Unglingar verðlauna Braga í Leiksport
Flest ungmenni á námskeiðinu Breiðholt 2030 kváðust vilja sjá verslunina Leiksport í Hólagarði starfandi árið 2030. Aðrar verslanir sem voru nefndar voru við sama tækifæri voru Adams pizza og Þín verslun við Seljabraut.
Á námskeiðinu Breiðholt 2030 sem haldið var rétt fyrir jól fengu ungmenni hverfisins fræðslu um þróun verslunar og þjónustu í hverfinu. Þau hlýddu á stutt innlegg um hvaða fyrirtæki og stofnanir hér var að finna á mótunarárum hverfisins og hvernig íbúar tóku virkan þátt í þróuninni. Þar var komið inn á þátttöku hópa sem spruttu upp og reyndu að knýja á breytingar til hins betra. Fengu ungmennin að sjá gamlar innsendar blaðagreinar frá einstaka íbúum sem og skrif stjórnarmanna Framfarafélag Breiðholts og öðluðust þar með innsýn í hvernig íbúar hverfisins gátu tekið þátt í mótun þess með valdeflinguna að vopni. Þá rýndu ungmennin í stöðuna í dag og fengu það verkefni að velja það fyrirtæki sem þeim þætti hvað vænstu um. Spurt var hvaða fyrirtæki þau vilja sjá standa enn árið 2030 og stóð ekki á svörunum. Umræðan var lífleg og var ljóst að ungmenni hverfisins þekkja nær samfélagið vel og þykir vænt um hvern króka þess og kima. Mjótt var á munum en í efstu þremur sætunum völdu ungmennin: 3. sæti Þín verslun Seljabraut, 2. sæti Adams Pizza en í 1. sæti völdu þau verslun Braga Björnssonar í Leiksport, Hólagarði. Í rökstuðningi þeirra kom fram að búð Braga sé að þeirra mati perla sem glæði samfélagið þeirra lífi. Gott sé að koma í búðina, þar sé gott úrval af margvíslegum vörum og þjónustan vinaleg. Bragi sé alltaf mættur með bros á vör og reiðubúinn að hjálpa. Ungmenni hverfisins vona að verðlaunin verði hvatning fyrir Leiksport til að halda áfram rekstri sínum til ársins 2030. Við óskum Braga Björnssyni í Leiksport innilega til hamingju.