Mikil uppbygging í Vesturbænum á næstunni

… stærsta hagvaxtarsvæðið er í Reykjavík, segir borgarstjóri.

Reykjavik 1 1

Frá morgunfundi borgarstjóra. Á meðal þeirra sem sjá má á myndinni eru borgarfulltrúarnir Elsa Hrafnhildur Yoeman og Sóley Tómasdóttir.

Fimm stjörnu hótel á Hörpureitnum, allt að 21.400 fermetra íbúða og skrifstofuhúsnæði austan Tollstöðvarinnar, uppbygging við Vesturbugt, á Héðinsreit og gamla SÍF reitnum við Eiðsgranda að ógleymdu þekkingarþorpi í Vatnsmýrinni eru á meðal þess sem rísa mun í og við Vesturbæinn á næstunni.

Þetta kom m.a. fram á opnum morgunfundi Dags B. Eggertssonar sem efnt var til í Tjarnardal Ráðhúss Reykjavíkur fyrir skömmu. Framkvæmdirnar í og við Vesturbæinn eru annars bara brot af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Reykjavík á næstunni. Dagur fór yfir hinar ýmsu fyrirætlanir á fundinum og sagði að Reykjavík væri stærsta hagvaxtarsvæði á landinu. Fram undan væri mikil fjárfesting, bæði erlend og innlend er í Reykjavík „Á þessum fundi er ætlunin að borgarbúar, fagaðilar og aðrir fái yfirsýn yfir það sem fram undan er í fjárfestingu í borginni,“ sagði borgarstjóri sem fór vítt og breitt yfir svið framkvæmda og uppbyggingar í borginni með vandaðri glærusýningu. Dagur hóf mál sitt á því að fara yfir ferðamannaiðnaðinn og hóteluppbyggingu í Reykjavík en á þessu ári er áætlað að um 800 hótelherbergi verði tekin í notkun í Reykjavík. Þá tilkynnti hann um nýtt fimm stjörnu hótel sem samningar hafa tekist um á Hörpureitnum en framkvæmdir við það hefjast í haust. Borgarstjóri fór yfir uppbyggingaráform Landspítalans og þekkingarþorp í Vatnsmýrinni, samstarf háskólanna og Reykjavíkurborgar um víðtæka uppbyggingu háskólanna, þekkingarfyrirtækja og samtaka stúdenta. Hann lýsti einnig áformum um uppbyggingu á vegum borgarinnar, einkaaðila og fleiri á nýjum uppbyggingarreitum í Vesturbugt, Kirkjusandi og við Hlemm. Að lokum fór Dagur yfir fjárfestingar á vegum borgarinnar en þær verða miklar eins og undanfarin ár eða um 8,5 milljarðar króna. Þá hefur einnig komið fram að um 24% fjárfestinga Reykjavíkurborgar eru grænar. Það kemur fram í skýrslu starfshóps um grænt hagkerfi í Reykjavík var kynnt á síðasta fundi borgarráðs. Í henni kemur fram að flokka má 24% af fjárfestingum borgarinnar sem grænar og að um 2,5% af öllu vinnuafli á höfuðborgarsvæðinu sé í grænum atvinnugreinum.

You may also like...