Þar sem ljósapera getur bjargað barnslífum

Regína Bjarna 2

Regína Bjarnadóttir þróunarhagfræðingur.

Regína Bjarnadóttir þróunarhagfræðingur hefur starfað sem forstöðumaður greiningardeildar Arion banka frá því í árslok 2013 en er nú að taka að sér nýtt starf sem framkvæmdastjóri þróunarverkefna fyrir Aurora velgerðarsjóðinn sem stofnaður var árið 2007.

Hún er ekki ókunn þróunarmálum. Hún hefur áður starfað að þeim sem verkefnastjóri hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Guyana í Suður Ameríku. Regína er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi og Nesfréttir hittu hana að máli á dögunum. „Ég er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi og framan af ævinni átti ég heima á Marbakka sem var sunnan á Nesinu vestan við bæjarmörkin að Reykjavík. Nú er búið að rífa það hús að ég best veit en þegar við fluttumst þaðan 1981 fór fjölskyldan á Barðaströndina þar sem ég bjó þar til ég fór að heiman. Í minningunni er tíminn á Nesinu frábær. Það var gott að alast þar upp. Á Marbakka var sjórinn á næsta leyti og reyndar ekki ýkja langt undan á Barðaströndinni. Viðbrigðin voru þannig ekki mikil – rokið var svipað þegar hvessti. Barðaströndin var fullbyggð þegar við komum þangað en það var stutt að fara upp í holtið og finna sér leik- og útiverusvæði. Krakkar höfðu mikið frelsi til útiveru og við nýttum okkur það vel. Þarna fór saman öruggt umhverfi, fjöldi krakka, jafnan var auðvelt að finna sér leiksvæði frá náttúrunnar hendi og útivistartíminn gat verið nokkuð rúmur. Síðar þegar við vorum orðin stærri héldum við jafnaldrarnir talsvert hópinn fórum stundum nær öll – allur bekkurinn úr Való saman í bíó á föstudagskvöldum.“

Eins og að búa í litlu þorpi

Regína segir að búa á Seltjarnarnesi hafi verið eins og að búa í litlu þorpi. „Mikil samheldni var ríkjandi á meðal okkar krakkanna og ég held fólksins á Nesinu svona almennt. Tilfinningin fyrir því að vera partur af heild var sterk. Maður er alltaf að hitta fólk af Nesinu og stundum er eins og það hafi verið miklu fjölmennara en það var. Nesbúar voru svo víða. Ég finn einnig í gegnum samskiptamiðla eins og facebook að fólk er í miklu sambandi hvort sem það býr enn út á Nesi eða annars staðar. Ég held að þetta byggist að einhverju leyti á því að allir ganga í sama skóla og eru saman í íþróttum og tómstundastarfi.“

Fór í MH

„Skólagangan byrjaði í Skóla Ísaks Jónssonar þar sem ég var í fjóra vetur en eftir það fór ég hina hefðbundnu leið í Mýró og síðan í Való. Það var miklu hentugra því nálægðin er svo mikil á Nesinu að maður skokkaði bara á milli staða. Amma mín bjó í íbúðum fyrir eldra fólk sem eru á milli Mýró og Való þannig að ég var mikið hjá henni. Foreldrar mínir unnu bæði utan heimilis og því var enginn heima á daginn. Þá var gott að geta farið til ömmu. Ég spilaði líka handbolta með Gróttu og lærði um tíma á píanó. Þetta var allt á sama stað. Nei – ég fór ekki í MR eins og margir af Seltjarnarnesi heldur fór ég í MH. Fannst ég þurfa að gera þetta eitthvað öðruvísi. Við vorum fjórar úr árganginum mínum af Nesinu sem fórum í MH og við biðum í eina önn til þess að komast í Hamrahlíðina því MR var hverfisskólinn fyrir Seltjarnarnes rétt eins og Vesturbæinn í Reykjavík. Ég lauk við MH og fór þá í hagfræðina. Þetta var þó ekki alveg samfellt hjá mér því ég því ég tók mér frí og fór til Indlands í eitt ár. Ég hafði farið þangað í útskriftarferð. Leist vel á mig og langaði að kynnast landi og þjóð betur. Ég fór líka til Parísar í eitt ár – til þess að læra frönsku við Sorbonne en svo endaði ég í London þar sem ég lagði stund á þróunarhagfræði. Ég get ekki svarað því hvaðan þessi áhugi minn á fátækum þjóðum kemur í grunninn, en ég man eftir að hafa hugsað töluvert út í stöðuna í Afríku þegar hungursneyðar dundu þar á þegar ég var í barnaskóla og rætt þetta við hana ömmu mína. En ég hafði gaman af náminu og hef þróað með mér einhverskonar útþrá í þessa átt.“

Hagkerfi vanþróaðra landa

Regína segir að þróunarhagfræðin snúist einkum um hagkerfi vanþróaðra landa. Hvernig þau virki með það fyrir augum að hægt sé að þróa þau áfram til meiri vaxtar og betri lífskjara fyrir íbúa þeirra. „Ég lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og meistaragráðu í þróunarhagfræði frá School of Oriental and African Studies árið 2000. Á árunum 2005 til 2007 starfaði ég við verkefnastjórn-un hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Georgetown í Guyana á austurströnd Suður Ameríku og frá 2001 til 2005 hjá CRU Analysis og CRU Strategies í Lundúnum á Englandi sem hagfræðiráðgjafi á álsviði og síðar sem hagfræðisérfræðingur í orkumálum. Mannlífið í þessum löndum sem stundum eru kennd við þróun er oft um margt með öðrum hætti en við eigum að venjast. Í Guyana voru til dæmis ekki framleiddar neinar mjólkurvörur og því ekki til annað en G-mjólk í búðum. Eitt kaffihús var í borginni en engin bíó eða leikhús. Samfélagið líður fyrir að landið byggðist upp af nokkrum – einkum þremur þjóðarbrotum. Afkomendum þræla og þegar þrælahaldið var afnumið kom vinnuafl frá Indlandi og síðan eru frumbyggjarnir eða indíánarnir. Þessir hópar passa ekki alveg saman menningarlega séð og eiga í ýmsum erjum. Menntun er líka af skornum skammti. Fólk er þó almenn læst og háskóli er starfræktur í höfuðborginni. Flestir búa með fram strandlengjunni og starfa við hrísgrjóna- og sykurrækt og þarna fékk ég bestu ávexti sem ég hef smakkað. En fátæktin er mikil og margir bíða eftir tækifæri til þess að komast í burtu.

Að gera heiminn svolítið betri

Eftir heimkomuna fór ég til Seðlabanka Íslands þar sem ég starfaði einkum við greiningu á greiðslujöfnuði og erlendri skulda-stöðu þjóðarbúsins um sex ára skeið en að undanförnu hef ég veitt greiningardeild Arion banka forstöðu.“ En þróunarhagfræðin togar í og nú er Regína að láta af störfum hjá Arion banka og farin að hugsa til heitari landa á ný – að þessu sinni til Sierra Leone á vesturströnd Afríku. „Eftir hrunið varð mikil breyting hér á landi og við vorum sjálf allt í einu komin í þá stöðu að þurfa á erlendri aðstoð að halda. En ég ætlaði mér þó ekki að festast í efnahagsmálunum hér heima þótt þessi breyting yrði og hið raunverulega þróunarstarf togar í mann. Það stendur mun nær því sem ég hef stúderað og þörfin er líka mikil fyrir svona starf. Kannski tekst manni að gera heiminn örlítið betri,“ segir Regína.

Regína Bjarna kvöldmatur

Regína ásamt Elínu Kötlu dóttir sinni þar sem þær erum að borða kvöldmat í Hinduamusteri þar sem borðað var af liljublöðum.

 

Ekki að flytja til Afríku

„Nei – ég er þó ekki að flytjast búferlum til Afríku. Ég ætla að sinna þessu verkefni héðan að heiman eins og ég get en neita þó ekki að um margt væri þægilegra að búa t.d. í London einkum með tilliti til ferðalaga. En talandi um erlenda búsetu þá getur hún verið þroskandi fyrir fólk og ekki síður fyrir börn. Elsta dóttir okkar var með okkur í Guyana og á sínar minningar þaðan.“ Aðspurð kveðst Regína ekkert hafa skrifað frá þessum ferðalögum sínum og starfi á meðal framandi þjóða og reynslu af þeim. „Það er frekar að maðurinn minn sem er heimspekingur taki sér ritfæri í hönd. Hann hefur gaman af því að skrifa og dóttir okkar einnig. Hver veit hvað þau eiga eftir að segja frá þessu en ég hef haldið mig meira við Excelinn en ritvinnsluna.“

Þar sem ljósapera getur bjargað barnslífum

Talið berst aftur að Guyana og Regína segir landið eitt af fátækari ríkjum heims. Því hafi verið um áhugavert en einnig krefjandi verkefni að ræða. Hún segir að verkefni sitt hafi einkum verið að aðstoða við að byggja upp hagstofu landsins og einnig hafi hún unnið að verkefnum sem miðuðu að kynna raforku í indíánaþorpunum, bæði sólarorku og litlar vatnsfalls virkjanir. „Það er þó nokkuð um straumharðar ár og vatnsföll í Guyana og með því að virkja vatnsaflið er hægt að rafvæða sum indíanaþorp, þó yfirleitt sé það ekki nema til þess að bæta lýsinguna. Alla vega að ljósaperuvæða þorpin ef við getum orðað það svo. Landið er rétt norðan við miðbaug jarðar sem þýðir að þar er myrkur hálfan sólarhringinn allt árið um kring og það er því mikið heilbrigðismál fyrir íbúana ef hægt er að raflýsa helstu byggðir að einhverju leyti. Börn fæðast bæði á nóttu og degi og enn fara margar fæðingar í landinu fram í myrkri og við getum rétt ímyndað okkur hvernig er að fást við fæðingaraðstoð við þau skilyrði. Því getur ein ljósapera bjargað mörgum barnslífum. Því er ekki til lítils unnið.“

Fæðingarheimili í Sierra Leone

Regína segir að verkefnin í Sierra Leone verði af öðrum meiði. Eitt af stóru verkefnunum mínum þar verður að koma á fót nýju fæðingar-heimili, en mæðradauði og ungbarnadauði er einn sá mesti í heimi í Sierra Leone. Ein af hverri 21 barns-hafandi konu deyr af barnsförum. Nei – ég hef aldrei komið til Sierra Leone en mér skilst að þetta sé fallegt land. Mannlífið þar hefur hins vegar þurft að þola margvís-lega erfiðleika. Fyrir utan fátæktina hefur landið bæði farið í gegnum styrjöld og ebólufaraldur sem mér skilst að búið sé að ná tökum á. Ef ég á að horfa inn í framtíðina þá eru þetta draumaviðfangsefni mín og ég geri ekki ráð fyrir að snúa af þessari braut á ný. Ég ætla að vera hér en vinna við að tengja þessa tvo ólíku heima. Veiti börnunum mínum frelsi til þess að alast upp hér á landi en hafa einnig þessa tengingu út til þess sem stundum eru kölluð þróunarlönd eða þriðji heimurinn.“

You may also like...