Um 100 manns á opnun Gallerí Vest

Alltaf eykst lífið á Melunum:

Galleri Vest opnun 3 1

Systrabörnin Steinunn Bergsteinsdóttir hönnuður og Kristján Baldursson tæknifræðingar og jógakennari ræðast við.

Hátt í eitt hundrað manns komu á opnun fyrstu sýningarinnar í nýjum sýningarsal „Gallerí Vest“ í verslunarhúsinu við vestanverðan Hagamelinn.

Sýningin ber heitið „Nýtilgangur“ og er það vísað til þess að sýningin er unnin úr notuðum efnivið sem öðlast nýjan tilgang sem grunnur að útfærslu í myndverkum. Það eru Þórey Eyþórsdóttir eigandi sýningarsalarins og tengdasonur hennar Magnús Helgason sem renna á vaðið með þessa nýstárlegu sýningu unna úr efnum sem áður hafa verið notuð. Þótt þau eigi sér ólíka ferð um heim myndlistarinnar og ólíkan bakgrunn er hugsunin um endurnýtingu efniviðarins hluti af myndsköpun þeirra beggja. Þótt verkin séu breytileg þá er endurnýtingargrunnurinn sá sem tengir tvo ólíka myndlistarmenn saman. Vesturbærinn hefur ekki áður átt sýningarsal en með Gallerí Vest mun myndlistarfólki gefast kostur á að koma verkum sínum á framfæri í Vesturbænum. Þessi bæjarhluti er nú að sækja í sig veðrið sem þjónustustaður eins og áður hefur verið vikið að á vettvangi Vesturbæjarblaðsins og nýir hluti í boði. Húsnæðið við Hagamelinn er einnig þekkt af liðlega 40 ára þjónustusögu í þágu Vesturbæinga. Ísbúðin sem Aðalsteinn Bjarnfreðsson, bróðir Aðalheiðar verkalýðsforingja og Magnúsar fréttamanns og margra fleiri systkina opnaði á áttunda áratugnum og lét gamansögur fylgja ísnum varð með tímanum ein vinsælasta ísbúðin í Reykjavík þangað sem fólk ók gjarnan úr öðrum bæjarhlutum. Biðraðirnar við ísbúðina eru löngu þekktar þótt flestir hafi örugglega fengið ísinn sinn afgreiddan að lokum. Sjoppan austanmegin við ísbúðina, lengi kölluð Vilborgarsjoppa af nágrönnum var gott matarbúr í hádeginu og ekki má gleyma Útfarsfelli sem Bergþór Úlfarsson síðar garðyrkjubóndi í Borgarfirði stofnaði í nýbyggðu húsinu og er þar enn þótt eigandaskipti hafi orðið. Jóhann heitinn Jónsson í Skákprent prentaði lengi Skákblaðið og ýmislegt fleira í hlutanum sem nú hýsir blómabúðina og nú síðast Gallerý Vest. Þorsteini heitnum Þórðarsyni bólstrara sem bjó lengi á fyrstu hæðinni við Kaplaskjólsveg 31 áföstu verslunarhúsnæðinu líkað stundum misjafnlega við höggin í prentvélinni einkum þegar leið að jólum og jólabækur runnu af prentsleðanum jafnt daga og nætur. Síðar kom bjórinn og þá fengu Vesturbæingar betri þef af hinum nýja drykk en aðrir því fyrsta hreina hverfiskráin í Reykjavík var opnuð þar sem prentvélarnar höfðu staðið. Mörgum líkaði þetta vel en breska pubbamenningin stóð ekki traustum fótum á hinu áður bjórlausa Íslandi og urðu sumir nokkuð glaðir til veiganna og ollu stundum hávaða á síðkvöldum eða losuðu sig við áður drukknar veigar fram af stallinum ofan við bílastæði borgaranna við Kaplaskjólsveg 27 til 31. Hauknum var lokað og þá komu blómabúðin sem er þar enn og brauðbúð þar sem Gallerí Vest er nú til húsa. Sýningin í Gallerí Vest stendur fram yfir miðjan janúar en ætlunin er að vera með sýningar að staðaldri í sýningarsalnum. Einnig stendur til að efna til jógaiðkana fyrir heldri borgara í salnum á nýju ári og mun Kristján Baldursson eiginmaður Þóreyjar, tæknifræðingur og jógakennari standa að þeim. Alltaf eykst lífið á Hagamelnum og á miðjunni á Melunum.

 

Galleri Vest opnun 4 1

Magnús Helgason myndlistarmaður og annar sýnenda og Helgi Magnússon faðir hans við opnunina.

Galleri Vest opnun 1 1

Unnur Guðjónsdóttir Kínafari og dansari og Sigtryggur R. Eyþórsson í XCO ræðast við á opnun sýningar í Gallerí Vest.

Galleri Vest opnun 2 1

Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir og Eggert Valmundarson verkfræðingar á opnuninni.

You may also like...