Verðlaunahús við Tjarnargötu og Ránargötu

tjarnargata-36-1

Tjarnargata 36.

Tjarnargata 36 og Ránargata 24 í Vesturbæ Reykjavíkur eru á meðal þeirra húsa sem hlutu viðurkenningar í ár fyrir endurbætur á eldri húsum og fallegar stofnana-, fyrirtækja- og fjölbýlishúsalóðir. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur afhentu viðurkenningarnar á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst.

Tjarnargata 36 var byggð af Sveini M. Sveinssyni sem jafnan var kenndur við Timburverslunina Völund og var faðir; Haraldar, Leifs og Sveins Sveinssona sem allir voru þekktir borgarar í Reykjavík. Leifur Sveinsson bjó lengst í húsinu en það var byggt sama ára og hann fæddist 1924. Eftir lát hans sótti Bergljót dóttir hans um að gera breytingar á því meðal annars til þess að færa það nær fyrra útliti og stíl en því hafði verið breytt nokkuð í tímans rás. Ekki hefur verið búið í húsinu frá því Leifur flutti þaðan en hann dvaldi síðustu æviárin á Grund. Húsið hýsti áfram bóka- og listaverkasafn hans sem var verulegt að verðleikum enda Leifur ötull safnari. Hugmyndir hafa verið um að koma á fót safni listaverka Júlíönu Sveinsdóttur, föðursystur Völundarbræðra í húsinu en hún var einn af þekktari myndlistarmönnum á fyrri hluta 20. aldar og mörg verka hennar voru í eigu Leifs. Húsið við Ránargötu 24 hefur farið í gegnum umtalsverðar lagfæringar á undanförnum árum. Eigendur þess eru Kristján Geir Pétursson lögfræðingur og Henny Gunnarsdóttir Hinz hagfræðingur ASÍ. Auk þessara húsa í Vesturborginni hlaut Laugavegur 12, Le Bistro verðlaun fyrir lóð og umhverfi. Í öðrum hverfum hlutu fjórar lóðir verðlaun. Kex hostel við Skúlagötu og fjölbýlishúsalóðir við Sóltún, Mánatún og Maríubakka.

ranargata-24-1

Ránargata 24.

You may also like...