Uppbygging á þjónustureitunum í Breiðholti

Þannig leit verslunarhús við Arnarbakka út þegar Reykjavíkurborg festi kaup á því með það fyrir augun að koma lífi á svæðið. Eftir nauðsynlegar lagfæringar auglýsti borgin húsnæði til skammtíma leigu. Nú hafa ýmsir aðilar fengið afnot af því og eru með margvíslega starfsemi þar. Fyrirhuguð er þó meiri uppbygging á svæðinu og öðrum svæðum sem muna mega fegurri tíma í Breiðholti.

Frágangi hverfaskipulags fyrir Breiðholt hefur verið frestað fram í ágúst. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur segir það hafa verið gert til þess að fá meira samráð um þjónustu- og þéttingarreitina í Breiðholti, Arnarbakka í Neðra Breiðholti, Drafnarfell í Efra Breiðholti og svæðið við Hólmasel neðan Seljahlíðar í Seljahverfi. Þessi svæði hafi á sínum tíma verðið hugsuð sem þjónustusvæði þar sem verslanir og önnur þjónustufyrirtæki gætu starfað. Í tímans rás hafi þjónustuhlutverk þessara svæða minnkað. Verslanir hafi flust til eða hætt starfsemi og hluti af því húsnæði sem byggt hafi verið fyrir þjónustustarfsemi staðið ónotaður.

Hugmyndin er að koma upp íbúðabyggingum á þessum svæðum sem yrðu tengd verslun og þjónustu og menningarstarfsemi. Með því að hluti af endurbyggingunni verði íbúðabyggð væri hægt að skapa betra umhverfi fyrir verslanir og önnur fyrirtæki til þess að reka starfsemi sína. Að baki þessu liggur einnig sú hugsun að fólk hafi þjónustu sem næst heimilum sínum. Geti skotist út í búð þegar það vanhagar um eitthvað án þess að þurfa að fara langar leiði í stórmarkaði. Þessi hugsun lá að baki skipulagi allra Breiðholtshveranna á sínum tíma þótt ýmsar ytri aðstæður hafi breyst í gegnum tíðina. En er raunhæft að stefna að þessu. Sigurborg segir það fullkomlega raunhæft. “Við viljum að í nýju skipulagi verði rýmri heimildir til bygginga íbúða og einnig fyrir atvinnustarfsemi. Þess vegna vildum við kynna þessar hugmyndir betur og fá fram eins mikið af sjónarmiðum og hægt er. Þarna á að geta orðið umtalsverð uppbygging. Við sjáum fyrir okkur að efling þessara byggða muni gera þær sjálfbærari og styrkja hverfishlutana í heild sinni og þar með allt Breiðholt.” Talið berst að Stekkjarbakkanum en þar hefur öðru hvoru verið rætt um að skipuleggja og hefja framkvæmdir. Sigurborg segir málefni Stekkjarbakkans í biðstöðu. “Við viljum ekki fá aðra stóra matvöruverslun inn í Mjóddina. Við viljum fá matvöruverslunina inn í hverfin. Stórverslun Nettó er þegar fyrir í Mjóddinni og tilkoma annarrar myndi að öllum líkum draga úr því að fá rekstraraðila til þess að versla með daglegar nauðsynjar inn í hverfunum. Fólk fer tæpast úr íbúðahverfunum til að versla í Mjóddinni nema á farartækjum. Ef til vill úr allra næstu byggðum. Stekkjunum og Árskógunum en ekki um lengri veg.”

You may also like...