Nýtt veitinga- og kaffihús í Gerðubergi
Þann 20. mars tók veitingasvið ISS Ísland við rekstri kaffihúss, Kaffi 111, í Borgarbókasafninu Menningarhúsi Gerðubergi.
Auglýst var eftir rekstraraðilum að kaffihúsinu í janúar og átti ISS veitingasvið hagstæðasta boð í reksturinn. Veitingasvið ISS rekur stórt miðlægt eldhús í Vatnagörðum þar sem eldaður er hádegismatur fyrir fjölda fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess rekur veitingasvið ISS veitingaþjónustu í fjölmörgum skólum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Kaffihúsið í Gerðubergi mun bjóða upp á alvöru kaffihúsastemmingu með kaffi, kökum, smáréttum og öðrum léttum veitingum. Áhersla verður þó á heitan og kjarngóðan mat í hádeginu. Í Gerðubergi er fjölbreytt starfsemi þar sem meðal annars er bókasafn, viðamikil viðburðadagskrá af ýmsum toga allt árið um kring, útleiga á fundarsölum og félagsstarf. Undanfarna mánuði hafa staðið yfir miklar breytingar á efri hæð hússins, þar sem veitingaaðstaðan var meðal annars færð til, auk þess sem ný og glæsileg húsgögn prýða nú veitingarýmið. Eldhús kaffihússins er búið nýjum og fullkomnum tækjum til veitinga- og kaffihúsareksturs. Um 160.000 manns heimsækja Gerðubergi á ári, og vonast veitingasvið ISS til að kaffihúsið muni setja nýjan blæ á húsið og auka þjónustustig til viðskiptavina. Opnunartími Kaffi 111 verður alla virka daga frá 8-18 og um helgar frá 13–16.