Fyrsta heilsueflandi hverfið í Reykjavík
Undirritun borgarstjóra 22. apríl s.l. markar tímamót í hverfinu með yfirlýsingu um að Breiðholt muni hrinda af stað vinnu um heilsueflandi samfélag og verða þar með leiðandi hverfi í borginni öðrum hverfum til fyrirmyndar á komandi misserum.
Heilsueflandi Breiðholt er þróunarverkefni sem hefur það markmið að stuðla að heilbrigði og velferð í samfélaginu. Stefnt er að stofnanir og félagasamtök í hverfinu skapi heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði íbúa frá ýmsum hliðum. Aðgerðaráætlun verkefnisins mun innihalda útfærslu Breiðholts á forvarnastefnu Reykjavíkurborgar sem mun ná til flestra stofnana í hverfinu og þar með allra aldurshópa, barna, unglinga, fullorðinna og aldraðra. Framtíðarsýn í forvarnastefnu Reykjavíkurborgar fyrir 2014 til 2019 er heilsueflandi samfélag og að fólk tileinki sér heilbrigðan lífsstíl. Heilsueflandi Breiðholt hefur það markmið að innleiða forvarnastefnuna með því að þróa með stofnunum og fólkinu í hverfinu samfélagslegan ramma utan um markvissa heilsueflingu. Verkefnastjóri frístunda- og félagsauðs á þjónustumiðstöð Breiðholts hefur umsjón með verkefninu og leiðir vinnu við aðgerðaráætlun. Leitað hefur verið eftir samstarfi við alla hagsmunahópa í hverfinu m.a. við leik-, grunn- og framhaldsskóla, félagasamtök og frístundamiðstöðvar ungmenna, íþróttafélög, félagsstarf eldri borgara og heilsugæsluna. Stofnanir, félagasamtök, foreldrar og nemendur í hverfinu hafa komið að vinnu við að greina ástands hverfisins og um útfærslu á aðgerðaráætlun fyrir sína stofnun.
Heilsueflandi skólar
Heilsueflandi skólar er verkefni á vegum Embætti landlæknis og byggir á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá jákvæðu og víðtæku sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfingu, hollri næringu, bættri andlegri líðan og jákvæðum lífsstíl. Verkefnið veitir auk þess tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og veitir nemendum og starfsfólki stuðning og tækifæri til að tileinka sér heilbrigðan lífstíl. Stefnt er að því að allri grunnskólar, leikskólar og framhaldsskólinn í Breiðholti verði Heilsueflandi skólar. Sérstakt Reykjavíkurlíkan af Heilsueflandi skólum verður innleitt til að auðvelda og styðja við innleiðinguna á heilsueflandi skólum. Aðaláhersla í verkefninu er á fjóra þætti, næringu, hreyfingu, líðan og lífstíl. Unnið verður með afmarkaða þætti í einu á hverju skólaári og hver skóli ákveður í hvaða röð þættirnir eru teknir fyrir.
Heilsueflandi frístundamiðstöðvar, frístundaheimili, íþróttafélög, félagasamtök, stofnanir og félagsstarf eldri borgara
Heilsueflandi Breiðholt er ætlað að ná til allra stofnana í hverfinu með markmið að heilsueflandi samfélagi. Stofnanir og félagasamtök í hverfinu gegna mismunandi hlutverki í forvarnaverkefninu, en eiga þó sameiginlegt að vera mikilvægur hlekkur í forvörnum. Höfuð áhersla forvarnaverkefnisins Heilsueflandi Breiðholt er á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, líðan og lífsstíll. Stofnanir og félagasamtök munu einbeita sér að ákveðnum viðfangsefnum í verkefninu eða einstökum þáttum innan þess. Íþróttafélögin í hverfinu eru t.d. í lykilhlutverki í hreyfinga þættinum auk þess eru íþróttafélögin mikilvægur áhrifavaldur í líðan þátttakenda, þar sem rannsóknar hafa ítrekað sýnt fram á að hreyfing hefur jákvæð áhrif á andlega líðan og stuðlar að betri næringu. Forvarnargildi íþróttastarfsins á sviði reykinga og vímuefnavarna er vel þekkt. Í félagsstarfi aldraðra er mikilvægt að leggja áherslu á hreyfingu til að auka lífsgæði fólksins. Þjónustumiðstöðin í hverfinu vinnur þverfaglega með hinum ýmsu stofnunum í öllum viðfangsefnum verkefnisins. Starfið beinist á að minnka áhættuhegðun barna og ungmenna, skimun og setja af stað íhlutunarverkefni. Frístundamiðstöðvar og frístundaheimili vinna í samstarfi við grunnskólana í hverfinu og vinna að margvíslegum forvörnum sem falla að viðfangsefnunum fjórum.
Breiðholtið ríður á vaðið í innleiðingu á Heilsueflandi hverfum í borginni
Á hverfafundi 22. apríl s.l. undirritaði borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B. Eggertsson, hverfisstjóri Óskar Dýrmundur Ólafsson og formaður hverfisráðs Nichole Leigh Mosty yfirlýsingu um Heilsueflandi Breiðholt. Þar með var verkefninu hleypt af stokkunum í Breiðholtinu. Í framhaldinu verður unnið áfram með félagasamtökum og stofnunum í hverfinu og mun innleiðingin hefjast næsta haust.
Heilsueflandi umhverfi bætir líðan
Sú heildstæða stefna sem verið er að hrinda af stað með verkefninu Heilsueflandi Breiðholt byggja á rannsóknum sem sýna að heilsueflandi umhverfi bætir líðan íbúa og stuðlar að bættum námsárangri barna og unglinga og dregur úr brottfalli þeirra úr skóla og frístundum. Með verkefninu Heilsueflandi Breiðholt sem inniheldur helstu áhersluþætti landlæknis er lagt af stað í uppbyggingu á heilsueflandi samfélagi í hverfinu. Verkefnið mun rúlla að stað af krafti með haustinu. Stefnt er að því að allir sem vinna að stefnumótun og þjónustu setji heilsu og heilsueflingu í forgrunn og búi þannig til aðgengi og heilsteypta umgjörð, sem gerir íbúum hverfisins kleift að taka heilsusamlegar ákvarðanir. Þegar fólk samstillir krafta sína getur svo margt gerst. Við hvetjum íbúa, skóla, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök til að sameinast í verkefninu og taka þar með þátt í uppbyggingu á heilsueflandi samfélagi í Breiðholti.
Dr. Þórdís Lilja Gísladóttir Verkefnastjóri frístunda og félagsauðs í Breiðholti.