Hyggur á nám í verkfræði eða öðrum raunvísindum

Birta Björk með bókaverðlaun sem hún laut. Þarna má m.a. sjá bækurnar Lífríki Íslands og Vísindin nokkuð sem kitlað getur áhugasvið raunvísinda.

Birta Björk Atladóttir dúxaði – hlaut hæstu einkunn 9,08 á stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti að lokinni haustönn 2017. Hún kveðst í spjalli við Breiðholtsblaðið ekki hafa stefnt að þessu. Aðeins reynt að vinna samviskusamlega mæta í tíma og sinna námsefninu. Hún stefnir á háskólanám á komandi hausti og þá helst í verkfræði eð öðrum raungreinum. Hún kveðst alltaf hafa verið góð í stærðfræði og öðrum raungreinum og áhuginn standi til náms á því sviði.

Birta Björk nam ekki allan framhaldsskólaferilinn í FB. Hún bjó um tíma í Bandaríkjunum og stundaði framhaldsnám þar. “Ég byrjaði í Kvennaskólanum og lenti þar í gamla kerfinu eða fjögurra ára kerfinu. Svo flutti ég um tíma vestur um haf þar sem móðir mín og systkini búa og var í tvö og hálft ár í skóla þar.” Hún segir að nám við college school í Bandaríkjunum sé með nokkuð öðrum hætti en við framhaldsskólana hér heima. “Flest er frjálslegra hér og svo er mikill menningarmunur á því umhverfi þar sem ég dvaldi í Georgiu. Þetta er mjög sunnarlega. Georgia er næsta ríki norður af Flórída og kristni er víða í hávegum höfð. Þarna er mun meira um sterka guðstrú en við eigum að venjast. Við getum kannski sagt í gamni að menn trúi á guð og pallbílinn. Forgangsmátinn er annar. En þrátt fyrir þetta þá er fólk almennt mjög opið og indælt og þægilegt í umgengni. Ég hef hins vegar ekki áhuga á að fara til Bandaríkjanna til þess að stunda háskólanám. Ég er búin að kynnast lífinu vestra og myndi frekar hafa áhuga á að fara til Evrópu til framhaldsnáms eftir nám hér heima. Háskólinn í Reykjavík er efstur á blaði hjá mér sem stendur hver sem niðurstaðan verður.”

Með flóttabörnum frá Asíu

Birta Björk var í hóp nemanda FB sem fór til Grikklands á liðnu ári en förin var liður í þátttöku skólans í Erasmusverkefni. “Já – við vorum þarna frá nokkrum löndum að vinna að málefnum flóttafólks. Þarna var hópur af flóttamönnum sem kom og var með okkur og þau deildu reynslu sinni. Þetta voru krakkar frá Íran og Afganistan sem höfðu ferðast ein, án foreldra og voru í flóttamannabúðum í Grikklandi. Þarna kynntist maður fólki frá mismunandi löndum og fékk mismunandi sjónarhorn á þann vanda sem þarna er við að etja. Þarna var fólk frá allt öðrum menningarheimum og hugsar á allt annan hátt en við og svo bætast við ýmis áföll sem það hefur orðið fyrir. Sum voru búinn að ganga jafnvel vikum saman á flótta sínum.” Birta Björk segir að þokkalega hafi verið hugsað um krakkana í þessum búðum. Sum þeirra hafi átt foreldra á lifi eða fjölskyldur í heimalandinu en um ættingja annarra hafi ekkert verið vitað. Birta Björt segir einnig að tungumálaerfiðleikar hafi valdið því að erfitt hafi geta reynst að komast í nægilega gott samband við þau. Sum hafi þó talað einhverja ensku. “En það var gaman að sjá hversu þessi hópur var samrýmdur og smám saman urðu þau viljugri að opna sig. En þetta var mikil reynsla og ég gæti vel hugsað mér að fara aftur í svona verkefni ef það yrði í boði. Maður tapar aldrei á lífsreynslu af þessu tagi.”

You may also like...