Frostaskjól og Kampur í eitt
Á vormánuðum var ákveðið í borgarráði að sameina frístundamiðstöðvarnar Frostaskjól og Kamp í hagræðingarskyni. Þann 1. ágúst síðastliðinn varð því til ein stór og sterk frístundamiðstöð sem þjónusta mun íbúa í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum. Stjórnendateymið skipa Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri, Héðinn Sveinbjörnsson, fjármálastjóri, Steinunn Grétarsdóttir, deildarstjóri barnastarfs og Þorsteinn V. Einarsson deildarstjóri unglingastarfs. Skrifstofa frístundamiðstöðvarinnar verður til húsa í Frostaskjóli 2.
Vettvangur frístundamiðstöðva er frítíminn og starfsemi þeirra miðar að því að efla félagsauð hverfanna. Sérstök áhersla er lögð á frístundastarf fyrir börn og unglinga og mun hin nýja frístundamiðstöð sjá um rekstur frístundaheimila og félagsmiðstöðva í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum ásamt því að vera öflugur aðili í samstarfi við aðra er koma að uppeldisumhverfi barna og unglinga. Leiðarljós frístundamiðstöðva er að börnum og unglingum standi til boða frístundastarf sem hefur uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Áhersla er lögð á virka þátttöku, reynslunám, lýðræði og mannréttindi. Sérstaklega er hugað að því að virkja einstaklinga sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning vegna fötlunar eða félagslegrar stöðu. Starf á vegum frístundamiðstöðva er í eðli sínu forvarnarstarf þar sem unnið er með viðhorf og atferli barna og unglinga í átt til heilbrigðs lífsstíls og virkni í samfélaginu. Nú er leitað að nafni fyrir sameinaða frístundamiðstöð og sett hefur verðið af stað nafnasamkeppni. Íbúar eru hvattir til að taka þátt og senda inn tillögur. Nánari upplýsingar má finna heimasíðum Frostaskjóls og Kamps, á facebook síðum eða á skrifstofu Frostaskjóls/Kamps í síma 411-5700.