Heimkynni mín eru í Breiðholti

Nichole Leigh Mosty. Myndin er tekin fyrir framan blómabúð í Mjóddinni.

Nichole Leigh Mosty er mörgum Breiðhyltingum kunn. Hún starfaði lengi sem leikskólastjóri á Ösp í Breiðholti og hefur starfað fyrir Þjónustumiðstöð Breiðholts þar sem hún hefur einkum sinnt málefnum nýbúa. Hún átti einnig sæti á Alþingi um tíma fyrir flokkinn Bjarta framtíð. Nichole er sjálf nýbúi ef nota má það orð. Hún er fædd í Sturgis í Michigan í Bandaríkjunum fyrir tæpri hálfri öld en flutti til Íslands 1999 og stundaði eftir það nám í kennslufræðum við Háskóla Íslands. Hún ákvað að setjast hér endanlega að fjórum árum síðar en þá var Breiðholt orðið fyrir valinu til búsetu. 

Hún hafði einu sinni komið til Íslands með íslenskum eiginmanni sínum sem hún hafði kynnst er hann var við nám vestra. „Mér leist vel á mig. En þegar við vorum flutt og farin að búa hér þá horfði þetta allt öðruvísi við mér. Þetta var ef til vill ekki eins fallegt og skemmtilegt og ég hafi heillast af í stuttri heimsókn. Ég var ekki lengur ferðamaður heldur innflytjandi. Ég kunni ekki tungumálið. Þess vegna voru flestar leiðir lokaðar. Ég ætlaði mér alls ekki að vera lengi og um tíma vorum við að hugsa um að flytja til Bretlands.“ Af því varð þó ekki. Nichole tókst á við krefjandi aðstæður. Lærði tungumálið og lauk háskólanámi.

Veitir fjölmenningarsetri Íslands forstöðu

En hvar er Nichole í dag. Hún veitir Fjölmenningarsetrninu (MCC) forstöðu. Starfsemi þess nær yfir allt Ísland og hún er með aðsetur á Ísafirði. „Ég fór ein vestur en fjölskyldan er hér enda föst við nám og störf. Ég er því mikið á ferðinni bæði vegna hennar og einnig vinnunnar.  Markmið fjölmenningar- og upplýsingamiðstöðvarinnar er að gera öllum einstaklingum kleift að verða virkur meðlimur í íslensku samfélagi sama hver bakgrunnurinn er eða hvaðan hann kemur. Nichole segir að verkefnin séu næg. Bæði við að byggja stofnunina upp og einnig að takast á við að hún geti rækt hlutverk sitt. Mikilvægt sé að standa vel við bakið á fólki sem kemur hingað til lands til þess að hefja búsetu og taka þátt í atvinnulífinu. Stuðningur skili sér jafnan í störfum þess á vinnumarkaði og einnig á þjóðfélagslegu sviði. Fólk komi vissulega með misjafnan bakgrunn. Frá ólíkum menningarsvæðum og með ólíka menntun og lífsreynslu. Mikilvægt sé að byggja brú á milli fyrra lífs þess og þess nýja og finna flöt á að fólk þurfi ekki að skilja við uppruna sinn og menningu þótt það tileinki sér nýja í öðrum heimkynnum.   

Mikilvægt að ráða fólk af erlendum uppruna í stjórnunarstöður

Nichole segir miklu skipta bæði fyrir Íslendinga og útlendinga búsetta hér á landi að fólk af erlendum uppruna sé ráðið í stjórnunarstöður en ráðning hennar til Fjömenningarsetursins er í annað skiptið sem kona af erlendum uppruna er ráðin til að stjórna opinberri stofnun hér á landi. Sú fyrsta hafi verið Theresa Guðmundsson Veðurstofustjóri. Nichole segir að um 14% af landsmönnum eigi sé erlendan uppruna. Verkefnin séu ærin: „Það þarf að bæta upplýsingaflæði bæði til innflytjenda og ekki síður til landsmanna um málefni þess fólks sem flyst hingað til lands. Reyna að vinna í því að upplýsa fólk hver staðan er meðal okkar sem búum á Íslandi sem erum af öðrum uppruna. Í störfum mínum í Beiðholtinu hef ég tekið þátt í þessu starfi og nýt reynslu þaðan. Í Breiðholti er eitt stærsta fjölmenningarsamfélag á landinu.“ En er Nichole horfin úr Breiðholtinu. „Nei alls ekki. Ég er á þeytingi meðan ég sinni þessu starfi en Breiðholtið er og verður byggðin mín. Þegar ég ákvað að setjast að hér á landi ákvað ég að verða einnig Breiðholtsbúi. Ég sé ekki eftir því. Nei – ég er ekki á förum frá Breiðholtinu. Þar eru heimkynni mín í dag.“

You may also like...