Dæmi um 50% hækkun íbúðaverðs í Vesturbænum

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Góð sala hefur verið í nýbyggingu við Mýrargötuna og eru í dag innan við 10 íbúðir eftir af 66 íbúðum í því húsi.

Íbúðaverð í Vesturbænum hefur hækkað mikið á undanförnum árum og eru dæmi um allt að 50% hækkun á síðustu árum.

Mest hækkun hefur verið á minni eignum en þó hafa sérbýlin einnig hækkað þó nokkuð meira en sérbýli í öðrum hverfum.Vinsælustu göturnar í Vestubænum eru Ægisíðan, Starhaginn, Kvisthaginn og Tómasarhaginn. En annars eru Melar og Hagar almennt mjög vinsælir á meðal íbúðakaupenda.

Ólafur Finnbogason sölufulltrúi hjá fasteignasölunni Mikluborg segir að fermetraverð sé mjög teygjanlegt eftir staðsetningu, stærð, aldri og hvort um er að ræða fjölbýli, hæð eða sérbýli. Fermetraverð sé mjög hátt í Vesturbænum og það hæsta á landinu ásamt Miðbæ Reykjavíkur. Hann segir góða sölu á því litla sem í boði sé en ekki hafi verið byggðar neinar nýjar íbúðir í Vesturbænum í meira en 10 ár fyrir utan eitt og eitt lítið fjölbýli eins og við Grenimel. Góð sala hefur verið í nýbyggingu við Mýrargötuna og eru í dag innan við 10 íbúðir eftir af 66 íbúðum í því húsi. Einnig seldist Skerjabraut 1 til 3 á Seltjarnarnesi nánast upp áður en tókst að byrja að byggja hana og eiga byggingaraðilarnir þar eina íbúð eftir en þó hafa nokkrar komið í endursölu vegna breytinga hjá eigendum. Ef litið er til Sel-tjarnarness segir Ólafur að á Hrólfsskálamel 10 til 18 séu allar íbúðir á efstu hæð seldar, þrjár eftir á 2. hæð og eitthvað meira á þeirri fyrstu. Þá verði áhugavert að fylgjast með gangi mála þegar Lýsisreiturinn fer í sölu sem verður líklega í lok þessa árs. „Ef mér skjátlast ekki er það fyrsta nýbyggingin í póstnúmeri 107 frá því Boðagrandi 2 var byggður árið 2000,“ segir Ólafur. Ljóst er að eftirspurn er langt umfram framboð á íbúðarhúsnæði í Vesturbæ Reykjavíkur og fátt virðist geta breytt því annað en frekari byggingar. Þær eru þó ekki í sjónmáli þar sem lítið byggingarland er eftir. Gert er ráð fyrir að Búseti byggi íbúðir á svokölluðum SÍF reit við Keilugranda 1 og hefur verið gert ráð fyrir 70 íbúðum á því svæði auk aðstöðu fyrir KR.

You may also like...