Miklar breytingar á Slysavarnarhúsinu

Slysvarnarhúsið á Grandagarði. Ætlunin er að rífa bláu viðbygginguna. Opna inni húsið í það rými sem eitt sinn var notað sem geymslustaður fyrir björgunarbáta og byggja trébryggju fyrir framan húsið.

Nýr veitingastaður verður opnaður í Slysavarnarhúsinu á Grandagarði ef hugmyndir um breytingar sem nú er unnið að verða að veruleika. Borgarráð samþykkti á fundi sínum nýverið að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi þess efnis að gera megi timburbryggju fyrr framan húsið auk flotbryggju sem Slysavarnafélagið Landsbjörg myndi hafa afnot af.

Slysavarnarhúsið var reist eftir teikningum Gísla Halldórssonar arkitekts á árunum 1958 til 1959 og fellur því ekki undir lög um menningarminjar. Húsinu var breytt nokkuð undir síðustu aldamót. Meðal annars var stórum dyrum á suðurgafli þess lokað en þær höfðu verið notaðar til þess að hífa björgunarbáta inn í húsið. Í hinum nýju hugmyndum er gert ráð fyrir að opna húsgaflinn að nýju og koma þar fyrir timburbryggju. Í umsögn Minjastofnunar kemur fram að í tillögum Trípólí arkitekta sem hannað hafa umræddar breytingar séu dregin fram mikilvæg sérkenni sem settu svip á húsið í upphafi og breytingar hannaðar af tillitsemi við byggingarstíl hússins. Í hugmyndum er gert ráð fyrir að veitingarými verið á tveimur hæðum hússins og mun tveggja hæða rýmið sem í upphafi var geymslustaður fyrir björgunarbáta verða nýtt fyrir veitingareksturinn.

You may also like...