KR byggir ekki á SÍF lóðinni

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Gömlu SÍF skemmurnar við Ánanaust sem lengi hefur staðið til að rífa. Búseti hefur fengið byggingarétt á lóðinni en óvíst er um framtíðarsvæði fyrir KR sem gert hafði verið ráð fyrir í tengslum við byggingar Búseta.

Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur dregið sig út úr samstarfi um uppbyggingu á SÍF lóðinni svonefndu við Eiðisgranda en fyrirhugað var að félagið myndi ásamt Búseta hefja framkvæmdir þar.

Áætlað var að Búseti myndi byggja 70 íbúðir en að einnig yrði byggt íþróttahús sem að hluti yrði niðurgrafið. Búseti hefur umráðarétt yfir lóðinni en nú mun að öllum líkindum verða farið út að gera nýtt deiliskipulag af svæðinu þar sem gert verður ráð fyrir íbúðum á svæði þar sem íþróttaaðstaðan átti að rísa.

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar segir að eftir að Búseti hafi fengið umráð yfir lóðinni hafi farið af stað viðræður við KR sem lengi hafi leitað eftir bættri aðstöðu í Vesturbænum sem hafi lokið með samkomulagi um að Búseti reisti 70 íbúðir af stærðunum tveggja til sex herbergja. Síðan yrði gerður innigarður á móti suðri sem sem KR myndi byggja fjölnotahús sem yrði niðurgrafið að hálfu og ofan á því yrði garður. „Síðan hefur komið í ljós að forráðamenn KR telja að þetta fyrirkomulag henti þeim ekki og að þeir vilji fremur byggja upp aðstöðu á umráðasvæði sínu við Kaplaskjól þannig að ekkert mun verða úr þessari fyrirætlan,“ segir Hjálmar og bætir við að Búseti sé áfram með umráðarétt á SÍF lóðinni og að nú verði unnið að því að koma á nýju deiliskipulagi. Það sé ekki komið á leiðarenda en trúlega verði gert ráð fyrir fleiri íbúðum á svæðinu eftir að ljóst var að hugmyndin um samstarf við KR verði ekki að veruleika.

Hjálmar segir að upphaf þessa máls megi rekja til ársins 2012 að Reykjavíkurborg keypti umrædda lóð af Landsbankanum með það í hyggju að þar risu íbúðir. Eftir það hefði húsnæðissamvinnufélagið Búseti fengið lóðina til umráða sem væri samkvæmt stefnu borgar-innar um nauðsyn þess að byggja meira af húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir tekjulægra fólk. Borgin verði að hafi ákveðið frumkvæði að þessu leyti vegna þess að markaðurinn leitist við að byggja yfir þá sem geti borgað mest og þéttingarverkefnin verið að miðast við að sem flestir hópar geti nýtt sér aukna byggð.

 

You may also like...