Stefnumótun í ferðaþjónustu

Frá samráðsfundinum.

Seltjarnarnesbær vinnur nú að stefnumörkun ferðamála á Seltjarnarnesi og hvernig best má bregðast við aukinni aðsókn ferðafólks hingað ekki síst að viðkvæmum náttúruperlum vestursvæðisins. Markmiðið er að móta skýra stefnu og framtíðarsýn í þessum málaflokki, velta upp áskorunum og tækifærum fyrir íbúa og bæjarfélagið ásamt því að útbúa vel skilgreinda aðgerðaráætlun.

Það má með sanni segja að talsvert hefur verið rætt um þetta viðfangsefni í nefndum og ráðum bæjarins á undanförnum misserum. Unnin var greinargóð samantekt sem kom út árið 2016 og mál stöðugt að þróast. Nýlega kom út áfangastaðaáætlun Höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta á vegum stjórnstöðvar ferðamála en Seltjarnarnesbær var þátttakandi í þeirri vinnu auk þess sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið gaf fyrr á árinu út landsáætlun í uppbyggingu innviða 2018-2020. Tekið verður tillit til þessa og fleiri þátta í vinnunni sem framundan er en ráðgjafafyrirtækið Alta vinnur að stefnumörkuninni með Seltjarnarnesbæ og fól bæjarráð undirritaðri að leiða þá vinnu fyrir hönd bæjarins.

Samráðsfundur var í lok nóvember

Stefnumótunarferlið sjálft mun taka nokkrar vikur en fyrsta skrefið var samráðsfundur sem haldinn var í lok nóvember þar sem fulltrúar úr nefndum og ráðum bæjarins, starfsmenn og nokkrir hagsmunaaðilar komu saman, alls um fimmtíu manns. Mikil áhersla er lögð á það markmið að útbúa heildstæða stefnu sem tekur tillit til allra helstu sjónarmiða um viðfangsefnið og leiðir til fyrirkomulags sem sátt ríkir um. Gert er því ráð fyrir því að fleiri aðilar og hópar verði kallaðir til eftir því sem verkefninu framvindur enda samráð á öllum stigum verkefnisins talið lykilatriði svo vel takist til í stefnumörkuninni.

María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptamála hjá Seltjarnarnesbæ.

You may also like...