Fræðslu og heilsubótarstígur í Öskjuhlíð

Á myndinni má sjá fyrirhugaða lögun Perlufestarinnar umhverfis Perluna í Öskjuhlíð.

Perlufestin er heiti á göngustíg sem leggja á ofarlega í Öskjuhlíð og er hugsuð sem lárétt upplifunar-, fræðslu-og heilsubótarhringleið auðþekkt frá öðrum stígum. Heitið Perlufestin kemur til vegna þess að hann verður þráður sem bindur saman allar perlurnar á leiðinni, en þær geta verið: staðir með fróðleik um stríðsminjar, gróðurfar, jarðfræði, sögu grjótnáms eða hitaveitu. Perlurnar geta líka verið lítil rjóður með leikaðstöðu, dvalarsvæðum eða æfingatækjum. Einnig góðir útsýnisstaðir yfir borgina og fjallahringinn. Stígurinn verður hannaður og framkvæmdur af miklum metnaði með það markmið að hann verði aðdráttarafl í sjálfu sér. Stígurinn verður lýstur með hófsamri lýsingu sem fyrst og fremst lýsir á stíginn sjálfan.

Hugmyndin um Perlufestina kom fyrst fram í vinningstillögu Landslags í hugmyndasamkeppni um skipulag Öskjuhlíðar árið 2013. Megininntak tillögunnar var að bæta aðgengi að Öskjuhlíð og Perlunni með tengingum við ytra umhverfi. Með stígnum mætti tengja allar hliðar Öskjuhlíðar saman með láréttum upplifunarhring hringinn í kringum Perluna ofarlega í Öskjuhlíð og auka þannig útivistarmöguleika allra í vaxandi skógi. Útsýnis-og áningarstaðir verði á láréttum upplifunarstíg í kringum háhæðina og að snjóbrædd hringleið verði í suðvesturhluta. Gert er ráð fyrir að nýta afturkræf og endurnýtanleg efni við byggingu stígsins sem unnin verða úr því efni sem fyrir er á staðnum. Perlufestin er næsta verkefni í Öskjuhlíð. Hún er hugsuð sem tæplega 1,5 km langur lýðheilsu- og upplifunarstígur. Áætlað er að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist 2022 og gert ráð fyrir að vinna verkefnið á næstu þremur til fjórum árum. Stígurinn var kynntur í umhverfis- og heilbrigðisráði fyrir skömmu sem upplifunar-, fræðslu og heilsubótarstígur.

You may also like...