Ertu klár í Hverfaröltið?
Hverfaröltið er samstarf foreldrafélaga grunnskólanna í Breiðholti, félagsmiðstöðva, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og lögreglunnar. Foreldra- og hverfarölt er hafið í nánast öllum skólunum og eru foreldrar sérstaklega hvattir til þess að fylgjast með því þegar röltið er auglýst í þeirra skóla. Skipulagt rölt er á föstudagskvöldum og öllum íbúum í hverfinu er velkomið að taka þátt í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni enda er markmiðið margþætt og stuðlar að vinsamlegra samfélagi. Þó að skipulagt hverfarölt fari einungis fram á föstudagskvöldum, eru foreldrar og aðrir fullorðnir einnig hvattir til að láta sig hverfið varða og sýna sig önnur kvöld vikunnar. Umhyggja fyrir nærumhverfinu skilar sér í öruggara hverfi og samstöðu meðal íbúa. Skipulagðar göngur eru á föstudagskvöldum kl. 22:00. Gengið er frá Hólmaseli, Iceland við Arnarbakka og Iceland við Vesturberg.
Þátttaka í hverfarölti er tilvalið hópefli foreldra og íbúa og stuðlar að betri kynnum, eflir foreldrasamstarf og skilar sér í enn betri samfélagsbrag. Foreldrar yngstu árganganna stuðla einnig að forvörnum og hjálpa til við eftirlit með unglingunum með sinni þátttöku. Það dreifir álaginu milli árganga og þessir foreldrar njóta sömu aðstoðar síðar meir sem nýtist þegar þeirra börn eru komin á unglingastig.
Samstarf sem vekur athygli út fyrir landsteinana
Sendinefnd frá sveitarfélaginu í Árósum í Danmörku, kom í námsferð til Reykjavíkur í lok ágúst m.a. til að kynna sér íslenska módelið um forvarnir í heilsumálum. Nefndin vildi kynna sér hvaða leiðir eru farnar hér á landi til að bæta heilsu íslenskra ungmenna. Auk þess að ræða við stjórnvöld og háskólasamfélagið hafði hún áhuga á að heimsækja foreldra sem hafa lagt sitt af mörkum til foreldrarölts í sínum hverfum. Breiðholt varð fyrir valinu vegna þess hve samvinna foreldrafélaganna fimm er góð, meðal annars við skipulag foreldra- og hverfarölts. Sendinefndin hitti einn fulltrúa þeirra, Ragnheiði Davíðsdóttur, sem kynnti þeim verkefnið. Í kjölfar þess óskaði sendinefndin eftir frekari upplýsingum og hyggst hún innleiða fyrirkomulag foreldrafélaganna fimm í Árósum í Danmörku.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fagnar samstöðu foreldra og íbúa
Í byrjun október var haldinn fundur á vegum Þjónustumiðstöðvar Breiðholts um nágrannavörslu með götustjórum og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en slíkur fundur er haldinn tvisvar sinnum á ári. Fulltrúum foreldrafélaga og hverfarölts var einnig boðið til að fá innsýn inn í verkefni um nágrannavörslu.
Fulltrúi lögreglunnar fjallaði sérstaklega um forvarnargildið sem röltið felur í sér og mikilvægi samstöðu um að virða útivistartíma barna og unglinga, hversu mikilvægt það er að halda áfram þeim góða árangri í að vinna saman að forvörnum sem draga úr áfengis- og fíkniefnaneyslu unglinga. Með því að kanna hvað fer fram í hverfinu á kvöldin og er þá einnig hægt að vera til staðar ef unglingar eru illa á sig komnir og þarfnast aðstoðar. Einnig var bent á að foreldraröltið væri góð leið til að koma á tengslum milli foreldra í hverfinu sem eiga börn á unglingsaldri og að og bendir á gamla góða hollráðið að við eigum að vera unglingunum góðar fyrirmyndir.
Samkvæmt lögreglunni er einn meginkosturinn við foreldraröltið sá að reynslan hefur sýnt að nálægð fullorðinna hefur yfirleitt þau áhrif að unglingahópurinn leysist upp og ólíklegt er að landa- eða vímuefnasalar geri vart við sig þegar foreldrar vakta svæðið. Það getur einnig verið lærdómsríkt og gaman að fara á foreldrarölt, kynnast öðrum foreldrum, heyra viðhorf þeirra og jafnvel komast að því að flestir foreldrar fá að heyra rökin „allir mega það”.
Samfélagsleg ábyrgð og ánægjulegar stundir
Við erum stolt af hverfaröltinu okkar en árangurinn byggist á virkri þátttöku. Allir íbúar hverfisins eru hvattir til að taka þátt í þessu frábæra verkefni og sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Höfum áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem við og börnin okkar búum við, tökum þátt í röltinu og eigum ánægjulega stund í heilsubótargöngu um hverfið okkar.
Með kærri kveðju,
fyrir hönd foreldrafélaganna fimm í Breiðholti.
Kristín Steinunn Birgisdóttir.