Þátttaka í frístunda- og félagsstarfinu hefur vaxið mikið

Helgi Eiríksson, framkvæmdastjóri Miðbergs.

–  segir Helgi Eiríksson framkvæmdastjóri Miðbergs  –

Breiðholt er löngu þekkt fyrir öflugt félagsstarf meðal barna og ungmenna. Segja má að rætur starfsemi félagsmiðstöðva liggi þar en fyrir hartnær 45 árum var félagsmiðstöðinni Fellahelli komið á fót í nýju íbúðahverfi í Efra Breiðholti þar sem margt barnafólk hafi tekið sér ból. Fellahellir var önnur félagsmiðstöðin sem sett var á stofn á eftir Tónabæ sem lengi var í gamla Lídó húsinu við Skaftahlíð þar sem 365 miðlar störfuðu þar til fyrir skömmu. Fellahellir náði strax miklum vinsældum enda beitt úrræðum sem þóttu nýmæli í skóla- og félagsstarfi hér á landi. Frístundamiðstöðin Miðberg í Breiðholti er byggð á þeim grunni sem skapaður var með Fellahelli og byggðar hafa verið upp starfsstöðvar eða félagsmiðstöðvar víðs vegar um Breiðholtið. Sex frístundaheimili eru rekin fyrir barnastarf. Þau eru Álfheimar við Hólabrekkuskóla, Bakkasel við Breiðholtsskóla, Vinaheimar við Ölduselsskóla, Vinasel við Seljaskóla, Regnboginn við Hólmasel safnfrístund fyrir 3. og 4. bekk í Selja- og Ölduselsskóla, Hraunheimar við Hraunberg 12 og safnfrístund fyrir 3. og 4. bekk í Fella- og Hólabrekkuskóla. Fjórar félagsmiðstöðvar eru starfræktar fyrir ungmenni á aldrinum 10 til 16 ára. Þau eru Hundrað&ellefu við Gerðuberg sem  sinnir Hólabrekku- og Fellaskóla. Hólmasel við Hólmasel 4 til 6 sem sinnir Selja- og Ölduselsskóla og félagsmiðstöðin Bakkinn er í Breiðholtsskóla. Sértæka félagsmiðstöðin Hellirinn er við Kleifarsel 18 og veitir þjónustu fyrir 10 til 16 ára börn í Breiðholtinu, Árbæ og Norðlingaholti. Helgi Eiríksson er framkvæmdastjóri Miðbergs. Hann er þar á heimavelli því hann er uppalinn Breiðhyltingur – í Hólahverfinu og starfar nú í Miðbergi. Hann spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

“Ég er hreinræktaður Breiðhyltingur þótt ég búi ekki í Breiðholtinu sem stendur. En ég starfa þar og tengslin hafa aldrei rofnað. Foreldrar mínir fluttu í Hólahverfið þegar ég var fimma ára gamall. Í nýbyggða blokk við Súluhóla. Ég var hér í meira en tvo áratugi. Ég hóf skólagönguna í Hólaborg síðan tók Hólabrekkuskóli við. Þaðan lá leiðin í næsta hús ef svo má segja sem er Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Ég kynntist félagsmiðstöðvastarfinu ungur. Fór stundum yfir í Fellahelli en á þeim tíma var ekki algengt að krakkar úr Hólunum færu út í Fell. Krakkar í Bökkunum komu stundum upp eftir og eins var eitthvað um að krakkar úr Seljahverfi kæmu yfir í Fellin til þess að taka þátt í félag- og tómstundastarfinu. Svo hætti Fellahellir og um svipað leyti ákvað ég að skella mér í nám til Danmerkur. Það var árið 1998. Ég hafði áhuga á ungmennastarfinu og fór í nám sem kallast fridtidapedagogik í Danmörku en hér var þá ekkert nám að finna sem snéri að þessum fræðum. “

Varð að ná tökum á dönskunni

Hvernig var að koma til Danmerkur. “Ég steypti mér bara út í þetta en það varð nokkurt sjokk í fyrstu með dönskuna. Ég kunni auðvitað ekki eins mikið í dönsku og ég hélt. Sérstaklega reyndist erfitt að skilja Kaupmannahafnardönskuna. Ég var mikið með útvarp og sjónvarp opið og reyndi að nýta mér það til þess að ná tökum á tungumálinu og var held ég orðinn sæmilegur um það leyti sem ég fór heim. Fólk var þá farið að spyrja mig hvort ég væri frá Kaupmannahöfn eða kæmi lengra að. Ég átti ekki annars kost en að ná tökum á tungumálinu vegna þess að hluti af námi mínu var í praktik – fór fram á vinnustöðum þar sem töluð var danska. Ég byrjaði til dæmis í praktíkinni í leikskóla sem hjálpaði mér. Krakkarnir voru dugleg að hjálpa mér. Þau leiðréttu mig þegar ég talaði vitlaust og þarna lærði ég mikið. Í ýmsu öðru námi er hægt að nota ensku að meira og minna leyti í Danmörku en praktikin gerði það að verkum að þarna varð ég að ná tökum á dönsku.”

Færri ánetjast en efnin eru sterkari

Eftir námið í Danmörku kom Helgi heim og fór að starfa með Mumma í Götusmiðjunni. “Ég kom heim árið 2002 og byrjaði þá að vinna á Árvöllum þar sem Mummi var með meðferðarúrræði fyrir ungt fólk. Ég þekkti hann aðeins áður en ég fór utan og hafði áhuga á að vinna með krökkum sem þurftu á stuðningi að halda.” Helgi segir að mörg þeirra hafi náð sér á strik en önnur hafi ekki verið eins heppin. En hver er munurinn á þessum vanda þegar hann byrjaði að starfa við hann upp úr aldamótum og nú einum og hálfum áratug síðan. “Hann er nokkuð mikill. Ég held að nú fari hlutfallslega minni hópur út af strikinu að þessu leyti. Mun færri krakkar ánetjast heimi efna en vandinn er engu að síður orðinn meiri. Þetta er orðinn mun harðari heimur. Þegar ég var að alast upp voru tóbaksreykingar og áfengisdrykkja aðal vandamálin. Krakkar reyktu mikið og duttu svo í það um helgar. Margir muna eftir Hallærisplaninu svonefnda og ýmsar frásagnir eru til af útihátíðum fyrri tíma. Þetta hefur breyst mikið. Það heyrir nánast til undantekninga ef krakkar eru að reykja sígarettur og vínnotkun hefur breyst til hins betra. Þau efni sem krakkar eru að nota í dag eru mun sterkari en var og aðgengið að þeim orðið auðveldara. Neysla er fljót að vinda upp á sig ef krakkar byrja að nota þessi sterku efni og þau eru fljótt kominn út í mikinn vanda sem stundum getur reynst erfitt að leysa. Þetta er megin breytingin sem ég hef séð verða á þessum tíma. Tímarnir eru gerbreyttir að þessu leyti.”

Miðberg orðið um 130 manna vinnustaður

En að Miðbergi. Hvenær dettur Helgi inn hjá félagsmiðstöðvunum í Breiðholti. “Það gerðist fyrir 16 árum nánar tiltekið haustið 2002. Þá var ég beðinn um að leysa af hjá Miðbergi í hálfu starfi og vera í hálfu starfi hjá ÍTR í þeim hluta sem snéri að frístundastarfinu. Á þessum tíma var frístundastarfið mun minna í sniðum en nú. Þetta hefur gerbreyst á þessum tíma síðan ég kom fyrst til starfa. Nú eru frístundaheimilin að mestu komin frá grunnskólunum yfir til ÍTR og hér í Breiðholtinu eru þau komin undir Miðberg. Þátttaka í félagsstarfinu hefur líka vaxið mikið. Þegar ég kom fyrst að þessu tóku mun færri krakkar þátt í starfi félagsmiðstöðvanna en í dag er þetta orðin mikill meirihluti. Það eru alltaf einhverjir sem detta út og þá helst krakkar sem stunda íþróttir af miklu kappi því þau hafa ekki tíma eða þörf fyrir meira. Annars er mjög misjafnt hvar börn eru stödd og hversu mikla þörf þau hafa fyrir félags- og frístundastarf. Þegar ég var að byrja voru fáir krakkar af erlendi bergi brotnir en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt. Ég er ekki með tölfræðina alveg í hausnum en þetta eru miklar breytingar og kalla á ýmsar lausnir. Starfið verður stöðugt fjölbreyttara og nú er Miðberg orðinn um 130 manna vinnustaður. Við vinnum líka mun meira með grunnskólanum en var áður. Krafan er um meiri þverfagleg vinnubrögð. Þetta samstarf er árangursríkt þótt það kosti tíma og orku en kemur líka í veg fyrir að fólk lokist inn í einhverjum hólfum. Við erum að vinna með sömu börnin í sama umhverfinu.“

Frístundakortin breyttu öllu

Margt fólk sem flytur hingað erlendis frá þekkir ekki þá frístundamenningu sem hefur þróast hér á landi og veit ekki hvernig það á að notfæra sér hana. “Við erum komin mjög langt á þessari braut,”segir Helgi. “Jafnvel lengra en aðrar Norðurlandaþjóðir. Nú er ég einu sinni til tvisvar í hverjum mánuði að taka á móti fólki frá Skandinavíu sem er komið hingað til þess að kynna sér hvernig við vinnum þetta. Stjórnmálamenn eiga stundum skilið klapp á bakið og ég held að stóra stökkið í þessum efnum hafi verið þegar ákveðið var að taka frístundakortið í notkun. Það opnaði leið margra að félags- og frístundastarfinu. Nú er verið að skoða þessa leið á hinum Norðurlöndunum eftir góða reynslu frá okkur.”

Fjölmenningin gerir lífið skemmtilegra

“Ég nefndi að margt af fólki sem hefur flust hingað og sest að þekkti ekki frístundastarf fyrir börn og ungmenni. Af þeirri ástæðu hefur reynst erfiðara að ná börnum þessa fólks inn í félagsstarfið. Í sumum löndum er atvinnuþátttaka foreldra með öðrum hætti. Minna um að báðir foreldrar vinni utan heimilis. Hér kallar atvinnuþátttakan beinlínis á félags- og frístundastarf. Við þurfum að kynna starfið betur fyrir þessum þjóðfélagshóp. Það er ekkert sem heftir þessa krakka nema þá ókunnugleiki foreldra þeirra því lang flest tala þau íslensku eins og innfædd. Þau eru oft tvítyngt sem er bara eðlilegt. Mörg þeirra eru fædd hér á landi og eiga auðvelt með að samlagast því umhverfi sem þau búa í.” Helgi segir að við eigum ekki að óttast fjölmenninguna. “Nei – alls ekki. Hún gerir lífið skemmtilegra. Fólk verður víðsýnna. Við viljum eiga möguleika á fjölmenningu. Ég man árin mín í Danmörku. Maður kynntist ýmsum þar bæði Dönum og Íslendingum. Sumir Íslendingarnir nenntu ekki að læra dönsku þeir gátu komist upp með að nota ensku sem vissulega er hægt í vissum tilfellum. Hvað okkur varðar þá held ég að öllum sem koma til með að setjast hér að til frambúðar sé nauðsynlegt að læra íslensku eins vel og þeir geta. Það auðveldar öll samskipti og þó að við séum orðin vön að nota ensku þegar útlendingar eiga í hlut þá er íslenskukunnáttan mikilvæg þegar kemur að því að falla inn í samfélagið.” Helgi segir að þátttaka í félags- og frístundastarfinu fari nokkuð eftir árgöngum. En á bilinu 70% til 80% komi að minnsta kosti öðru hvoru. En tölfræðilegi munurinn fari minnkandi með hverju ári. „Krakkahópurinn er að vera meira eins og ein heild. Það myndast vinahópar og þar skiptir aðstaða og þjóðerni oftast ekki máli.“

You may also like...