Skrifstofurýmum fjölgar en eftirspurn gæti dregist saman

Fjöldi skrifstofurýma er við Hafnartorg og Landsbankinn er að byggja nánast húslengd frá.

Gera má ráð fyrir að framboð skrifstofuhúsnæðis í miðborg Reykjavíkur muni aukast verulega á næstu árum. Í samantekt sem Fréttablaðið lét gera á dögunum gætu um 44 þúsund fermetrar komið inn á markaðinn á næstu misserum. Þar kemur meðal annars til sögunnar bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Þegar bankinn flytur í nýja húsið mun bankinn geta farið úr rúmlega 20 þúsund fermetra skrifstofurými niður í 10 þúsund fermetra. Þar kemur einkum til breytt nýting á skrifstofurými. Þá er gert ráð fyrir að bankinn muni leigja út eða jafnvel selja allt að 6.500 fermetra í nýbyggingunni. Ef sú áætlun stendur að færa skrifstofur Alþingis í nýbyggingu árið 2023 mun losna um 4.500 fermetrar af skrifstofurými. Þá er gert ráð fyrir á nýju skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandi og Skatturinn áætlar flytja í minna húsnæði á næsta ári. 

Markaður fyrir skrifstofuhúsnæði á þegar undir högg að sækja í miðbænum. Fyrirtæki virðast sækja minna í miðborgina. Erfitt aðgengi vegna framkvæmda, vöntun á bílastæðum og ýmiskonar framkvæmdir sem tefja umferð hafi stuðlað að brotthvarfi fyrirtækja úr miðborginni. Þá má geta þess að allmikil breyting hefur orðið á vinnuumhverfi á skrifstofum á undanförnum árum. Breyting sem skapar þörf fyrir minna rými en áður var. Notkun á sameiginlegum rýmum hefur aukist og eins manns skrifstofum fækkað. Þá eru möguleikar á að fjarvinna aukist einkum í kjölfar covid 19 faraldursins sem varð til þess að fleira fólk tók að vinna heiman frá sér alla vega að hluta þar sem því hefur verið komið við. Fjarvinna nær ekki síst til fólks sem starfar á skrifstofum og er beintengt að Heiman við vinnustað sinn. Þessi þróun getur haft það í för með sé að þörf fyrir skrifstofurými minnki á meðan þeim er að fjölga. Það getur svo aftur leitt til lækkaðs leiguverðs og jafnvel að skrifstofurými muni verða auð.

You may also like...