Fjölþjóðlegur sönghópur gerir víðreist

Olga Cooking 1

Hugmyndin um að tengja söng og matarlist saman sem þeir Olgufélagar ætla að gera í Iðnó í sumar er óvenjuleg. Þarna eru þeir félagarnir á fullri ferð í eldhúsinu. Pétur Oddbergur er fyrir miðju.

… einn þeirra Vesturbæingurinn Pétur Oddbergur Heimisson spjallar við Vesturbæjarblaðið.

Heyr himnasmiður lag Þorkels Sigurbjörnssonar við 700 ára gamlan texta Kolbeins Tumasonar hljómar. Raddirnar eru samhæfðar líkastar því sem leikið sé á hljóðfæri. Þegar lokanótan hefur verið sungin tekur annað lag við. Ég er kominn heim lag Jimmie Rodgers við texta Jóns Sigurðssonar eða Jóns í bankanum eins og hann var nefndur en hann starfaði í Búnaðarbankanum gamla samhliða textagerð og tónlistarstörfum tekur við. Lagið sem gerði Óðinn Valdimarsson frá Akureyri kunnan á einni nóttu með KK sextettinum forðum. Lag sem ýmsir hafa lagt sig eftir að túlka en fáum tekist að ná. Óðinn var tenór en nú er bassarödd Péturs Oddbergs Heimissonar tekin við. Lagið hentar ekki síður þjálfaðri bassarödd en óbeisluðum tenór.

Pétur Oddbergur Heimisson er einn af sönghópnum Olga Vocale en hinir eru Bjarni Guðmundsson tenór, Jonathan Ploeg tenór, Gulian van Nierop barritón og Philip Barkhudarov bassi. Að sönnu alþjóðlegur hópur sem í sumar mun bjóða upp á kvöldverðartónleika í samstarfi við Iðnó ásamt því halda hefðbundna tónleika víðs vegar um landið. Þeir lögðu upp nú 21. júlí og verða á ferð til 3. ágúst með viðkomu á Hvolsvelli, Djúpavogi, Ólafsfirði, Hvanneyri, Flatey á Breiðafirði og síðast en ekki síst í Reykjavík. Olgumennirnir fóru auk þess til Frakklands í sumar og munu halda til Bandaríkjanna í byrjun næsta árs þar sem þeir ætla að halda um tólf tónleika í samstarfi við Baylin Artists Management. Pétur Oddbergur Heimisson er Vesturbæjarbarn. Fæddur og alin upp á Vesturgötunni og hefur búið þar samfellt ef undan eru skilin námsári í Hollandi. Hann spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

Hreinræktaður Vesturbæingur

Pétur Oddbergur er hreinræktaður Vesturbæingur. Foreldrar hans eru Heimir Sigurðsson og Gróa Þóra Pétursdóttir og hann hefur alla tíð búið á Vesturgötunni utan námsáranna í Hollandi. Hann segist ekki vera fluttur að heiman. „Það má segja að ég sé enn á „Hótel mömmu“. Ég er svo stutt heima í hvert skipti. Ég bý allt upp í tíu mánuði erlendis á hverju ári og þá tekur því ekki að vera að reyna að leigja. Verð þar trúlega eitthvað enn á meðan ég er á þessu flakki á milli landa og foreldrar mínir hafa útbúið mjög góða aðstöðu fyrir mig í kjallaranum á Vesturgötunni. En það styttist í að ég verði að finna mér eitthvað annað. Kannski kaupi ég mér hús í Vesturbænum en það er ekki alveg komið að því. Ekki enn þá.“

Af ætt Gróu

Langamma Péturs var Gróa Pétursdóttir sem var mjög virk í slysavarnarstarfi á árum áður og Gróubúð á Grandagarði heitir eftir. Pétur segir langömmu sína hafa verið mjög sérstaka konu og mörgum eftirminnileg. Hún fæddist 1892 í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd skammt frá þeim stað sem hugmyndir eru nú um að byggja flugvöll. Foreldrar hennar voru Pétur Örnólfsson, sjómaður í Reykjavík og kona hans Oddbjörg Jónsdóttir. Árið 1918 giftist Gróa Nikulási K. Jónssyni skipstjóra og vigtarmanni í Reykjavík um langt skeið og hófu þau búskap í Reykjavík. Gróa átti þrjú systkini sem voru Jóhann, þekktur togaraskipstjóri, Guðlaug sem fylgdi Gróu alla tíð og sá lengst af um heimili hennar og var henni ómetanleg hjálparhella. Yngst var svo Emilía sem var gift Kristni Markússyni í Geysi. Gróu hlotnuðust viðurkenningar fyrir störf sín að slysavörnum. Hún hlaut íslensku fálkaorðuna og Gróa var sæmd æðstu viðurkenningu Slysavarnafélags Íslands, heiðurskrossi, sem einungis þremur einstaklingum hefur hlotnaðist í sögu félagsins. „Já – nöfnin okkar mömmu eru sterk í fjölskyldunni.“

Olga Olafsfjordur 1

Olgufélagarnir hafa verið að túra um Ísland. Þarna eru þeir staddir í Ólafsfirði ásamt tveimur heimamanna.

Virk í íþróttalífinu

Fjölskylda Péturs hefur verið mjög virk í íþróttalífinu og einkum skíðaíþróttinni í gegnum tíðina. Faðir hans var formaður skíðadeildar KR um tíma og sjálfur var Pétur á skíðum í Skálafelli og víðar. Hann var líka virkur í fótboltanum. „Ég átti mjög góða æsku í Vesturbænum og hef alltaf kunnað mjög vel við mig þar. Ég er líka hreinræktaður KR-ingur og var einn af stofnendum KV eða Knattspyrnufélags Vesturbæjar sem var stofnað til þess að gefa þeim sem ekki komust inn í meistaraflokkinn tækifæri. Ég var með þeim í stjórn í eitt ár en starfaði ekki með KV eftir það. Með KV gátu strákarnir spilað í lægri deild. Þetta var meira hugsað til gamans en beinn undirbúningur fyrir meistaraflokkinn en KV komst upp í fyrstu deildina á síðasta ári. Já – ég æfði með KR í fjölda ára. Allt frá því að ég var lítill strákur. Ég var á skíðum á veturna og spilaði fótbolta á sumrin. Ég missti svolítið af undirbúningi á veturna en náði að spila á Shellmótum og fleiri mótum og spilaði á Íslandsmótinu alveg upp í annan flokk. Ein tenging mín við Vesturbæinn tengist bæði KR og söngnum þótt með óbeinu móti sé. Ég er alin upp í sama húsi og Pétur Jónsson söngvari bjó á sínum tíma en hann var einn af stofnendum KR.“

Jón Þorsteinsson flottur kennari

En að söngnum. Hefur Pétur alltaf sungið. „Já – ég hef alltaf haft gaman af að syngja. Ég var í kór í Hagaskóla og í kórstarfi á framhaldsskólaárunum. Ég fór í söngnám meðal annars hjá Guðmundi heitnum Jónssyni óperusöngvara. Ég náði tveimur árum hjá honum áður en að starfsævi hans lauk. Ég horfði þó ekki um tíma eingöngu á sönginn því ég fór eitt ár í nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Ég fann þó að söngurinn togaði stöðugt í mig. Ég hafði verið hjá góðum kennurum og auk Guðmundar og má nefna menn á borð við Eið Ágúst Gunnarson og Bergþór Pálsson í því efni. Þetta reyndist mér mjög góður undirbúningur fyrir söngnámið sem ég hef stundað í Hollandi undanfarin ár.“ Pétur flutti til Hollands árið 2009 til þess að stunda tónlistar- og söngnám. Þar hefur hann meðal annars lært hjá Jóni Þorsteinssyni óperusöngvara sem er ættaður úr Ólafsfirði en hefur búið og starfað í Hollandi í um þrjá áratugi. „Jón er ótrúlega flottur kennari og gott að vera hjá honum í námi. Þegar ég var hjá honum var hann að kenna 13 Íslendingum.“

The Good Old Days

En hvernig varð Olga Vocal Ensemble til. Pétur segir hugmyndina hafa fæðst með kynnum sem hófust í náminu þar sem allir voru að læra söng. “Þetta þróaðist smám saman. Í fyrstu vorum við þrír Íslendingar, einn rússi og píanóleikari. Þetta var fyrsta útgáfan af Olgu. Svo hætti píanistinn og þá fórum við að þróa sönginn án undirleiks. Á árinu 2013 bættust tveir Hollendingar í hópinn og þá vorum við orðnir fimm. Lagavalið breyttist einnig. Það breyttist frá lögum sem söfnuðust að okkur ef svo má segja og við lærðum og kunnum yfir í að móta okkur stefnu í lagavali. Við fóru að syngja tónlist frá 20ustu öldinni – einkum miðbiki hennar. Nokkuð sem við kölluðum „The Good Old Days“ eða gömlu góðu dagana. Við tókum þetta svo smám saman af aukinni alvöru. Hópurinn er líka orðin þéttari en hann var. Sigurður Rúnar Jónsson eða Diddi fiðla eins og hann er oftast kallaður og býr í Lúxemborg tók upp fyrstu sex lögin sem við festum niður. Annars erum við ekki með neinn stjórnanda. Við stjórnum hver öðrum. Við æfum saman og finnum saman út hvernig við viljum flytja lögin. Við leggjum ekki alla línur fyrir fram eða skrifum alveg niður hvernig við viljum hafa þetta. Sumt gerist bara í augnablikinu. Það er margt sem getur gerst þegar við erum að æfa lögin og þróa sönginn en þá er bara að bregðast við því og vinna úr aðstæðunum.

Olga Kirkja 1

Félagarnir í Olga Vocal Ensemble leggja mikið upp úr að syngja í kirkjum vegna þess hversu góður hljómburður er í mörgum þeirra.

Sumar, söngur og matarlist

Hugmyndin um að tengja söng og matarlist saman sem þeir Olgufélagar ætla að gera í Iðnó í sumar er óvenjuleg. Hvernig varð hún til. „Sú hugmynd fæddist í Haarlem í Hollandi þar sem Olga hefur haldið nokkra tónleika af þessu tagi í heimahúsi – húsi foreldra Jonathans sem er annar tenór í hópnum. Þetta áhugaverða form þar sem blandað er saman tónlist og mat hefur vakið mikla lukku í Hollandi. Strákarnir í Olgu eru spenntir að kynna þessa upplifun fyrir Íslendingum í sumar. Boðið verður uppá fjögurra rétta matseðil ásamt dúndrandi söng inn á milli. Olga tekur að sjálfsögðu þátt í að bera fram matinn. Við erum líka að túra um Ísland í sumar. Viljum hafa þetta skemmtilega blöndu af sumri, söng og matarmenningu.“

Ætla að kynna evrópsk þjóðlög vestra

Og nú stefna þeir félagarnir til Bandaríkjanna. „Já – það er rétt. Við stefnum í vesturveg. Haft var samband við okkur að vestan af aðila sem kemur frá umboðsskrifstofu þar. Hann hafði heyrt í okkur á netinu og fannst að tónlistarflutningur okkar gæti passað við Bandaríkjamarkað. Hann var ekki með í huga að við myndum flytja bandarísk lög heldur fyrst og fremst evrópsk þjóðlög. Leyfa íbúum Vesturálfu að heyra eitthvað nýtt.“ Pétur segir spennandi tíma fram undan hjá þeim. „Nú er þessi aðili að selja okkur -meðal annars í leikhús og kirkjur. Við höfum gert talsvert af því að syngja í kirkjum – einkum vegna þess hversu góður hljómburður er í mörgum þeirra þótt það sé alls ekki algilt,“ segir þessi söngglaði Vesturbæingur sem er ásamt félögum sínu að kynna Íslendingum nýjungar í tónlistarflutningi bæði er varðar tónlistina sjálfa og einnig að blanda matarmenningu við tónheyrnina.

You may also like...