Fimm stelpur úr Melaskóla til Ungverjalands

Eva Steinunn, Freydís, Ísold, Helena og Kolfinna kynntu meðal annars íslenskan mat; harðfisk, hangikjöt og sælgæti í skólanum sem þær heimsóttu í borginni Kecskemét í Ungverjalandi. 

Fimm stelpur úr sjöunda bekk Melaskóla fóru til Kecskemét í Ungverjalandi dagana 8. til 12. mars sl. Ferðin var farin á vegum Erasmus+ samstarfsins en Melaskóli er í samstarfi við Danmörku, Finnland, Kýpur, Spán og Ungverjaland í verkefni sem heitir „Sterkari saman“ og er ætlað að vinna gegn hvers kyns einelti, efla hugrekki, vináttu, virðingu, umburðarlyndi, félagsfærni og sjálfseflingu. Í Melaskóla er unnið eftir eineltisáætlun Olweusar;

“Við flugum til Budapest og héldum þaðan til Kecskemét þar sem við heimsóttum skóla á sama stigi og okkar. Þarna voru kakkar frá hinum löndunum sem taka þátt í þessu sama verkefni. Margt er ólíkt í Ungverjalandi en því sem við eigum að venjast. Maturinn er öðruvísi og ýmsa venjur eru okkur framandi.  Við vorum dálítið í íþróttum og  það kom okkur á óvart að stelpur áttu að vera í handbolta en fótboltinn væri fyrir stráka. Við fórum á sveitabæ og tókum sérstaklega eftir hvernig hestarnir voru tamdir. Þeir lögðust niður til að auðveldara væri að fara á bak en þeir eru nokkru stærri en okkar hestar. Við áttum líka að velja og kynna nokkra Íslendinga. Við kynntum Vigdísi Finnbogadóttur sem fulltrúa fyrir hugrekki. Björk Guðmundsdóttur sem listamann og Össur Kristinsson sem uppfinningamann. Fyrir manngert umhverfi kynntum við Bláa lónið og Þingvelli fyrir náttúrlegt umhverfi.”

Stelpurnar eru sammála um að ferðin hafi verið bæði viðburðarík og skemmtileg. Þær voru búnar að eiga spjallfundi á netinu við aðra krakka sem væntanlegir voru sömu erinda til Kecskemét og það var búið að byggja upp tilhlökkun og spennu. “Nei við urðum ekki fyrir vonbrigðum heldur þvert á móti. Samskipti okkar á milli var á ensku og við hjálpuðumst að við að skilja hvert annað.

Við sátum heldur ekki stöðugt í skólanum. Við fórum á veitinga-staði og gerðum ýmislegt saman enda hluti af prógramminu að leyfa krökkum frá ólíkum löndum að kynnast.” Með stelpunum í för voru þrír kennarar frá Melaskóla, Guðný Rósa Sigurbjörnsdóttir, umsjónarmaður verkefnisins og henni til halds og trausts voru Anna Guðmundsdóttir og Jórunn Pálsdóttir.

You may also like...