Bætt starfsaðstaða Leikskóla Seltjarnarness

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Ný vinnuaðstaða fyrir kennara í Leikskóla Seltjarnarness var sett upp við Mánabrekku í sumar og verður tekin í notkun síðar í mánuðinum. Þessa dagana er verið að setja inn búnað og leggja lokahönd á tengingar og frágang hússins. Húsið sem gengur undir nafninu „Höllin“er með starfsaðstöðu fyrir allt að fimm manns og kærkomin viðbót við húsnæði leikskólans.

Leikskólakennarar munu nú eiga mun auðveldara með að sinna undirbúningi í leikskólanum og aðstaða fyrir skrifstofuvinnu, fundi, foreldraviðtöl og annað sem fylgir starfseminni batnar til muna auk þess sem aukið rými skapast fyrir aðra starfsemi í Mánabrekku og Sólbrekku. Til viðbótar við þessa nýju starfsaðstöðu voru talsverðar endurbætur gerðar á lóðum leikskólans í sumar sem bæta leikaðstöðu og auka öryggi barnanna. Leikskólastarfið er nú komið í fullan gang og í ágústmánuði sl. hófu 58 börn frá 14 mánaða aldri leikskólagöngu, en alls eru 196 börn í leikskólanum. Aðlögun yngstu barnanna hefur gengið vel, en sá háttur er hafður á að öll ný börn byrja á sama tíma og aðlögun lýkur mun fyrr en áður tíðkaðist. Í starfsáætlun leikskólans, sem kynnt hefur verið foreldrum, verður á skólaárinu lögð áhersla á forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti sem nefnist Vinátta, auk þess sem tónlist, SMT – skólafærni og umhverfismennt skipa að vanda veglegan sess í dagskránni. Læsi og lestrarhvetjandi verkefni verða hluti að daglegri starfsemi auk þess sem unnið verður sérstaklega með hreyfingu yngri barna í samstarfi við Hreyfiland og hreyfingu þeirra eldri í samstarfi við Gróttu.

You may also like...