Sýnum aðgát – verum góðir grannar

Nágrannavarsla

Séð yfir Breiðholt.

Aldrei erum við of oft áminnt um mikilvægi aðgæslu og forvarna gagnvart heimilum okkar og eigum, hvort sem við erum heima eða að heiman. Við heyrum af tíðum og jafnvel hverfabundnum innbrotum þessa dagana. Sýnum aðgætni, nú sem aldrei fyrr! Ekki er óalgengt að öryggiskerfi nái hvorki yfir bílskúra né geymslur sem gjarnan eru  á jarðhæð eða í kjallara. Athugum hvort gluggalokur og hurðarlæsingar séu traustar og gluggar lokaðir. Eru aðaldyr og bakdyr ekki örugglega læstar, jafnvel að degi til? Læsum endilega  hjólum hvort sem þau eru geymd innan- eða utandyra, það sama gildir um bílana. Vörumst að láta verðmæti liggja á glámbekk eða vera sýnileg inn um glugga. 

Í þessu samhengi má minna á nágrannavörsluna, sem hefur verið við lýði víða í Breiðholti frá hausti 2006. Um er að ræða formlegt samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og lögreglu, þar sem markmiðið er að fá íbúa viðkomandi  götu eða fjölbýlishúss til að tengjast og taka höndum saman til að sporna gegn afbrotum og  eignatjóni, sem að sama skapi stuðlar að samheldni fólks og öruggara umhverfi. Íbúar verða má segja eftirlitsaðilar í sinni götu eða nærumhverfi og hafa auga með umferð og umgengni. Jafnframt er hughreystandi þegar farið er í frí að geta leitað til góðra nágranna og beðið þá um að líta til með heimilinu.

Að sækja um nágrannavörslu

Sækja þarf sérstaklega um nágrannavörslu og ákveðið ferli fer í gang (sjá vefsíðu okkar https://reykjavik.is/nagrannavarsla-i-breidholti). Íbúar viðkomandi götu sameinast um að skrifa undir þátttökubeiðni og tilnefna götustjóra. Þegar umsókn er komin í gegn, eru sett upp þar til gerð skilti í götuna og íbúum afhentir límmiðar á gluggarúður. Tekið er við umsóknum í bæði í Þjónustumiðstöðinni í Álfabakka og Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi. Álfhildur starfsmaður Fjölskyldumiðstöðvarinnar veitir frekari  upplýsingar og leiðbeiningar í síma 411 2727, netfang: alfhildur.hallgrimsdottir@reykjavik.is. endilega hafið samband. – Það hefur sýnt sig að virk nágrannavarsla er góð leið til að fækka innbrotum, þjófnuðum og skemmdarverkum af ýmsu tagi. Vissulega  kemur nágrannavarsla ekki í staðinn fyrir almenn öryggisatriði sem fólk þarf að huga að, en er ágætis viðbót. –  Stefnt er að því að halda nágrannavörslufund í Fjölskyldumiðstöðinni seinni partinn í nóvember nk. Vonast er til að sem allra flestir mæti, bæði götustjórar og aðrir áhugasamir íbúar hér í Breiðholti. Fundartími og dagskrá verða nánar auglýst síðar.

Álfhildur Hallgrímsdóttir, umsjónarmaður nágrannavörslu í Breiðholti.

You may also like...