Þurfum að bæta þjónustuna í Vesturbænum

Vestur íbúafundur 1

Vesturbæingar teikna upp sína óskaleiðir með Strætó á íbúafundinum í Vesturbænum.

Góð mæting var á íbúafundi sem Hverfisráð Vesturbæjar stóð fyrir 28. maí sl. Á fundinum gátu íbúar Vesturbæjar komið með tillögur af því hvernig þeir vilji sjá strætó aka um hverfið.

Margar hugmyndir voru ræddar og unnið á borðum þar sem fólk gat teiknað inn sínar óskir um það hvernig það vildi sjá strætóaksturinn um Vesturbæinn. Í framhaldinu vann Hverfisráð Vesturbæjar úr þeim hugmyndum sem settar voru á blað og mun koma þeim áleiðis til borgaryfirvalda og stjórnar Strætó bs. Vesturbæjarblaðið hitti Sverri Bollason formann hverfisráðsins á kaffihúsinu við Hagamel á dögunum og ræddi strætómálið við hann. Sverrir kvaðst mjög ánægður með mætinguna og þær umræður og hugmyndavinu sem fram fór á fundinum. Hugmyndin að baki honum hafi verið að heyra í fólki og leita eftir sjónarmiðum þess um hvað því fyndist vanta til þess að gera kerfið skilvirkara og bætt þjónustuna.

Sverrir Bollason 1 1

Sverrir Bollason formaður Hverfisráðs Vesturbæjar.

Bætt tenging á milli skóla-, íþrótta- og tómstundasvæða

„Mér finnst væntingarnar í garð Strætó einkum þær að bæta tengingar á milli skólasvæða, sundsvæða- og íþróttasvæða og félagsmiðstöðvanna – þeirra staða þar sem æskulýðsstarfið fer fram. Mannaferðir á milli þessara staða er að miklu leyti um miðjan dag og því utan háannatíma Strætó þegar fólk er að fara til vinnu á morgnana og heim er líða tekur á daginn. Við verðum að horfa til þess að krakkar og unglingar þurfa á þessu samgönguneti að halda. Við þurfum að létta ýmiskonar skutli með krakkana af foreldrum sem oft fer fram á vinnutíma. Yngri krakka eru lægri í loftinu og skreflengdin styttri hjá þeim er fullorðnum. Þar að auki eru þau oft að bera allt að þriðjung þyngdar sinnar í skólatöskum á bakinu sem getur verið erfitt fyrir þau ekki síst þegar viðrar illa eins og oft getur gerst. Þetta gerir þeim erfiðara að fara gangandi á milli staða heldur en okkur fullorðan fólkinu. Þar að auki lít ég það sem uppeldislegt atriði að venja krakka við að nota almenningssamgöngur – að nota strætó vegna þess að fólk sen hefur alist upp við almenningssamgöngur sem börn nota þær miklu frekar þegar kemur fram á fullorðinsárin. Reynslan sýnir að fólk sem notar Strætó og þekkir samgöngukerfið er oft mun jákvæðara en þeir sem lítið þekkja til þess. Því fólki hætti oftar til þess að sjá ljón í veginum á öllum leiðum.“

Auka þarf þjónustu við Örfirsey og Seltjarnarnes

Sverrir segir ákveðnar óskir hafa komið fram um að auka þjónustu Strætó við þá sem leið eiga í verslana- og athafnabyggðina í Örfirsey. „Hvaða skoðun sem menn hafa á því hvort rétt hafi verið að reisa verslanabyggð á þessu svæði þá er hún komin og því þarf að gæta þess að samgöngur séu greiðar, almenningssamgöngur sem aðrar. Einnig komu fram hugmyndir um að bæta almenningssamgöngur við Seltjarnarnes þá einkanlega Gróttusvæðið. Ég held að það komi til af því krakkar og ungmenni úr Vesturbænum stunda fimleika hjá Gróttu og vilja gjarnan geta tekið Strætó út eftir til þess að stunda æfingar.“

Stræto 3 1

Stóru strætisvagnarnir fara ekki lengur inn í gamla Vesturbæinn.

Þurfum að nálgast íbúana

„Eins og þjónustu Strætó við Vesturbæinga er háttað í dag þá er hún misjöfn eftir því hvar þeir búa. Melarnir og Hagarnir eru í nokkuð góðum tengslum við leiðir Strætisvagnanna en öðru máli gegnir um gamla Vesturbæinn á milli Hringbrautar og Mýrargötu. Ég tel að við verðum að hugsa á hvern hátt sé hægt að nálgast íbúana á þessu svæði og hvaða leiðum þurfi að breyta í því efni.“ Sverrir kveðst telja að Vesturgata þoli einhverja umferð almenningsvagna en hún var lengi umferðaræð þeirra þegar tvisturinn ók eftir henni. „Ég minnist eldri konu sem kom á fundinn til okkar og benti á þann vanda sem eldra fólk býr við af þessum sökum. Fyrir þá sem búa næst miðbænum er eina stoppistöðin við ráðhúsið og einu strætóleiðirnar um Hofsvallagötu og Suðurgötu í vesturátt. Fólk þarf því að ganga talsverðan spöl til þess að taka strætó á þessum stöðum og þótt gönguferðir séu af hinu góða eins og hver önnur hreyfing þá þarf þjónustan að vera nærri íbúunum. Íbúar í Skerjafirði eru áhugasamir um að að bæta þjónustuna einkum er varðar tengingu við Mela- og Hagaskólann og hefur það mál lengi verið á dagskrá íbúa þar.“

Mini bus 1

Þessi tegund bíla er orðin áberandi í ferðaþjónustunni. Ganga oft undir heitinu „mini bus“ og eru notaðir til þess að ferðast með fámennari hópa, sem hótelskutlur og til fleiri nota. Spurning er um hvort þeir geti leyst þann vanda sem kann að skapast ef hverfisvögnum verður komið á fót og stóru vagnarnir nýtast illa til þeirra verkefna.

Þörf fyrir innanhverfis

Strætó Sverrir segir spurningu um hvort koma þurfi upp innanhverfisvagni sem fari ákveðnar leiðir um Vesturbæinn. „Þetta er eitt af því við þurfum að skoða því slík leið myndi örugglega nýtast vel en vantar sárlega. Þá er staðreyndin sú að stofnleiðirnar eitt, þrjú og sex fara ekkert inn í íbúðahverfin í Vesturbænum en gætu nýst mjög vel. Kerfið sem notað er í dag er miðað við að vagnarnir komist hratt yfir og séu sem skemmstan tíma á leiðinni en að notendurnir þurfi að ganga eða skipta frekar. Það var nauðsynlegt að skipta út gamla leiðakerfi SVR sem var bara sama kerfið en árlega var teygt á því. Nýtt kerfi kom til sögunnar og ný hugsun fylgdi því. En hugsanlega þyrftum við að snúa aðeins aftur til einhverra þeirra gæða sem gamla leiðakerfið hafði. Ný innanhverfisleið gæti komið til móts við þessar þarfir. Við höfum fengið fullt af efni í hendurnar um hvaða staðir skipta íbúana máli. Næsta skref er að kynna það sem fram kom á fundinum fyrir borgarfulltrúum og stjórn Strætó bs.“

You may also like...