Byrjað verður að selja á Lýsisreitnum um áramót

Forsíða 2

Svona mun íbúðabyggðin á gömlu Lýsislóðinni á mótum Grandavegar og Eiðisgranda líta út.

„Við ætlun okkur að setja fyrstu íbúðirnar á Lýsisreitnum í sölu um eða upp úr áramótum og stefnum á að afhendingar geti hafist í apríl á næsta ári,“ segir Pálmar Harðarson forstjóri Þingvangs í samtali við Vesturbæjarblaðið en miklar byggingaframkvæmdir standa nú yfir á vegum fyrirtækisins á þessu svæði í Vesturbænum.

Alls verður byggð 141 íbúð í sex áföngum. Þær íbúðir sem fyrstar fara í sölu og verða tilbúnar til afhendingar á fyrri hluta næsta árs verða á austari hluta byggingarsvæðisins en framkvæmdum á vestari hlutanum næst Eiðisgranda lýkur síðar. Fremst á byggingarsvæðinu við Eiðisgranda verða sex til níu hæða fjölbýli en húsin lækka eftir því sem austar dregur í lóðina þar sem verið er að byggja fjögurra og niður í tveggja hæða hús. Með þessum framkvæmdum hafa orðið miklar breytingar á reitnum og umhverfinu við Grandaveginn neðanverðan. Einnig má gera ráð fyrir breytingum á mannlífi þegar svo margir nýir íbúar bætast við á grónu svæði en alls er gert ráð fyrir á bilinu 400 til 500 íbúum á svæðinu eftir fjölskyldusamsetningum þegar framkvæmdum lýkur. Byggingarnar á Lýsisreitnum eru hluti af þéttingu byggðar í Reykjavík og uppbyggingu íbúðasvæða á reitum þar sem iðnaðarstarfsemi var rekin áður. Fyrirtækið Lýsi sem reiturinn er kenndur við er nú með starfsstöð í Örfirsey.

Forsíða 1 Forsíða 3

You may also like...