Hvað vilja Breiðhyltingar gera í sínu hverfi?
Íbúar í Breiðholti sendu inn fjölmargar góðar hugmyndir í hugmyndasöfnunina Betri hverfi 2015 sem haldin var sl. haust.
Nú hefur fagteymi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar ásamt hverfisráði Breiðholts farið yfir allar hugmyndirnar og stillt upp verkefnalista fyrir Betri hverfi 2015 sem kosið verður um í árlegum hverfiskosningum sem haldnar verða rafrænt dagana 17. til 24. febrúar. Í Breiðholtinu verður kosið á milli 20 góðra hugmynda. Reykjavíkurborg hvetur íbúa til að kynna sér verkefnin og taka þátt í kosningunum. Á undanförnum árum hafa íbúar í Breiðholti kosið fjölmörg góð verkefni sem hafa verið framkvæmd og hafa fegrað og bætt hverfið. Notast verður við rafræn skilríki og Íslykil til auðkenningar í kosningunum. Þau verkefni sem kosið verður um eru uppbygging opinna svæða í Seljahverfi og lagfæring á völdum stígum og opnum svæðum í hverfinu sem gert er ráð fyrir að muni kosta um 10 milljónir króna. Fjarlægja möl og setja gúmmímottur í staðinn á völdum opnum leiksvæðum í Breiðholti. Kostnaður við það er einnig áætlaður um 10 milljónir króna. Fjölgun ruslatunna í Breiðholti sem kosta mun um eina milljón króna. Gera almennilega við stíginn á milli Fella og Hólahverfis framhjá Gerðubergi sem kosta mun um eina milljón króna. Að uppfæra andapollinn í Seljahverfi, setja upp bekki og borð og fegra svæðið upp á um 2,5 milljónir króna. Lagfæring á fót- og körfuboltavelli í Bökkunum sem kosta mun um sex milljónir króna. Gera umhverfi Mjóddarinnar snyrtilegra. Kostnaður við það er áætlaður um þrjár milljónir króna. Koma upp hjólagrindum við leikvelli og bæta aðstöðu hjólreiðafólks við vellina upp á um eina milljón króna. Laga krappa beygju á göngustíg á horni Núpabakka og Arnarbakka sem talin er kosta um 500 þúsund krónur. Setja upp frísbígolfvöll í dalnum fyrir neðan Ölduselsskóla. Kostnaður við það er áætlaður um 3,5 milljónir króna. Gera gangstétt á Álfabakka frá Stekkjarbaka meðfram Olís Álfabakka upp á um fjórar milljónir króna. Koma upp hjólabrettaramp vestan við Írabakka 34 upp á um sex milljónir króna. Gera gangbraut meðfram Blöndubakka að Arnarbakka. Kostnaður við það yrði um 5.5 milljónir króna. Setja upp ungbarnarólur á valda leikvelli í Breiðholti fyrir um eina milljón króna. Breyta göngustíg frá Fella og Hólakirkju í átt að inngangi að Gerðubergi fyrir um þrjár milljónir króna. Ganga frá lóðinni við Hólaberg 84 upp á um eina milljón króna. Setja upp nestisborð og bekki á opna leiksvæðinu við Tungusel 10 fyrir um fjórar milljónir króna. Setja upp skilti við upphaf gönguleiða við skóglendið í Norðurenda Breiðholts fyrir um eina milljón króna. Gróðursetja stofntré á milli bílastæða og götu við Skógarsel til móts við Strandasel. Kostnaður fyrir um eina milljón króna og koma upp minigolfvelli í stað körfuboltavallar við Blöndubakka, miðsvæðis í Bökkunum fyrir um fimm milljónir króna. Alls kosta hugmyndirnar sem stillt hefur verið upp í Breiðholti 70 milljónir króna. Fjárheimild hverfisins er hins vegar 46,4 milljónir og geta íbúar kosið verkefni á listanum upp að þeirri tölu.