Bretar byggðu Reykjavíkurflugvöll

— hugmyndir um Vatnsmýrina ná þó lengra aftur í tímann —

Algeng sjón á Reykjavíkurflugvelli til margra ára. Ein af Fokker F 27 vélum Flugfélags Íslands en Fokker fyrst F 27 og síðar 50 vélarnar þjónuðu innanlandsflugi í áratugi. 
Mynd Isavia.

Reykjavíkurflugvöllur tilvera hans og framtíð í Vatnsmýrinni hafa verið mikið til umræðu allt frá því að borgaryfirvöld ákváðu að flugstarfsemi í Vatnsmýrinni yrði hætt innan tiltekins tíma og landið tekið til annarra. Saga Reykjavíkurflugvallar nær aftur til ársins 1939 að Bretar hernámu Ísland í upphafi heimstyrjandarinnar 1939 til 1945. Umræður um Vatnsmýrina ná þó um tveimur áratugum lengra aftur í tímann. Íslendingar höfðu meðal annars horft til þessa svæðis til flugstarfsemi, en ekki haft bolmagn til þess að hefja neinar umtalsverðar framkvæmdir hvorki þar né annars staðar. Hér er farið stuttlega yfir aðdraganda Reykjavíkurflugvallar.

Upphaf Reykjavíkurflugvallar má rekja til haustsins 1918 er áhugamenn um flug hófu undirbúning að flugrekstri. Í mars árið eftir var fyrsta flugfélagið með nafni Flugfélags Íslands stofnað. Um vorið 1919 gerðu fulltrúar félagsins samning við danskt flugfélag um að annast kynningar og útsýnisflug á Íslandi þá um sumarið. Skömmu síðar festi danska félagið kaup á þremur tveggja sæta landflugvélum og kom ein þeirra með skipi til Reykjavíkur þá um sumarið. Áður en flugvélin kom til landsins höfðu forráðamenn félagsins ásamt liðsforingja og flugmanni úr danska hernum kannað heppilega lendingarstaði í nágrenni Reykjavíkur og komist að þeirri niðurstöðu að tún Eggerts Briem í Vatnsmýrinni hentuðu best í þeim tilgangi. Bæjarstjórn Reykjavíkur ákvað í framhaldi þess að taka hluta af túnunum á leigu undir flugvöll. Þarna liggur fyrsti vísir að Reykjavíkurflugvelli eins og landsmenn þekkja hann í Vatnsmýrinni. Upp úr því var rætt um að landssjóður og sýslu- og sveitasjóðir ættu að hefja veðurfarsathuganir, skipuleggja lendingarstaði og ákveða flugleiðir. Umræðan í þjóðfélaginu var ekki hliðhollt þessum nýja ferðamáta. Í Morgunblaðinu var fjallað um málið sumarið 1918 og sagt að rætt væri um það eins og talað hefði verið um bifreiðar og togara tveimur áratugum fyrr. Lítið gerðist og var fyrsta flugfélag Íslands lagt niður.

Hugað að norurleið

Á millistríðsárunum var farið að huga að svokallaðir norðurflugleið. Leið um Ísland, Grænland og Kanada. Var það gert vegna þess að ekki var talið nægilega öruggt að fljúga langar leiðir yfir opnu hafi, en þarna væri hægt að hafa æskilega lendingarstaði og á öndverðum fjórða áratugnum sýndu nokkur stór erlend flugfélög þessari flugleið áhuga. Árið 1932 veittu stjórnvöld hér á landi Tranamerican Airlines Corporation leyfi til farþega- og póstflugs milli Íslands og annarra landa og færðist leyfið síðar til Pan American Airways.    

Agnar Kofoed Hansen kemur til sögunnar

Upp úr miðju ári 1936, nánar tiltekið þann 7. ágúst réðst Agnar Kofoed Hansen til starfa sem flugmálaráðunautur ríkisins. Fljótt lét hann þau sjónarmið í ljósi að með starfi sínu væri stígið fyrsta skrefið til að endurvekja flugsamgöngur innanlands. Pan American Airways leitaði fyrir sér um flugsamgöngur við Ísland en ekkert kom út úr því máli og 1939 var ákveðið  að byggja upp flugleið sunnan við Ísland sem skýrist af tilkomu langdrægari flugvéla. Ríkisstjórn Íslands vildi þá kanna aðrar leiðir og fór Agnar Kofoed Hansen til nokkurra landa til þess að kynna sér stöðu flugmála. Upp úr því komu fulltrúar evrópskra flugfélaga t.d. hollenska KLM og þýska Lufthansa sem sótti fast að fá flugleyfi hingað til lands. Það leyfi var þó ekki veitt enda nasistastjórnin komin til valda og allt stefndi í stríðsátök sem varð raunin. Í Morgunblaðinu var lagt til að ríkið og Reykjavíkurborg sameinuðust um stofnun eins allsherjar flugfélags sem hrundið yrði af stað með söfnun líkt og gert var þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað. Flugmálafélag Íslands var síðan stofnað fyrir tilstuðlan Agnars Kofoed Hansen og áttu ýmsir áhrifamenn í þjóðfélaginu sæti í því.

Ekki allir sammála um Vatnsmýrina

Eitt af verkefnum Flugmálafélagsins fyrstu árin var að undirbúa gerð flugvallar í Vatnsmýrinni á túnum Eggers Briem. Túnin höfðu þá ekki verið notuð frá því fyrsta Flugfélag Íslands hætti starfsemi 1920. Tveir uppdrættir af flugvelli eru til frá þeim tíma, eftir Hörð Bjarnason arkitekt og Gústaf  E. Pálsson verkfræðing. Á báðum uppdráttunum var gert ráð fyrir 80 metra breiðum flugbrautum og frá 850 til 1200 metra löngum. Flugvallarmálið kom til tals á fundi bæjarstjórnar í mars 1938. Þá þótti Guðmundi Ásbjörnssyni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins fráleitt að staðsetja flugvöll í hjarta bæjarins enda væri algild regla að byggja flugvelli utan við eða alllangt frá byggðum svæðum. Sigurður Jónsson varafulltrúi Framsóknarflokksins sakaði þá sjálfstæðismenn um óvild í garð flugvallarmálsins, en Framsókn var í minnihluta í bæjarstjórninni.

Séð yfir Reykjavíkurflugvöll. Á myndinni má glöggt sá það landsvæði sem flugvöllurinn tekur yfir í miðborg Reykjavíkur.
Mynd Isavia.

Vatnsmýri eða Kringlumýri

Skipulagsnefnd kauptúna og sjávarþorpa tók flugvallarmálið fyrir og taldi að ýmsar hindranir væru í vegi flugvallar í Vatnsmýrinni. Þar á meðal háar byggingar í nágrenni og einnig að loftskeytamöstur á Melunum vestan Vatnsmýrarinnar gætu valdið vanda. Nefndin taldi einnig nauðsynlegt að byggja á athugunum frá fleirum en flugmönnum. Var Geir Zoëga vegamálastjóra falið að ræða við óvilhalla aðila sem hefðu þekkingu á flugstarfsemi. Nefndin vildi taka tillit til fleiri atriða en flugsins, þegar kom að nýtingu landsins í Vatnsmýrinni og nágrennis hennar. Vatnsmýrin var ekki talin alls kostar ákjósanleg. Hús voru til fyrirstöðu og vegir of nálægt flugbrautum. Landið væri hugsanlega of verðmætt fyrir flugvöll. Einnig var bent á að enn væri nægjanlegt landrými fyrir nýbyggingar í Reykjavík og því væri óhætt að leggja Vatnsmýrina undir flugvöll. Undir lokin stóð valið á milli tveggja staða Kringlumýrar og Vatnsmýrar og var Kringlumýri talin hafa ótvíræða kosti umfram Vatnsmýrina. Í framhaldi af fundi skipulagsnefndar í maí 1939 var Gústav E. Pálssyni verkfræðingi falið að gera athugun á Kringlumýrarsvæðinu, sem flugvallarstæði og vinna kostnaðaráætlun um framkvæmdir.

Kaldaðarnes reyndist illa

En mál voru nokkuð fljót að taka breytingum. Ísland var hernumið af Bretum 10. maí 1940 og settu þeir upp varðstöðvar við þá staði sem notaðir höfðu verið fyrir flugsamgöngur. Skömmu síðar fóru Bretar að leita eftir hentugum stöðum til flugvallagerðar. Leonard K. Barnes flugliðsforingi sem stýrði athugun Breta taldi ekki nægjan-legt svigrúm fyrir herflugvöll í Vatnsmýrinni vegna nálægðar við byggð. Bretar völdu því Kaldaðarnes, en það reyndist ekki sem skyldi. Flugvöllur í Kaldaðarnesi var illa staðsettur með tilliti til umferðar og aðdrátta og var einnig inn á flóðasvæði Ölfusár. 

Douglas DC3 flugvél Flugfélags Íslands eða þristurinn eins og þessar vélar voru jafna kallaðar á flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli. Segja má að þristurinn hafi markað reglubundið áætlunarflug frá Reykjavíkurflugvelli og var í notkun frá því á sjöunda áratug liðinnar aldar þegar Fokker F 27 vélar leystu hann af hólmi.
Mynd Flugskólinn Þytur.

Kringlumýrin slegin af

Flugmálafélag Íslands fór um þetta leyti fram á við borgarráð að unnar yrðu frekari athuganir á flugvallarstæði í Vatnsmýrinni og einnig kostnaðaráætlanir við gerð flugvallar. Bæjarráð féllst á þessar hugmyndir og þar með var Kringlumýri slegin af sem flugvallarstæði. Farið var fram á að tryggt yrði eignarhald á 66,8 hekturum lands í samræmi við vilja Flugmálafélags Íslands. Áætlaður kostnaður við gerð flugvallar var 125 þúsund krónur við fyrsta áfanga og um 175 þúsund krónur fyrir síðari áfanga eða um 300 þúsund krónur í heild.

Bretar byggðu völlinn

Lengra náði þessi saga þó ekki, því breski herinn fór um landið og lét gera flugbrautir á ýmsum stöðum. Ein þeirra var á Melunum við Öskjuhlíð. Um miðjan október 1940 var áhugi borgaryfirvalda vakinn á því að Bretar væru byrjaðir á flugvallargerð sunnan við Vatnsmýrina. Gagnrýndi Bjarni Benediktsson þáverandi borgarstjóri þann verknað harðlega og sagði að ekki hefði verið leitað til stjórnvalda bæjarfélagsins um samþykki. Lagði hann til við stjórnvöld að ríkið næði eignarhaldi í Vatnsmýrinni sem væri í einkaeign en ætlað væri sem framlag þess til flugvallargerðar. Ólafur Thors forsætisráðherra var sama sinnis og var þessari fyrstu flugvallargerð við Vatnsmýrina mótmælt. Þessi mótmæli dugðu þó skammt því í bréfi Harry O. Curties hershöfðingja kemur fram að hernámsliðinu hafi verið nauðugur sá kostur að láta gera flugvöll fyrir allar tegundir flugvéla í Reykjavík og hefði Vatnsmýrin orðið fyrir valinu. Taldi hann einnig nauðsynlegt að ríkið eignaðist landið til að herstjórnin þyrfti ekki að hafa samskipti við aðra en ríkisstjórnina varðandi það. Á ríkisstjórnarfundi 1. nóvember sama ár var samþykkt að taka landið í Vatnsmýrinni eignarnámi. Ráðuneytið ítrekaði enn á ný mótmæli við flugvallar-gerðina en tók fram að frekari mótmæli yrðu ekki viðhöfð. Eftir þetta hófust Bretar handa og byggðu flugvöllinn í Vatnsmýrinni rúmum tveimur áratugum eftir að fyrst var rætt um flugstarfsemi þar og hluti túna Eggerts Briem tekin á leigu fyrir flugbraut.

Heimildir:

Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi. Arnþór Gunnarsson 2018.

Greinar úr dagblöðum.

You may also like...