Breiðholt kemur mjög vel út

– Hvatningarverðlaun skóla og frístundaráðs –

Hjá Miðbergi starfar urmull af hæfileikaríku fagfólki sem gerir sitt besta á hverjum degi til að stuðla að velferð barna og ungmenna í Breiðholti.

Á dögunum var Menntastefnumót Reykjavíkurborgar og af því tilefni voru veitt hvatningarverðlaun skóla og frístundaráðs ásamt því sem tilkynnt var um fyrirmyndarstarfsstaði skóla og frístundasviðs. Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Þau eiga að veita starfsfólki hvatningu, ásamt því að viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Þá eru þau viðurkenning á vel unnu verki og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra. Að þessu sinni var starfsfólk Miðbergs að uppskera ríkulega og hlutu eftirfarandi viðurkenningar:

Félagsmiðstöðin Hundrað&ellefu er í hópi fyrirmyndarstarfsstaða skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar árið 2021. Til grundvallar valinu er meðaleinkunn matsþátta úr viðhorfskönnun borgarinnar 2021 en þar er horft á 4 yfirþætti sem eru: Hæfir og áhugasamir starfsmenn, árangursríkir stjórnunarhættir, starfsánægja og hvetjandi og jákvætt starfsumhverfi.

Félagsmiðstöðin Hólmasel fékk hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir kynfræðslu í Seljahverfinu. „Við erum ótrúlega þakklát og ánægð að fá þessi verðlaun fyrir verkefni sem er okkur mjög kært. Það er ótrúlega gefandi að koma inní báða skólana og fá tækifæri til að fræða og ræða við unglingana í hverfinu um þennan mikilvæga málaflokk  Skólarnir eiga helling í þessu, samstarfið milli okkar allra er ótrúlega dýrmætt og mikilvægt fyrir hverfið í heild sinni.“

Góð hvatning fyrir Bakkahverfið

Frístundaheimilið Bakkasel, félagsmiðstöðin Bakkinn, Breiðholtsskóli og leikskólarnir í Bakkahverfinu hlutu hvatningarverðlaun skóla og frístundaráðs fyrir samstarfsverkefnið Það þarf þorp… sem miðar að því að breyta vinnubrögðum, kennslu og samstarfi alls skóla- og frístundastarfs í hverfinu með það að markmiði að breyta ímynd hverfisins og mæta betur þörfum allra barna.

Félagsmiðstöðvarnar í Breiðholti fengu líka hvatningarverðlaun Samfés fyrir Félagsmiðstöðvarstarf án aðgreiningar.

Það er óhætt að segja að þetta hvetji okkur í Miðbergi áfram til góðra verka og erum við að springa úr stolti yfir þessu flotta fólki.

You may also like...