Tálgarar skapa trélist á Aflagranda
Á hverjum þriðjudegi hittast nokkrir vaskir karlmenn í félagsstarfinu á Aflagranda 40. Auk þess að sýna sig og sjá aðra og fá sér kaffisopa í góðum félagsskap hafa þeir lagt þá list fyrir sig að bregða hnífum og tálga í tré.
Magnús Steingrímsson húsasmíðameistari, sem hefur alið aldur sin á Bráðræðisholtinu rétt þar hjá annast kennslu og tilsögn í trélistinni. Hann segir flesta geta tileinkað sér handabrögðin en auðvitað verði menn misjafnlega leiknir í því eins og öðru sem menn taka sér fyrir hendur. Sumir félaganna hafa fengist við tré áður og aðrir tálgað en ekki allir. Magnús segir það ekki nauðsynlegt og því síður skilyrði að kunna eitthvað fyrir sér í tálgun. Um að gera sé að byrja og síðan skapi æfingin meistarann eins og sést á þessum myndum sem teknar voru af tálgurunum á Aflagranda í janúar.