ljósmæðrum sem störfuðu þar en einnig frá fjölskyldum sem nutu þjónustu þar. Okkur þykir vænt um að hafa fengið að nota nafnið og halda áfram á þessari braut þótt eðlilega bætast ýmsar nýjungar við í ljósi vaxandi þekkingar og reynslu. Ljósmæður þar voru óhræddar við að nýta sér nýjungar og vinna út frá því sem talið var best. Þar má nefna að feður væru viðstaddir fæðingu barna sinna og að börn væru lögð í fang móður strax að fæðingu lokinni sem þótti mikil nýbreytni á þeim tíma, en þykir sjálfsagt í dag“ segir Emma og bætir við að öll reynsla móti mann og einstaklingar sem hafi alist upp í sveit með húsdýrum geti verið reynslunni ríkari þegar komi að barnsfæðingum. Þeir hafi oft upplifað þegar húsdýr fæðast og aðstoðað við burð. 

Edythe Mangindin ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi .

Mikilvægt að konur séu ekki kvíðnar

„Við hittum konur sem hafa heyrt góðar sögur frá eða heyrt af góðri upplifun af fæðingum til dæmis frá mæðrum eða systrum. Þær koma oft á mun rólegri máta að fæðingunni en þær sem óttast hana og vita lítið út í hvað þær eru að fara. Okkur finnst mikilvægt að konur séu ekki haldnar kvíða eða streitu þegar kemur að þessu mikilvæga verkefni í lífi þeirra,“ segir Embla. Þær segja misjafnt hvort konur séu kvíðnar eða stressaðar á meðgöngu. Fari mikið eftir hverri og einni. „Konur sem leita til okkar eru yfirleitt hraustar. Eiga ekki við fylgikvilla að stríða eða einhverja undirliggjandi áhættu­þætti fyrir meðgöngu eða fæðingu sem er ákveðin forsenda fyrir því að geta fætt hér að ekki þurfi að fást við óvænt inngrip. Ef þær eiga við einhver veikindi að etja eða búist er við aukinni áhættu þá ráðleggjum við þeim að fæða fremur á Landsspítalanum. Við erum ekki með skurðstofu en það er stutt yfir á Landsspítalann ef þarf að grípa án fyrirvara til keisaraskurðar eða annarra inngripa,“ segir Emma. Embla bætir við að flestar konur sem leita til Fæðingarheimilisins viti af eðlilegum fæðingum þar sem allt hafi gengið vel og séu yfirleitt spennar fyrir þessum viðburði. Konurnar fara heim samdægurs. Ekki er gert ráð fyrir innlögn en ljósmæður Fæðingarheimilisins fylgja konunum eftir heima í allt að sjö til átta skipti að fæðingu lokinni. Liðin tíð er að fæðingum fylgi innlögn ef allt gengur vel og ekkert óvænt kemur fram. Konur liggja ekki lengur í viku tíma á fæðingardeild eins og var á árum áður. Innlögn er aðeins nauðsynleg ef einhver inngrip eru nauðsynleg eins og keisaraskurðir, um fyrirbura sé að ræða eða ef veikindi koma upp sem eru stundum ótengd sjálfri fæðingunni.    

Ekki sama hvernig þjónustan er veitt

Talið berst að nýjungum. Þær segja að nýjungar þeirra felist einkum í þjónustunni og hvernig hún er veitt. „Við erum að tala um það sem kölluð er samfelld þjónusta. Í því felst að hópur ljósmæðra fylgi hverri konu eftir meðan á meðgöngu stendur, í sjálfri fæðingunni og einnig eftir hana. Nýbreytnin felst einkum í þessu. Við erum ekki að finna upp á einhverju sem enginn annar hefur gert en við erum að tala um þjónustu sem ekki er jafnan í boði hér á landi“ segir Embla. Emma bætir við að mikil áhersla sé lögð á að mynda gott samband við verðandi foreldra og átta sig á óskum þeirra og þörfum og styðja við þær á þeirra eigin forsendum. „Sú nýjung sem við erum að móta er að bjóða upp á stað þar sem fleira er að finna en eingöngu ljósmæðraþjónustu. Við bjóðum upp á jógatíma, brjósta­ráðgjöf, bjóðum nudd, nálastungur og erum með ýmis námskeið á íslensku, ensku og pólsku. Við erum með ýmsar nýjungar af þessum toga og viljum byggja þær upp enn frekar. Þá er ætlunina að bjóða einnig upp á  getnaðarvarnarráðgjöf á næsta ári.“

Með víðtæka reynslu af ljósmæðrastörfum

Emma og Embla segja einkennandi fyrir þann hóp kvenna sem sæki þjónustu Fæðingar­heimilisins hversu meðvitaðar þær eru og séu að undirbúa sig undir að fæða barn í heiminn. „Þær koma til þess að sækja sér meiri fræðslu. Koma til dæmis á undirbúningsnámskeiðin sem við bjóðum upp á. Þær kynna sér umhverfið hjá okkur. Vita vel hvernig það verður þegar að fæðingunni kemur.“ segir Emma sem var við nám í Bandaríkjunum og kynntist þar þeirri hugmyndafræði sem þær vinna eftir auk víðtækrar reynslu bæði hér heima og vestan hafs. Embla hefur einnig víðtæka reynslu af ljósmæðrastörfum og hefur starfað á fæðingarvakt Landspítala, við meðgönguvernd í heilsugæslu og við heimaþjónustu við nýjar fjölskyldur í heimahúsi. Hún hefur að auki lokið námskeiði í nálastungum og er með kennslu­réttindi í Hypnobirthing eða sjálfsdáleiðslutækni til að nota við fæðingu. Þær hafa báðar lokið doktorsprófi í ljósmóðurfræði og eru með sérfræðingsréttindi í fæðingarhjálp. 

Boðið er upp á hreyfingu og jóga í undirbúningstímum fyrir fæðingu.

Með fjölskyldum bæði fyrir og eftir fæðingu

„Við erum búnar að mynda ákveðin tengsl áður en að fæðingu kemur og því er einstaklega ánægjulegt að fylgja fjölskyldunni áfram. Við erum að fræða fjölskyldurnar fyrir fæðingu, meðan á henni stendur og einnig að henni lokinni. Við fylgjum henni eftir fyrstu skrefin með nýjan einstakling og okkur þykir óskaplega vænt um að okkur berast myndir af fjölskyldunum og fæðingarsögum þeirra sem má finna á heimasíðunni okkar www.faedingarheimilid.is“ segir Embla. “Þar má einnig finna ýmsa fræðslupistla tengdum barneignarferlinu, bætir hún við.” Talið berst að breskum sjónvarpsþáttum um fæðingar sem sýndir hafa verið hér á landi og fjalla um fæðingar frá því um miðbik liðinnar aldar þegar takmarkaðri þekking og önnur viðhorf voru ríkjandi. Þær Emma og Embla hafa greinilega fylgst með þeim. „Þetta eru frábærir þættir og sýna vel hvaða hlutverki nunnur og ljósmæður gegndu við fæðingar. Sumt sem er sýnt þar minnir á það sem við erum að gera. Fókusinn í okkar vinnu er að vera allt um kring ef má orða það. Ekki aðeins að mæla blóðþrýsting og aðrar mælingar sem vissulega eru hluti af eftirliti með heilsu kvenna á meðgöngu. Mannlegi þátturinn skiptir að okkar mati svo miklu máli. Að styðja sem best við fólk á þessum tímamótum,“ segir Emma.

Vesturbærinn og Seltjarnarnes

Talið snýst að Vesturbænum. Þær Emma og Embla eru Vesturbæingar en Embla færði sig um set fyrir nokkru. Flutti sig af Ásvallagötunni og býr nú á Seltjarnarnesi. Fór ekki lengra en á næsta bæ. „Ég er fædd og uppalin í Vesturbænum. Búin að búa hér og þar. Næstum á öllum Melunum og bý nú á Víðimel. Afi og amma bjuggu við Melhaga. Ólu börnin sín upp þar og ég var svo heppin að búa hjá ömmu og afa og alast upp hjá þeim stóran hluta af æsku minni. Mamma keypti svo húsið af þeim og við héldum áfram að búa þar þannig að Melhagi 3 er einskonar ættaróðal fyrir mér. Ef ég fer aðeins lengra aftur þá á ég ættir á Grímshaga. Þar var bóndabærinn Hólabrekka þar sem langafi minn og langamma voru með búskap. Stórfjölskyldan byggði síðan yfir sig í túninu heima og hálf ættin mín býr þar í götunni. Jón Torfi prófessor og Ögmundur Jónasson stjórnmálamaður eru móðurbræður mínir og búa þar báðir,“ segir Emma.  Þegar fjölgaði í fjölskyldu Emblu hófst leit að stærra húsnæði. „Þá fluttum við á Látraströndina á Seltjarnarnesi. Við erum aðkomu­fólk því flestir sem þar búa eru fæddir og uppaldir á Nesinu. Heilsugæslan á Seltjarnarnesi sinnir einnig hluta af Vesturbænum þannig að margir af skjólstæðingum okkar koma frá Heilsugæslunni á Nesinu. En við kunnum vel við okkur þar líkt og við gerðum í Vesturbænum. “

Ætla að koma aftur

Emma og Embla segjast mjög ánægðar með þær móttökur sem þær hafa fengið. Engin kona hefur enn komið tvisvar til að fæða enda hafa þær aðeins verið með fæðingarheimilið frá því seint á síðasta ári. Þær segjast þó eiga von á að konur komi aftur til þeirra erinda að fjölga mannkyninu og sumar hafi látið í ljósi þegar þær hafa kvatt með nýburann sinn að við munum sjá þær aftur. Kannski eftir tvö ár. Þannig að við bíðum nú spenntar eftir konum til að koma aðra umferð í þjónustu til okkar.

Feður eru undantekningalítið viðstaddir fæðingu barna á fæðingar­heimilinu og fæðingar í vatni fara öðru hvoru fram. 

You may also like...