Davíð Ingi og Lovísa hlutu bókaverðlaun barnanna
Bókaverðlaun barnanna voru afhent 2. desember í Bókasafni Seltjarnarness en vinningshafarnir voru Davíð Ingi Másson og Lovísa Scheving.
Um er að ræða verkefni sem almenningsbókasöfn og skólabókasöfn um land allt taka þátt í fyrir börn á aldrinum 6 til 12 ára. Veggspjald með bókum ársins er gefið út og velja börnin 1 til 3 bækur sem þeim finnast skemmtilegastar og skila inn á atkvæðaseðli. Atkvæði eru talin á landsvísu og verðlaunabækurnar, ein frumsamin og ein þýdd fá verðlaun. Á Seltjarnarnesi verðlauna bókasafnið og skólabókasöfnin tvo þátttakendur, en hátt á þriðja hundrað barna á Nesinu tók þátt. Bækurnar sem fyrir valinu urðu, og vinningshafarnir voru leystir út með, eru Rangstæður í Reykjavík eftir Gunnar Helgason og Amma glæpon eftir D. Walliams í þýðingu Guðna Kolbeinssonar.