Hólabrekkuskóli 40 ára
Fjörutíu ára afmæli Hólabrekkuskóla var fagnað með hátíðardagskrá og skemmtilegri sýningu í skólanum laugardaginn 29 nóvember.
Gamlir og nýir nemendur, foreldrar og starfsfólk heimsóttu skólann og tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá. Í tilefni afmælisins var sett upp sýning í skólanum þar sem skólastarf fyrr og nú kom við sögu. Einnig voru settar upp gamlar myndir af nemendum sem glöddu þá sem komu í heimsókn í gamla skólann sinn. Dagskrá hófst kl. 11.00 með ávarpi skólastjóri en nemendur skólans skemmtu síðan gestum með dansi og tónlist. Gestum var boðið upp á andlitsmálun og ýmsa leiki og afhjúpað var vegglistaverk sem allir nemendur og starfsmenn skólans höfðu unnið að en alls eru 485 nemendur í Hólabrekkuskóla sem allir tóku þátt í afmælishátíðinni ásamt foreldrum og starfsfólki.
Þemadagar í tilefni af afmælinu
Í tilefni af 40 ára afmæli skólans voru þemadagar haldnir í skólanum dagana 26. til 28. nóvember sl. og einnig var efnt til svonefnds öfugdags þar sem nemendur og starfsmenn mættu í fötunum á röngunni eða jafnvel í krummaskóm og sumir gengu afturábak. Daginn eftir var hattadagur þegar allir mættu með hattinn sinn. Á litadeginum síðasta degi þemavikunnar urðu svo allir að mæta í fánalitum skólans sem er hvítur og blár. Í frímínútum mánudaginn 24. nóvember í upphafi afmælisvikunnar kom Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í heimsókn í Hólabrekkuskóla og tók þátt í leikjum, þar á meðal töfrakassanum sem er nokkuð flókinn og tókst honum að skora eitt mark. Foreldrar komu einnig i heimsókn þann dag og voru sum þeirra liðtæk meðal annars í kubb og eltingaleik og a.m.k. ein mamma hljóp um skólalóðina sem bófi. Sá leikur sem var einna vinsælastur var að kasta í dollur og þar borgaði sig greinilega að endurnýta það sem til fellur í skólanum því dollurnar komu úr mötuneytinu. Í þessum leik þurftu foreldrarnir að æfa sig meira því nemendurnir voru betri en nokkuð jafnt var á milli nemenda og foreldra í kubb. Sápukúlur svifu yfir skólalóðina meðan á frímínútunum stóð.