Talin þörf á 985 fm. viðbyggingu við Breiðholtsskóla

Anna Sif Jónsdóttir formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla.

Anna Sif Jónsdóttir formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla.

Talin er knýjandi þörf á viðbyggingu og ýmsum endurbótum við Breiðholtsskóla en húsnæði skólans er nú 45 ára gamalt. Talið er að þær endurbætur sem nauðsynlegar eru kosti um eða yfir einn milljarð króna. Í bréfi sem foreldrafélag skólans hefur sent borgaryfirvöldum er óskað eftir upplýsingum um stöðu framkvæmda við skólann en félagið hefur til margra ára barist fyrir bættir aðstöðu skólans.

Í bréfinu kemur meðal annars fram að borgarráð hafi samþykkt að láta fara fram úttekt á viðbyggingar- og viðhaldsþörf skólans auk endurgerðar skólalóðar. Skipaður var vinnuhópur til að annast það verkefni og skilaði hann skýrslu í nóvember fyrir ári. Helstu niðurstöður hans eru að byggja þurfi allt að 985 viðbyggingu við skólann og að ráðast í endurbætur á um tæplega 1.300 fermetra húsnæði sem fyrir er. Hópurinn lagði til að tillaga um viðbyggingu verði tekin til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015.

Engar fyrirætlanir um byggingu

Í niðurstöðum vinnuhópsins er svokölluð frumkostnaðaráætlun en hún er miðuð við verðlag í nóvember árið 2013. Gert er ráð fyrir að viðbygging kosti um 453 milljónir króna, endurbætur á eldra húsnæði um 300 milljónir, endurnýjum lóðar um 148 milljónir og búnaður í núverandi húsnæði um 47 milljónir. Viðhaldsþörf á núverandi húsnæði er metin á 260 milljónir króna. Allar framkvæmdir sem hópurinn leggur til muni því kosta rúma 1200 milljónir á verðlagi síðasta árs. Í ár var varið á bilinu 150 til 200 milljónum í framkvæmdir við skólann. Þeim var einkum varið í viðgerðir utanhúss, lagfæringu lóðar, raflagna auk þess sem skipt var um lélegasta búnað skólans. Foreldrafélag Breiðholtsskóla hefur þrýst á um að gerð verði tímaáætlun um framkvæmdir við skólann en í bréfi félagsins til borgaryfirvalda kemur fram að stjórn foreldrafélagsins hafi fengið þau skilaboð frá embættismönnum borgarinnar að engar fyrirætlanir séu um að byggja við skólann. Anna Sif Jónsdóttir formaður foreldrafélags skólans segir að námsumhverfi nemenda hafi lagast talsvert við þær framkvæmdir sem unnar voru á liðnu sumri en margt sé eftir að gera til þess að skólinn samrýmist nútíma skólum og sérstaklega hvað varðar vinnuumhverfi starfsmanna.

 

You may also like...