Af sprengjufræðum og námi í dönskum herskóla

– Sigurður Ásgrímsson yfirmaður séraðgerða og sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar segir frá ævintýrum sínum fyrr og síðar –

Sigurður Ásgrímsson yfirmaður séraðgerða og sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar.

Sigurður Ásgrímsson yfirmaður séraðgerða og sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar spjallar við Nesfréttir að þessu sinni. Sigurður er Siglfirðingur að ætt og alinn þar upp. Var á sumrum í Eyjafirði á sveitabæ sem fyrir löngu er kominn undir byggð í Glerárhverfi. Fór í rúm þrjú ár til sjós eftir gagnfræðapróf en eftir það fluttist hann til Vestmannaeyja þar sem honum bauðst að fara í nám í rafvirkjun. Sigurður er giftur Ingibjörgu Ósk Þorvaldsdóttur kennara við Mýrarhúsaskóla og eiga þau þrjú börn sem öll eru alinn upp á Nesinu.

„Ég er alinn upp hjá föðurömmu minni Eiríksínu og Birni afa á Siglufirði og á ættir að rekja til Héðinsfjarðar og til Fljóta. Í sama húsi og við bjuggu líka Sveinn föðurbróðir minn og Hansína kona hans. Þau tóku við uppeldinu á mér þegar amma féll frá en þá var ég á tíunda ári. Á mínum æskuárum voru allir á kafi í síld og var ég settur á leikskóla ásamt öðrum börnum sem var staðsettur fyrir innan bæinn, en það héldu mér engar girðinga, og ég var alltaf kominn niður á bryggju þegar leið á daginn. Þannig að það var ákveðið að senda mig í sveit. Ég átti skyldfólk á bænum Kollugerði sem þá var rétt fyrir ofan Akureyri sem nú er löngu kominn undir íbúðabyggð í Glerárhverfi. Þar bjuggu Sigurður Björnsson frændi minn síðasti ábúandi í Héðinsfirði og móðir hans Anna sem var systir afa. Ég var þar á sumrin sem strákur og fram á unglingsár. Þar lærði ég að vinna ýmiss störf og var þetta góður tími sem ég hefði ekki vilja missa af, enda hafði ég mestan áhuga á því að gerast bóndi þegar þessari vinnumennsku lauk. Í Kollugerði var frændi minn sem hét Sigmundur S. Björnsson og var systursonur Sigurðar. Oftast kallaður Simmi. Hann var svolítið sérstæður, mjóróma og glerharður sjálfstæðismaður. Mætti á flesta ef ekki alla fundi sem sjálfstæðismenn stóðu fyrir. Eitt haustið, ég held ég hafi verið tíu eða ellefu ára þá kom ég heim úr sveitinni gallharður sjálfstæðismaður og afi sem var harður framsóknarmaður spurði einhvern tímann þegar verið var að ræða pólitík við matarborðið hvað hefur eiginlega komið fyrir drenginn um leið og hann stóð upp frá borðinu.“ Sigurður segir að Siglfirðingar hafi sótt talsvert til Akureyrar en sjórinn var eina samgönguleiðin meirihluta ársins. Strandferðabáturinn Drangur sigldi eftir áætlun á milli bæjanna. Ég man líka að ég fór með afa mínum sjóleiðina til Akureyrar. Hann var að fara með bát sem hann átti Sigurð SI 90  ásamt bróður sínum til viðhalds og viðgerða í Slippnum á Akureyri. Vont var í sjóinn. Ég hef eflaust verið sjóveikur því ég man að ég var með hausinn út um brúarglugga á leiðinni. Svona voru samgöngurnar á þeim tíma. Þetta rifjast upp nú í vetrarveðrinu þegar fréttir berast af samgönguleysi og fólk kvartar í þessum gömlu átthögum manns.“

Bauðst að læra rafvirkjun í Eyjum

Frá Siglufirði liggur leiðin til Vestmannaeyja. Hvernig bar það til. „Ég hafði áhuga á að læra rafvirkjun. Ég átti skyldfólk í Eyjum. Þrjár systur pabba bjuggu þar og maður einnar þeirra átti rafmagnsverkstæði sem hét Neisti. Hann vissi af áhuga mínum og bauð mér að koma til sín í nám. Ég tók því fagnandi þótt þetta væri alveg hinu megin á landinu og ekki yrði skroppið á milli um helgar. Og segja má að eftir það varð ekki aftur snúið nema í heimsóknum á sumrum. Ég var í Eyjum þegar gosið reið yfir í janúar 1973. Var nýbyrjaður í Slökkviliði Vestmannaeyja og Björgunarfélaginu sem varð til þess ég var allan tímann út í Eyjum meðan gaus og þegar hreinsun og uppbyggingin hófst. Þetta var lengsta brunaútkall sem ég hef tekið þátt í og stóð það í sex mánuði. Eitt sinn sem oftar þegar ég og vinir mínir úr Eyjum skruppum til höfuðborgarinnar að skemmta okkur var ég svo heppinn að kynnast Ingibjörgu konu minni. Hún var í námi í Kennaraháskólanum og kom svo í æfingakennslu við barnaskólann í Vestmannaeyjum. Við ákváðum að fara að búa saman leigðum, íbúð og hún sló náminu á frest. 

Tveir útvegsbæir

„Það var ekki svo mikill munur á Siglufirði og Vestmannaeyjum,“ heldur Sigurður áfram. „Þetta eru tveir útvegsbæir þar sem lífið snerist um fisk. Munurinn var sá að Siglfirðingar byggðu mikið á síld meðan hún veiddist en bolfiskurinn var og er undirstaðan í Eyjum. Báðir bæirnir voru nokkuð einangraðir. Annar umlukinn sjó, hinn illfærum fjöllum. Svo varð mikið atvinnuleysi á Siglufirði þegar síldin hvarf. Ástand sem Eyjamenn þekkja lítið til. Mesti munurinn var að oftast var snjólaust í Eyjum á meðan allt var á kafi á Siglufirði.“

Vildi vera í nánd við sjóinn 

Um áramótin 1978 til 1979 fluttu Sigurður og Ingibjörg upp á land og hún hélt áfram sínu námi en Sigurður fékk vinnu sem rafvirki hjá góðum manni, Skúla Júlíussyni sem var með verkstæði við Skólabraut sem nú heitir Kirkjubraut á Seltjarnarnesi. „Við Ingibjörg héldum í fyrstu til hjá ömmu hennar í Drápuhlíðinni en fluttum síðan á Eiðistorg 1 árið 1982 í nýbyggt húsnæði. Þar kom tvennt til. Konan hafði fengið stöðu við Mýrarhúsaskóla þar sem hún starfar enn og mig langaði til að komast í nánd við sjóinn sem ég hafði vanist nábýli vð á Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Við stækkuðum svo við okkur og fluttumst aðeins utar á Nesið – á Látraströndina.“

Lofaði ömmu að gerast ekki sjómaður 

Hvarflaði aldrei að Sigurði að gerast sjómaður nánast fæddur á sjávarbakkanum. ,,Jú, eftir gagnfræðapróf fór ég til sjós og var í rúm þrjú ár en ég hafði víst gefið  ömmu það loforð að mér var sagt að gerast ekki sjómaður að atvinnu. Hún hafði misst of marga ættingja í hafið og vildi ekki sjá á eftir fleirum þangað. Hún barðist fyrir öryggismálum sjómanna, var formaður Slysavarnafélags kvenna á Siglufirði árum saman og var gerð að heiðursfélaga í Slysavarnafélagi Íslands. Ég starfaði fyrstu árin eftir að ég kom frá Eyjum sem rafvirki hjá Skúla Júl. og merkilegt, þá var ég aftur kominn með eðal sjálfstæðismann yfir mér. Þegar við fluttum á Seltjarnarnes var ég farinn að starfa í tæknideildinni hjá Hafskip og var það allt til þess að félagið var sett á hausinn.“  

Fékk tilboð um skóla hjá danska sjóhernum 

Hvernig kom til að Sigurður endað hjá Landhelgisgæslunni. „Þannig var að annar af tveimur sprengjusérfræðingum gæslunnar, en við vorum málkunnugir, var á sama tíma á enskunámskeiði og ég hjá Enskuskólanum. Þá barst í tal að þeir væru að leita að manni með sambærilega menntun og ég, rafmagnsfræði, kafari og fannst mér þetta mjög spennandi og sló til. Ég hafði lengi haft áhuga á tækjum og tólum sem tengjast hernaði. Ég hafði lesið mér talsvert til um þetta og nú fékk ég tilboð um að fara í skóla hjá danska sjóhernum, landher og flugher. Ég gat ekki ýtt því frá mér. Við áttum orðið þrjú börn en slógum til. Tókum okkur upp og fluttum til Kaupmannahafnar. Gekk þar í skóla danska sjóhersins sem þá var niður á Holmen við hliðina Kristjaníu. Þetta var var mjög krefjandi nám, bæði bóklegt og verklegt. Kennslan fór fram á dönsku og verklegi hlutinn fór fram um alla Danmörku bæði á sjó og landi. Danskan var svolítið erfið í byrjun. Þótt hún sé skyld okkar tungumáli og auðveld lestrar þá er erfitt að ná danska hreimnum. Ég man að danskur skólafélagi minn spurði mig eitt sinn hvernig mér gengi að skilja kennarann sem var frá Jótlandi. Ég kvað það ekki ganga of vel. Ég trúi því, sagði hann, vegna þess að við skiljum hann ekki heldur. En það hjálpaði mér að flest námsgögnin voru á ensku.“ 

Grunnskólastjóri með Gammel dansk á foreldradegi

Sigurður segir að lífið hjá Dönum hafi verið um margt svipað og við eigum að venjast en annað þó með öðrum hætti. „Dæmi um það var að ekki mátti fara með kaffi inn í kennslustofurnar. Kaffið gæti sett blett í námsbækurnar en allt í lagi að taka bjór með. Bjórinn var þeim nánast heilagur. Annað sem ég minnist frá þessum tíma var að eldri dóttir okkar var í skóla á Friðriksbergi. Eitt sinn var hátíð í skólanum á 100 ár afmæli og var haldið uppá það á laugardegi og foreldrum boðið. Skólastjórinn var með Gammel dansk og bauð öllum staup. Það er sem ég sæi þetta gerast hér heima.“

Tundurduflabelti í Atlantshafi

Hvað tók svo við hér heima. „Eftir heimkomuna samhliða sprengju-starfinu vann ég sem rafvirki og ýmis störf hjá gæslunni. Ég starfaði mest í landi þegar skipin voru í höfn. Þurfti lítið að fara með þeim út á sjó þótt það gerðist stöku sinnum. Um þetta leyti voru að koma fyrstu tölvurnar og hafði ég eftir meistaranám í rafvirkjun tekið nokkur námskeið í tölvustýringum, þannig að í mörg ár sá ég um tölvukerfi gæslunnar ásamt öðrum, bæði í skipum, loftförum og stjórnstöð allt til ársins 2007 að ég snéri mér alfarið að stýra sprengjudeild og síðan séraðgerðasviði undir það heyrir einnig köfunarsvið.“

Sigurður að störfum. Tundurdufl gert óvirkt um borð í togara. Hann er fyrir miðju en félagar hans Marvin til vinstri og Ásgeir til hægri. 

Mikið af duflum og sprengjum í kringum landið

„Þótt Ísland sé ekki hernaðarland þá var það hernumið á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hér voru um 50 þúsund hermenn þegar flest var. Á þeim tíma var lagt út miklum fjölda tundurdufla hér við land. Bretar reyndu að loka siglingaleiðinni út á Atlantshaf með því að koma fyrir tundurduflabeltum milli Íslands og Skotlands og milli Íslands og Grænlands. Þessi dufl gátu ýmist sprungið við það að skip rækist utan í þau, skynjun á röskun segulsviðs þegar skip siglir fram hjá eða sprungu vegna hávaða frá skrúfu skipsins. Þau voru sérstaklega ætluð til að granda kafbátum. Bretar lögðu einnig tundurduflum í nokkra firði hérlendis, Hvalfjörð, Eyjafjörð og Seyðisfjörð. Þessi dufl voru sprengd með stýringu úr landi ef grunur var um kafbát í grenndinni. Þjóðverjar lögðu einnig tundurduflum við landið. Þau voru flutt með sérbúnum kafbátum. Slíkir bátar komu þrisvar hingað og voru með 66 dufl í hverri ferð. Þessum duflum var lagt í Faxaflóa, undan Garðskaga, undan Látrabjargi og út af Austurfjörðum.“

Komast yfir gögn í Danmörku

Sigurður segir að í stríðinu hafi það verið eitt af meginverkefnum Landhelgisgæslunnar að skjóta á dufl sem voru á reki og sprengja þau þannig eða að sökkva þeim. Síðan voru þjálfaðir valdir menn víða um landið til að gera sprengjubúnað þeirra  óvirkan þar sem þau hafi rekið á fjörur eða komið í veiðarfæri fiskiskipa. Tundurdufl eru enn að koma upp þótt þeim hafi fækkað verulega eftir því sem lengra hefur liðið. „Þegar ég var í námi í Danmörku komst ég yfir gögn í skjalasafni danska sjóhersins sem sýndu hvar Þjóðverjar höfðu lagt tundurduflum en þeir lögðu ekki girðingar á sama hátt og Bretar. Ég fékk að afrita þessi gögn og kom með þau heim. Við gátum því kortlagt þessar lagnir en við höfum áður upplýsingar um bresku girðingarnar. Nú eru þessar girðingar löngu slitnaðar niður en stöku dufl eru enn að koma í veiðarfæri skipa. Þetta á líka við um djúpsprengjur, flugvélasprengjur og tundurskeyti sem ekki hafa sprungið og misst marks.“  Sigurður segir að sprengjudeildin sinni líka verkefnum á landi. Þar sem hættulegra hluta verði vart. „Það er sem betur fer ekki mikið um sprengjugerð í heimahúsum hér á landi. Eitthvað hefur þó verið um að strákar hafi verið að búa til rörasprengjur, sem er lífshættuleg iðja. Einnig sjáum við um þjálfun áhafna í valdbeiting, skyndihjálp, þrekþjálfun og köfun. Landhelgisgæslan er lögregla á sjó.“ 

Gömul hergögn verða ekki hættuminni 

Sigurður segir það misskilning að þessi gömlu hergögn verði hættuminni eða hættulaus með tímanum. „Þvert á móti verði þau oft mun hættulegri. Sprengiefnið verður viðkvæmara og öryggisbúnaður þeirra er oft illa farinn eða ónýtur. Þannig að sprengjan getur sprungið fyrir annan og minni tilverknað heldur en upphaflega var gert ráð fyrir. Sprengjudeildin annast einnig um athuganir á grunsamlegum hlutum sem reka á fjörur og kom í veiðarfæri og ekki er vitað hvaðan þeir koma eða um virkni þeirra. Það er oftast töluverð vinna að finna upplýsingar um þessa hluti. Gæslan var með samning við setuliðið síðustu 10 árin sem þeir voru hér og vorum við einnig þeirra sprengjusérfræðingar. Sprengjudeildin er mjög vel búin tækjum og starfsmenn hennar hafa hlotið þjálfun eftir stöðlum NATO í skólum danskra og breskra hernaðaryfirvalda sem stöðugt er haldið við með æfingum og endurþjálfun. Á undanförnum árum hafa verkefni deildarinnar verið frá 70 til 100 á ári.“

Bólusettu kindur fyrir Jónas bónda í Æðey

Ég man sérstaklega eftir einu skemmtilegu. Eitt sinn hafði samband við okkur Jónas nokkur sem var með búskap í Æðey í Ísafjarðardjúpi. Hann sagðist vera með gamalt dínamít út í eyju sem hann þyrfti að losna við, hvort við gætu hjálpað honum með það. Við skoðun kom í ljós að þyrla frá okkur væri að fara vestur á Straumnesfjall með viðgerðarmenn en þar er gæslan og 112 með fjarskiptabúnað.

Við fórum tveir sprengju-sérfræðinga og Jónas með þyrlunni en hann hafði verið staddur í Reykjavík. Við vorum fljótir að koma þessu dínamíti fyrir kattarnef og þá beið okkar veisla heim á bæ, ný steiktur kjúklingur með öllu. Eftir matinn spurði Jónas hvort við gætum ekki aðstoðað hann við lítilræði þar sem ráðsmaðurinn væri veikur og hefði farið til læknis. Já, sögðum við þar sem við vissum að það væri töluverð bið á að þyrlan kæmi til baka, spurðum við hvað verkið væri. Jú, það þarf að bólusetja kindurnar. Við fórum með honum í fjárhúsin. Þegar þangað var komið þá tókum við andköf svo megn var lyktin. Greinileg hafði ekki hafði verið stungið út úr húsinu lengi. Hann kenndi okkur handbrögðin við bólusetninguna og við óðum síðan skítinn upp í ökkla. Þegar við vorum nánast búnir þá heyrum við að þyrlan er að koma. Við kvöddum og hlupum út. Þyrlan rétt tyllti sér niður. Hurðin opnaðist og við stukkum um borð og skellt var á eftir okkur, síðan var rekið upp skaðræðisöskur og lá við að vélinni yrði nauðlent. Hurðin rifin upp og spurt, hvern andskotann voru þið að gera. Við vorum með skítinn undir skónum og lyktuðum eins og fjárhúsið.“ Hér verður að láta staðar numið en ljóst að Sigurður býr yfir hafsjó af fróðleik úr margbreytilegu starfi sínu hjá Landhelgisgæslunni.  

You may also like...