Húsið mun fá nýtt hlutverk innan tíðar

Skemma 2

Brimhúsið á bakka gömlu hafnarinnar hefur nú fengið nýtt og betra útlit, verið málað í ljósum og bláum lit og til stendur að finna því nýtt hlutverk.

„Já – það er í farvatninu að önnur starfsemi komi í húsið enda er núverandi hafnarstarfsemi sem er í húsinu á undanhaldi þar sem skipulagsyfirvöld borgarinnar eru búin að breyta skipulagi hafnarsvæðisins og núverandi hafnarstarfsemi við Reykjavíkurhöfn er ekki lengur inn í nýju skipulagi Reykjavíkurborgar,“ segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims.

Húsið sem um ræðir er fyrrum vöruskemma Ríkisskipa og síðar útgerðarstöð Jóns Ásbjörnssonar og stendur á bakka gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Húsið komst í eigu Brims fyrir nokkrum árum og hefur að mestu staðið ónotað að undanförnu auk þess sem lítið hafði verið hugað að útlit þessu. Nú er búið að mála húsið að utan og ætlunin er að koma starfsemi í það á næstunni. Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir eiganda hússins hafa fullan hug á því að finna því einhver not. „Við höfum verið að ræða þetta að undanförnu og erum sammála um að heppilegt verði að starfsemi í húsinu tengist útvegi og fiskvinnslu með einhverjum hætti.“ Gísli segir ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar. Þar á meðal sú hugmynd hvort hægt væri að koma upp litlum fiskmarkaði og einhverri vinnslu í húsinu. „Eftir því sem ég best veit hafa þó engar ákvarðanir verið teknar enn þá en ég hef trúa að húsið fái hlutverk innan tíðar,“ segir Gísli.

You may also like...